Eignatilfærsla heilagrar Jóhönnu

Tveir bræður voru misjafnlega staddir í byrjun október síðastliðnum. Annar átti skuldlítið hús  og auk þess 20 milljónir á verðtryggðum reikningi, en hinn hafði nýlega byggt sér hús og eytt í það sínum peningum og tekið að auki 20 milljónir að láni. Með neyðarlögum Geirs og Jóhönnu var ákveðið að ríkið styrkti þann sem átti peninga á bók um tæpar 17 milljónir, það er það sem upp á vantaði að tryggingasjóður innlána tryggði hans innlán. Hækkun vísitölunnar hefur síðan styrkt hann um 5 milljónir í viðbót, þannig að nú hefur hann fengið um 22 milljónir í styrki sem einhver þarf að borga, því peningar verða ekki til af sjálfu sér.

Hinn sem skuldaði hefur hins vegar ekki fengið neina styrki, einungis góð orð Jóhönnu um að börnin hans muni ekki svelta þegar hann verður orðinn gjaldþrota, sem hann verður væntanlega fljótlega. Lánið hans hefur nefnilega hækkað í um 25 milljónir og afborgunin samkvæmt því. Það er nefnilega hann sem er látinn borga styrkina til þess sem átti peninga fyrir hrun.

Þetta er eignatilfærsla sem ekki er hægt að sætta sig við. Svo leyfir Jóhanna sér að tala um eignatilfærslu þegar mönnum dettur í hug að kannski væri rétt að leiðrétta að hluta þennan glæp sem hún framdi með Geir í október. Heyr á endemi!

Sanngjarnast væri að færa vísitöluna aftur fyrir hrun þannig að sú niðurfærsla höfuðstóls skulda sem menn ræða nú um, væri greidd af fjármagnseigendum en ekki bara tekin af sköttum okkar sem skuldum. Það hefur hins vegar enginn þorað að nefna. Jóhanna stendur ásamt VG dyggan vörð um fjármagnseigendur eins og hún gerði með Sjálfstæðismönnum áður. Og kennir sig svo við jafnaðarstefnu!!!! Sveiattann!!!!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Innistæður á bankareikningum eru forgangskröfur og því má gera ráð fyrir að þær hefðu fengist greiddar upp í topp.

Matthías Ásgeirsson, 26.3.2009 kl. 13:50

2 Smámynd: G. Valdimar Valdemarsson

Innistæður voru gerðar að forgangskröfum með neyðarlögum  í október í boði Jóhönnu og Geirs.   Það hefur ekki verið látið reyna á lögmæti þess fyrir dómsstólum en þeir eru margir sem telja að sá gjörningur standist ekki lög.  Þar eru kröfuhafar settir aftur fyrir innistæðueigendur og öllum forsendum breytt í skjóli nætur.  Það er nú ekki víst að þeir sætti sig við það og líklegt að það verði látið á það reyna.  Þá fellur allt dæmið á ríkissjóð og skattgreiðendur.  Enn í boði Jóhönnu og Geirs.

G. Valdimar Valdemarsson, 26.3.2009 kl. 14:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband