Bloggfærslur mánaðarins, mars 2008

Fílabeinsturninn heitir Valhöll

Nú hefur fjármálaráðherra sent umboðsmanni Alþingis svör vegna fullkomlega eðlilegra spurninga sem hann sendi ráðherranum vegna umdeildrar skipunar héraðsdómara.  Nú bregður svo við að ráðherra kýs að gera umboðsmanni upp skoðanir í svarinu og gefa sér að hann hafi fyrirfram mótaðar skoðanir.   Það er alvarlegur hlutur ef ráðherra treystir ekki stjórnsýslunni að ég tali nú ekki um umboðsmanni Alþingis sem starfar í umboði löggjafans.   þessi sami ráðherra á aðild að því að fá ríkisendurskoðanda til að gera úttekt á umdeildum sölum eigna á Keflavíkurflugvelli, hann velur ríkisendurskoðanda til málsins þrátt fyrir að hann sé endurskoðandi Þróunarfélagsins sem selur eignirnar.   Það er greinilega hafið yfir gagnrýni að áliti íhaldsins en það má gera umboðsmann tortryggilegan áður en hann kveður upp nokkurn úrskurð.  Er ekki kominn tími til að ráðherrann fari að eðlilegri stjórnsýslu og Flokkurinn að lögum og reglum í landinu.   Það er augljóst af gerðum íhaldsmanna undanfarið að þeir búa í fílabeinsturni og telja að lögin nái ekki yfir Flokkinn og gæðinga hans heldur séu bara gerð fyrir okkur hin að fara eftir.

Þjóðstjórn í borginni er eðlileg krafa hins hugsandi manns.

En er það rétt að henda bjarghring til íhaldsins í þeirri stöðu sem þeir hafa komið sjálfum sér í.  Það er skiljanlegt að menn hafi áhyggjur af því ástandi sem upp er komið í Reykjavík og vilji reyna að skipa málum þannig að líklegt sé til árangurs.  En hver er staðan?  Borgarstjóri er leppur Vilhjálms Þ Vilhjálmssonar og situr í hans skjóli og Vilhjálmur hefur öll spilin á hendi þegar kemur að því að ákveða hver tekur við af núverandi borgarstjóra.  

Það er ljóst að innan borgarstjórnarflokks íhaldsins er hver höndin uppi á móti annarri og amk þrír sækjast eftir því að verða borgarstjórar þegar kemur að þeim að taka við.  Gísli Marteinn og Hanna Birna njóta takmarkaðs stuðnings í eigin röðum og hugnast greinilega ekki Vilhjálmi.  Það er því líklegt að ef hann tekur ekki sjálfur stólinn muni hann setja Júlíus Vífil sem borgarstjóra sem einhverskonar málamiðlun í þeirri baráttu sem er innan borgarstjórnarflokksins.  Júlíus Vífill hefði því forskot í komandi prófkjöri og væri líklegasti kostur sem borgarstjóraefni í komandi sveitarstjórnarkosningum.  

Allt þetta klúður skrifast á Sjálfstæðisflokkinn og það er ekki hlutverk minnihlutans í borgarstjórn að rétta þeim hjálparhönd við að klóra yfir klúðrið.   Það eru augljósir hagsmunir hluta Sjálfstæðisflokksins að losa þá pattstöðu sem þeir hafa komið sér í og þaðan eru þessar raddir um þjóðstjórn í Reykjavík sprottnar.  Ég segi nei takk, látum þá taka til eftir sig og leysa sín mál án hjálpar frá minnihlutanum.

Þetta er svo niðurlægjandi !!!!!!!!!

Fyrirsögnin er blogg formanns ungra jafnaðarmanna um fréttina „Nýtt álver gæti aukið hagvöxt“

Það hlýtur að vera öllum sem fjalla um stöðu efnahagsmála og atvinnulífs áhyggjuefni þegar ungir stjórnmálamenn láta tilfinningarnar ráða en ekki rökin í stjórnmálaumræðu.  Í áratugi hafa menn barist við að auka fjölbreytni í atvinnulífi landsbyggðarinnar og hvernig nýta má þær auðlyndir sem einstök svæði hafa uppá að bjóða.   Þegar stjórnmálamenn sem vilja láta taka sig alvarlega hafa ekkert málefnalegra til málanna að leggja en þetta er ekki nema von að illa gangi.  Staða efnahagsmála á Íslandi í dag er grafalvarlegt mál, það eru líkur á fjöldaatvinnuleysi sem kann að leiða til gjaldþrota fjölmargra heimila með þeim fjölskylduharmleikjum sem því fylgja.  Vonandi er þessi skoðun ekki almenn innan ungra jafnaðarmanna og Samfylkingarinnar.  Þá er illa komið fyrir þjóðinni.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband