Krónur og aurar

Undanfarið hafa komið upp mörg dæmi sem sýna að þjóðin ætlar sér ekki að læra neitt af hruninu.  Menn halda áfram að bera það á borð að engar reglur hafi verið brotnar og neita að setja siðferðislegan mælistokk á gjörðir manna.  

Umræðan um aðild að ESB endurspeglar það viðhorf ráðamanna og stórs hluta þjóðarinnar að það sé fullkomlega eðlilegt að mæla allar gjörðir manna út frá krónum og aurum.  Sjálfstæðisflokkurinn fullyrðir að aðild að ESB snúist bara um ískalt hagsmunamat, bara um krónur og aura.  

Það er dæmi um siðblindu á hæsta stigi að horfa framhjá allri hugmyndafræði, framtíðarsýn, skipulagi, markmiðum, samvinnu og lýðræði og horfa bara á krónur og aura.  það er þessi árátta Íslendinga að nota bara einn mælikvarða á allt samfélagið "Krónur og aura" (eða á ég að segja jeppa og snjósleða) sem kom okkur í þá stöðu sem við erum í dag.

Það er ábyrgðarhluti að stýra umræðunni um ESB í það far að allt snúist um annaðhvort krónuna eða evruna.  Aðild að ESB er svo miklu meira en það.  Hagsmunaðilar t.d. bændasamtökin eru ekki að miðla upplýsingum til sinna umbjóðenda um kosti og galla aðildar.  Þar hafa nokkrir menn tekið sér alræðisvald og gera umbjóðendum sínum engan möguleika til að leggja sjálfstætt mat á aðild.  Forystumenn bænda hafa reiknað aðildina út í krónum og aurum án þess að hafa neitt í höndunum til þess og komist að fyrirfram gefinni niðurstöðu og predika hana sem hinn eina stóra sannleik.

Hvað sem líður aðild að ESB eða ekki er alveg ljóst að mótun Íslensks samfélags mun að miklu leiti fara fram á Evrópuþinginu næstu árin og áratugina.  Við verðum að taka upp sífellt meira af löggjöf ESB til að viðhalda aðgangi okkar að innri markaðnum. 

Það er hrein uppgjöf gagnvart kjósendum ef við Íslendingar ætlum ekki að sækjast eftir því að taka þátt í að móta framtíðina og sætta okkur við að fá lög og reglur áfram send í tölvupósti.  Það ber ekki vott um mikinn metnað stjórnmálamanna fyrir hönd þjóðarinnar ef þeir sætta sig við að lög og reglur séu þýddar og túlkaðar af embættismönnum og að hlutverk Alþingis sé að stimpla og afgreiða.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

"Hvað sem líður aðild að ESB eða ekki er alveg ljóst að mótun Íslensks samfélags mun að miklu leiti fara fram á Evrópuþinginu næstu árin og áratugina".

Það er vissulega þarft að byrja að ræða fleira en krónurnar og auranna. T.d má ræða stjórnskipan sambandsins.

Kæmi þá upp úr dúrnum að lög sambandsins eru að mjög litlu leiti smíðuð á vettvangi Evrópuþingsins. Það eru fyrst og fremst ráðherraráðið og embættismenn framkvæmdastjórnarinnar sem koma að lagasetningu.

Í samræmi við 99. gr. EES samningsins hefur Ísland þegar aðkomu að tæknivinnunni. Það sem myndi vinnast við inngöngu í ESB væri 0,06% atkvæðavægi í ráðherraráðinu.

Í skiptum myndi Ísland taka upp löggjöf sambandsins í málflokkum á borð við sjávarútvegsmál, ytri tollamál, landbúnaðarmál, orkumál, skattamál, utanríkis- og varnarmál, löggæslumál o.s.frv. sem nú eru okkur óviðkomandi.

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 27.4.2010 kl. 16:31

2 Smámynd: G. Valdimar Valdemarsson

Þetta er rangt hjá þér Hans.  Meginþungi stefnumótunar og lagasetningar ESB  fluttist frá framkvæmdastjórn og ráðherraráði til Evrópuþingsins 1. desember sl. þegar Lissabon sáttmálinn gekk í gildi.

G. Valdimar Valdemarsson, 27.4.2010 kl. 16:38

3 identicon

Lissabonsáttmálinn eflir þingið í aðhaldshlutverki sínu. Það er hinsvegar ansi vafasamt að halda því fram að þing sem ekki hefur sjálfstætt vald til þess einu sinni að hafa frumkvæði að lagasetningu sé leiðandi í stefnumótun.

Hlutverk þingsins er útlistað í greinum 223-234 í Lissabonsáttmálanum. Hér er hægt að lesa hann með í aðgengilegu formi með stikkorðum og athugasemdum á spássíum.

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 27.4.2010 kl. 16:51

4 Smámynd: G. Valdimar Valdemarsson

Enn rangt hjá þér Hans.  Lestu article 223 á síðu 120 í sáttmálanum og þá sérstaklega 3. málsgrein.

G. Valdimar Valdemarsson, 27.4.2010 kl. 16:58

5 identicon

Grein 223 fjallar um þingssköp, ekki Evrópulög.

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 27.4.2010 kl. 17:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband