Stjórnmálin eru fyrir fólkið

Að afloknum kosningum er ljóst að gömlu stjórnmálaflokkarnir eru ekki að svara kalli fólksins.  Allir geta flokkarnir fundið ljós í kosningaúrslitunum en samt er dómur kjósenda skýr.   Kosningaþátttaka er að dragast saman og æ fleiri lýsa óánægju sinni með stjórnmálaflokkanna með því að mæta á kjörstað til að skila auðum seðli.  Skýrari skilaboð er ekki hægt að gefa.

Stjórnmál snúast um traust og þau snúast um skýra valkosti.  Kjósendur vilja vita hvers er að vænta af flokkunum ef þeir treysta þeim til valda.  Ég tel að vandi gömlu flokkanna sé að hluta til fólgin í því að það veit enginn fyrirfram hvað þeir gera eftir kosningar. 

Stjórnmálaflokkar eru fólkið sem starfar í flokkunum.  Undanfarin ár fjölgar stöðugt fólki sem vill ekki koma nærri stjórnmálum vegna þeirra vinnubragða sem þar hafa verið ástunduð.  Hugsjónir og málefnastarf, lausnir og markmiðsetning víkur fyrir deilum um einstaklinga.   Stjórnmál á Íslandi undanfarna tvo áratugi hafa verið vörðuð af valdabaráttu og hagsmunapoti á kostnað hugsjóna og framtíðarsýnar.

Ef það er eitthvað sem við getum lært af þessum kosningum er það að kjósendur trúa ekki lengur loforðum flokkanna fyrir kosningar.  Það er alveg sama hvað er borið á borð vegna þess að það er ekki hægt að treysta því að það verði efnt.   Krafan um persónukjör sýnir að kjósendur vilja velja fólk sem hefur ákveðna lífsskoðun og lifir og starfar eftir gildum sem höfðar til þess.  Þeir finna ekki neinn einn flokk sem uppfyllir þessa þörf.

Stjórnmál eiga að snúast um hugmyndafræði, stefnumótun og lausnir.  Flokkarnir hafa fallið í það far að gleyma bæði hugmyndafærðinni og stefnumótunni. Kosningaloforðin snúast bara um ódýrar lausnir á þeim vandamálum sem hæst ber á kosningaári en ekki af framtíðarsýn.  Þetta gæti kannski gengið ef kosið væri til árs í senn en kjörtímabilið er fjögur ár. Kjósendur verða að geta treyst því að flokkarnir hafi grunngildi og framtíðarsýn sem segir hvernig tekið verði á málum sem upp koma.  

Þjóðin þarf skýrar línur en ekki að það sé sami grautur í öllum skálunum.  Fólkið kýs um innihaldið en ekki umbúðirnar.  Kjósendur vilja stefnu en ekki vörumerki.  Það lifir enginn á fornri frægð til lengdar í stjórnmálum.  Þegar talað er um að hollustan við gömlu flokkanna sé að hverfa þá er það vegna þess að fólk finnur ekki samsvörun í flokkunum við lífsskoðun sína.  Flokkarnir hafa misst sjónar á grunngildum sínum og þar ægir saman mismunandi skoðunum og hagsmunum og oft er þar himinn og haf á milli. 

Það verður bara að viðurkenna það að spilling er landlæg í íslenskum stjórnmálum.  Birtingarmynd spillingarinnar er að hugsjónum og stefnu er varpað fyrir borð bara til að halda völdum.  Og jafnvel til þess að fjármagna framboð og flokksstarf. Það er ekki tekin málefnaleg afstaða til þeirra mála sem uppi eru heldur snýst afstaðan meira um taktík.  Stjórnmálamenn leggja hugmyndafræði og stefnumál til hliðar til að klekkja á andstæðingnum og þjóðin er fórnarlambið. 

Í íslenskum stjórnmálum eru bara tveir pólar, við og hinir en fólkið gleymist. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jónas Egilsson

Er ekki kominn tími fyrir Framsókn að fá sér nýja kjósendur?

Jónas Egilsson, 31.5.2010 kl. 23:51

2 Smámynd: Einar Sigurbergur Arason

Þakka þér Valdimar fyrir góða grein!

Og Jónas - ágætishugmynd. Við þurfum að vinna traust fólks sem er ekki að kjósa okkur í dag. Við þurfum að verða í hugum fólksins meira ein eitthvert málfundafélag sem þrátt fyrir gott fólk hefur ásýnd klúbbs sem blaðrar og blaðrar en enginn veit hvort okkar hugmyndir virka eða okkar góða fólk hefur getu til að stjórna landinu.

Ég held að almennum kjósendum finnist að inni á Alþingi vanti skörungsskap við stjórn landsins. Við erum eins og Bretar í byrjun seinna stríðs sem fundu að Chamberlain var ekki að ráða við verkefnið, nema við sjáum ekki einhvern Churchill til að taka við. Að minnsta kosti ekki inni á þingi - ef einhver fengi Evu Joly til að bjóða sig fram þá fengi hún sjálfsagt hreinan meirihluta eins og skot.

Einar Sigurbergur Arason, 1.6.2010 kl. 18:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband