Vertu sæl Anna

Ég get ekki látið hjá líða að kveðja Önnu Kristinsdóttur með nokkrum orðum nú þegar hún gengur úr Framsóknarflokknum.   Anna gefur til kynna að brotthvarf hennar tengist því að ekki sé unnið neitt pólitískt starf í flokknum í dag.    Hún heldur því jafnframt fram að hún hafi beitt sér fyrir "betri vinnubrögðum" innan flokksins. 

Ég hef verið formaður málefnanefndar miðstjórnar Framsóknarflokksins undanfarin ár og hef aldrei orðið var við að Anna gagnrýndi þau vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið í málefnastarfi flokksins.   Ég hef beitt mér fyrir aukinni aðkomu almennra flokksmanna að málefnastarfinu.   Fyrir síðasta flokksþing störfuðu 12 málefnahópar að málefnavinnu og voru tilnefndir 4 í hvern hóp af málefnanefnd til að leiða starfið og að öðru leiti voru hóparnir opnir öllum flokksmönnum og þeir hvattir til að taka þátt.   Niðurstaðan var að það voru um 100 manns sem komu að málefnaundirbúningi fyrir flokksþingið.   Anna var tilnefnd til að leiða starfið í þeim hóp sem fjallaði um málefni sem heyrðu undir félagamálaráðuneytið og henni stóð til boða að starfa í öllum þeim hópum sem áhugi hennar stóð til.   Hún getur því ekki haldið því fram að framhjá henni hafi verið gengið.  

Í dag starfa 6 hópar að málefnastarfi, málaundirbúningi og aðstoð við þingmenn í einstökum málum.  Þessir hópar hafa verið öllum opnir og kallað eftir fólki til starfa í þeim á öllum kjördæmisþingum í haust.  Þeir hafa verið kynntir á tveimur fundum miðstjórnar þar sem Anna situr.  Hún hefur ekki kosið að starfa þar og hún hefur ekki kosið að koma athugasemdum um starfið á framfæri við mig.  Ég get því ekki tekið gagnrýni hennar á flokksstarfið til mín og get ekki komið auga á þá sem hún er að gagnrýna. 

Á miðstjórnarfundi á Akureyri fyrir tæpum tveimur vikum, þar sem Anna sat, kom ekki fram gagnrýni á það starf sem fram fer í málefnastarfi flokksins,  hvorki frá Önnu eða öðrum.  Anna kom heldur ekki fram með gagnrýni á stefnu flokksins í einstökum málum.   Þar kom aftur á móti fram tillaga um stuðningsyfirlýsingu við nýjan meirihluta í borgarstjórn og við borgarfulltrúa flokksins og var sú tillaga samþykkt.   Kannski sárnaði Önnu það að miðstjórn skyldi lýsa yfir stuðningi við fyrrum andstæðing sinn í prófkjöri vegna síðustu borgarstjórnarkosninga ?   Kannski var það samstaða borgarfulltrúa og varaborgarfulltrúa sem þar kom fram sem veldur því að Anna kýs nú að axla sín skinn og hverfa úr flokknum? 

Ég óska Önnu alls hins besta og vona að hún finni sýnum pólitíska áhuga farveg og hlakka til að eiga við hana skemmtileg skoðanaskipti á þeim vettvangi sem hún velur sér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Kristinsdóttir

Ágæti Valdimar,

Þakka hlý orð í minn garð. Veit að þú varst sjálfur í þeim sporum fyrir nokkrum misserum að vera við það að segja þig úr flokknum og veist því hvað slíkt kostar mikla sjálfskoðun. Mín ákvörðun var ekki skyndiákvörðun og margir þættir komu þar að.

Ég tók að mér að leiða starfs í vinnuhóps um félagsmál fyrir s.l. flokksþing og veit því vel um virkni flokksmanna í því. Bendi þér á að fá um það upplýsingar hjá skrifstofu flokksins hversu fjölmennur hópur tók þar þátt.

Ég skráði mig í einn af þessum ágætu hópum, félags og heilbrigðismál, en hann hefur því miður ekki  enn verið kallað til fundar þótt skráningar hafi hafist á liðnu vori.  

Kannski það sé ástæða fyrir þig sem formann málefnastarfsins að kalla eftir upplýsingum um  skráningu einstakra félagsmanna í málefnastarfið áður en þú tjáir þig um skráningar í einstaka hópa.

Bendi þér jafnframt á að lesa fundargerðarbækur miðstjórnarfunda ef þú vilt finna ummæli mín á fyrri fundum miðstjórnar um hugmyndafræði eða öllu heldur skort á henni í flokknum og tillögur til aðgerða. 

Óska þér jafnframt velfarnað í áframhaldandi störfum þínum í flokknum,

Anna Kristinsdóttir, 22.11.2007 kl. 14:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband