Varðhundar valdsins

Það virðist vera almenn skoðun á Íslandi að fjórflokknum sé mikið í mun að verja völd sín og áhrif og að það verði að losa sig við fjórflokkinn til þess að hér verði nauðsynlegar breytingar og að þjóðfélaginu miði eitthvað áfram.

Það er auðvitað ýmislegt til í þessu en ég er ekki alveg viss um að varðastaðan um völdin sé meðvituð af fjórflokknum.   Í öllum flokkum er fólk sem er umbótasinnað og vill leggja gott til málanna en góðar tillögur fást oft ekki ræddar eða deyja á leiðinni í einhverju svartholi sem erfitt er að festa hönd á.

Ég tel að hin raunverulega hræðsla við breytingar liggja dýpra í stjórnkerfinu, en ekki í þingflokkum eða stofnunum fjórflokksins.   Þegar íslendingar fengu fyrsta ráðherrann 1904 voru ákveðin völd flutt frá Kaupmannahöfn til Reykjavíkur.  Frá embættismannastétt í Danmörku til nýrrar embættismannastéttar á Íslandi.  Völdin voru aldrei flutt til fólksins.

Skýrt dæmi um það hvernig embættismennirnir hanga á völdunum er skipting opinbers rekstrar á Íslandi milli ríkis og sveitarfélaga.  Þar eru hlutföllin öfug við það sem gerist hjá þeim þjóðum sem við miðum okkur við.  Hér fer ríkisvaldið með 70% af opinberum útgjöldum og sveitarfélög aðeins 30%, en þetta alveg öfugt í nágrannalöndunum.  Hér hefur byggst upp miðstýrt íhaldssamt ríkisvald sem deilir og drottnar og á mikinn þátt í byggðaþróun undanfarinna áratuga.

Fjárveitingar eru meira og minna háðar duttlungum embættismanna sem afgreiða tillögur kjörinna fulltrúa þjóðarinnar með setningunni "þetta er ekki hægt" þegar lagðar eru til róttækar breytingar. Ef ráðherra eða þingmenn láta ekki segjast er skipuð nefnd embættismanna sem sitja svo makindalega á málinu þar til það deyr drottni sínum með nýrri stjórn.

Hugmyndum um stjórnlagaþing var nánast slátrað af þessum varðhundum valdsins og núna er aðeins rætt um einhvern málamyndagjörning með ráðgefandi fámennt þing og þröskulda sem gera almennum áhugamönnum um stjórnsýsluna erfitt fyrri að bjóða sig fram.  Allt til að tryggja að réttir menn komist að og að ekki verði nú gerð nein "mistök".

Ég hef verið dyggur talsmaður stjórnlagaþings en er nú farinn að efast.  Ég held að ráðgefandi fámennt stjórnlagaþing muni ekki skapa nýtt upphaf og sátt í samfélaginu.   Það var gaukað að mér hugmynd um helgina sem ég held að sé alveg þess virði að skoða nánar.

Hvernig væri að Ísland efndi til samkeppni um nýja stjórnarskrá.  Háskólar víðsvegar um heiminn gætu tekið þátt og skrifað nýja stjórnarskrá fyrir Ísland.  Dómnefnd veldi síðan þrjár tillögur úr innsendum hugmyndum og þjóðin fengi að kjósa milli þriggja tillagna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gísli Sigurðsson

Ég fellst á að það sé vandamál að völdin sem áður voru í Kaupmannahöfn séu nú í Reykjavík. Lausnin á því vandamáli er hinsvegar ekki sú að flytja þau til Brussel. Ef embættismannakerfið í Reykjavík getur "slátrað" hugmyndum um stjórnlagaþing, þá væru slíkar hugmyndir andvana fæddar gagnvart embættismannabákninu í Brussel. Það eina sem þarf til að koma á gagnlegu stjórnlagaþingi, sem ég styð heilshugar, er raunverulegur vilji meirihluta þingmanna. Það eru lélegir þingmenn sem skýra getuleysi sitt með ofríki embættismanna. "Árinni kennir illur ræðari".

Gísli Sigurðsson, 29.3.2010 kl. 16:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband