Íhaldið og stjórnarskráin

Nú hefur landsfundur Sjálfstæðisflokksins samþykkt ályktun um Evrópumál.  Ályktun sem sýnir svo ekki verður um villst að sú stefna íhaldsins að málið væri ekki á dagskrá hefur beðið skipbrot.  Umræðan er svo óþroskuð innan flokksins að hann er ekki fær um að taka efnislega afstöðu heldur pakkar málinu inn í umbúðir til að komast hjá því að hafa stefnu.

Þetta könnumst við Framsóknarmenn vel við.  Við fórum í gegnum 7 ára umræður um Evrópumál áður en flokksþing okkar komst að þeirri niðurstöðu að ganga ætti til aðildarviðræðna við ESB með vel skilgreind samningsmarkmið í farteskinu.  Samningsmarkmið sem miðað að því að halda vel á hagsmunum lands og þjóðar í væntanlegum viðræðum.

Sjálfstæðisflokkurinn kýs að fela sig bak við þjóðaratkvæðagreiðslur um það hvort ganga eigi til aðildarviðræðna og síðan einnig um niðurstöðuna.   Það væri nú gott og blessað að hafa þessa afstöðu ef hugur fylgdi máli.  Nú er einmitt verið að ræða á Alþingi breytingar á stjórnarskrá og stjórnlagaþing sem miðar að því að auka lýðræði og áhrif kjósenda á stærri mál.  Þar berst íhaldið á hæl og hnakka gegn öllum tillögum.

Það er ljóst að Alþingi getur ekki framselt vald til þjóðarinnar með almennum lögum, það þarf að gerast með breytingu á stjórnarskrá.  Það er engin heimild í dag í stjórnarskrá til að samþykkja að vísa máli í þjóðaratkvæði sem síðan bindur hendur þingmanna í framhaldinu.

Þetta vita Sjálfstæðismenn mæta vel en samt er eftirfarandi setning í samþykkt landsfundarins:

"Landsfundur telur að setja skuli ákvæði í almenn lög um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna og þær lágmarkskröfur sem gera á um stuðning við mál á Alþingi og við þjóðaratkvæðagreiðslu."

Ákvörðunarfælnin og sýndarmennskan er enn við völd í Valhöll og í lengstu lög er allt gert til að komast hjá því að hafa skýra stefnu.   Hvernig væri nú í framhaldi af þessari samþykkt að þingmenn flokksins færu að taka þátt í þeirri vinnu sem stendur á Alþingi við breytingar á stjórnarskrá og undirbúning fyrir stjórnlagaþing í stað þess að koma fram sem varðhundar valdsins.   

Ef þeir gera það ekki eru þeir marklausir og flokkurinn ekkert annað en sama gamla tuggan í nýjum umbúðum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband