Galdrabrennur samtímans

Undanfarið hafa fjölmiðlamenn og þjóðþekktir einstaklingar farið mikinn í opinberri umræðu í leit að sökudólgum.   Orðfæri, ásakanir og áburður þessa fólks á hendur nafngreindum einstaklingum er ekki til mikillar fyrirmyndar.  

Ég efa það ekki að það má finna dæmi um lögbrot og vafasama gjörninga margra einstaklinga í aðdraganda bankahrunsins.   Einnig má eflaust benda á einstaklinga og stofnanir sem sváfu á verðinum og flutu sofandi að feigðarósi.

Það gefur samt ekki skotleyfi á alla þá sem komu að málum á einn eða annan hátt.   Stjórnvöld hafa loksins sett af stað rannsókn á aðdraganda bankahrunsins og endurskoðunarfyrirtæki hafa skilað skýrslum um starfssemi bankanna í aðdragandanum.   Allt þetta er mikilvægt til að tryggja að allar upplýsingar liggi fyrir og við getum dregið þá til ábyrgðar sem fóru framúr sér og brutu lögin og ekki síst til að læra af þeim mistökum sem gerð voru.

Íslendingar hafa hingað til talið sig búa í réttarríki þar sem allir eru saklausir þar til sekt er sönnuð en síðustu vikur hafa sjálfskipaður postular almennings brugðið sér í dómarahlutverk og útdeila sekt til hægri og vinstri án þess að þurfa að færa nokkur rök fyrir máli sínu.

Nú er svo komið að það berast fréttir t.d. innan úr bönkunum að þar þori sig enginn að hreyfa af ótta við að lenda á galdrabrennum einstakra fjölmiðlamanna.   Ákvörðunarfælni í bönkunum er farin að skaða verulega hagsmuni fyrirtækja sem þangað leita eftir úrlausn sinna mála og tefur eðlilegar aðgerðir sem nauðsynlegar eru til að bjarga verðmætum og tryggja vinnu.

Aðhald fjölmiðla er nauðsynlegt í samfélaginu en það er vandfarið með það vald sem fjölmiðlar hafa og því mikilvægt að vandað sé til verka og ekki farið fram af offorsi og með órökstuddar dylgjur og fullyrðingar.   Það skaðar málstaðin og veldur einstaklingum og fjölskyldum þeirra ónauðsynlegum þjáningum.  Nægur er vandinn samt.  

Krafan um skýrar og einfaldar reglur þar sem allir sitji við sama borð er sjálfsögð og eins krafan um að allt sé rannsakað og uppi á borðum um aðdraganda bankahrunsins.   Þar eiga fjölmiðlar að veita aðhald og koma með ábendingar í stað þess að setja sig í dómarasæti og fara fram með illa dulbúnar hótanir og órökstuddar fullyrðingar.

    


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Góður pistill!

Vilhjálmur Þorsteinsson, 5.1.2009 kl. 16:04

2 Smámynd: Ragnar Eiríksson

Þú segir "Það skaðar málstaðin og veldur einstaklingum og fjölskyldum þeirra ónauðsynlegum þjáningum."

Það hefur enginn bankamaður tekið pokann sinn af frjálsum vilja og farið - e.t.v. fáeinir með fullar hendur fjár!    Það stendur yfir stríð við bankana, bæði þá nýju og gömlu og það er óhreint loft kringum þessar stofnanir og mikil leynd.    Í stríði falla margir saklausir - "af 500 föllnum á Gaza er hátt í helmingurinn börn".      Í okkar stríði munu vonandi engir falla og þeir sem eru saklausir vonandi gróa sára sinna.    Það eru bara margir sárir í þjóðfélaginu - hópur fólks reyndar að flýja, sárt og biturt.

Því miður eru Gróusögurnar nauðsyn - þær hafa oftar en ekki reynst sannleikur.

Ragnar E.

Ragnar Eiríksson, 5.1.2009 kl. 19:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband