Getur Samfylkingin afnumið þingræðið þegar hentar?
20.5.2008 | 09:05
Á Íslandi höfum við hingað til talið að stjórnarfarið væri þingræði, þótt það standi ekki berum orðum í stjórnarskránni. Gjörningar dagsins hljóta að vekja upp spurningar um hvort svo sé enn, hvort ekki sé komið á stjórnarfar ráðherraræðis, þar sem hver ráðherra fylgir eigin stefnu, sé einvaldur á sínu sviði, óháð vilja þings og óháð vilja annarra ráðherra. Ákvörðun Landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra og sérstaklega viðbrögð ráðherra Samfylkingarinnar í kjölfarið virðast styðja það.
ISG sagði að Einari K Guðfinnssyni hefði verið fullkunnugt um afstöðu Samfylkingarinnar áður en hann gaf út hrefnuveiðikvóta. Einar hefur sem sagt vitað að hann gæfi reglugerðina út í óþökk samstarfsflokksins.
Gott og vel. Það er ekki mikið teamwork í því hjá Einari. Það hefur svosem gerst áður, t.d. þegar lánsfjárhlutfall íbúðalánasjóðs var hækkað á ný í 90% fyrir síðustu kosningar.
Allir ráðherrar samstarfsflokksins telja ástæðu til að senda út fréttatilkynningu á 2 tungumálum, íslensku og ensku til að segjast ekki styðja ákvörðun ráðherrans og opinbera þar með trúnaðarbrestinn og ágreininginn. Þeir taka það fram að honum sé fullheimilt að taka þessa ákvörðun. Það er rétt samkvæmt valdbeitingartúlkun laga, en ef lesið er í tilgang laga, þmt stjórnarskrárinnar getur það ekki verið tilfellið að allt í lagi sé að ráðherrar séu innbyrðis ósammála, amk opinberlega.
Utanríkisráðherra segist ætla að verja gjörðirnar á erlendri grundu, með vísan í sjálfbærni veiðanna. Hún ætlar sem sagt ekki að verja þær með tilliti til annarra atriða, eins og sjálfsákvörðunarrétt þjóðarinnar eða með vísan í bókun okkar við endurinngöngu í hvalveiðiráðið þar sem stefna Íslands er lögð skýrt fram.
Þriggja spurninga verður í það minnsta að leita svara við í framhaldinu
- Nýtur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra trausts til að sitja áfram í embætti? Mun Samfylkingin verja hann vantrausti í ljósi gjörða hans?
- Hver er trúverðugleiki utanríkisráðherra sem ætlar að verja stefnu sem viðkomandi hefur lýst andstöðu við? Er henni sætt í embætti þegar hún hefur sjálf vakið athygli á því að hún ætli að tala gegn eigin sannfæringu í málinu og lagt krók á sig til að eftir því verði tekið erlendis?
- Hvaða stefnu fylgja starfsmenn Utanríkisráðuneytisins þegar þeir fara á fundi Alþjóða hvalveiðiráðsins. Stefnu yfirmanns síns eða þeirri stefnu Landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra sem telur sig vera að fylgja þeirri stefnu sem Alþingi hefur markað?
Hvergi er minnst á hvalveiðar í stefnu Samfylkingarinnar sem samþykkt var á síðasta landsfundi, þannig að efast megi um að þingmenn flokksins hafi ekki umboð til að hafa þessa afstöðu, sérstaklega í ljósi þess að Samfylkingarþingmenn stóðu að þingsályktunartillögu um endurupptöku hvalveiða á sínum tíma, sem ekki hefur verið breytt og er því stefna Alþingis í málinu, sem í þingræðisríkjum er bindandi fyrir ráðherra, sem ber að framkvæma þá stefnu sem Alþingi markar..
Ráðherrar Samfylkingarinnar telja sig ekki bundna af þeirri stefnu, þótt þeir fari með framkvæmdavaldið, sem þeim bæri að fylgja teldu þeir sig búa við þingræði. Yfirlýsing ráðherra Samfylkingarinnar er sem sagt að þeir telji sig ekki búa við þingræði.
Þetta er tímamótadagur í íslenskri stjórnmálasögu.
Árni Mathiesen sagði aðspurður á þingi í fyrrasumar
http://www.althingi.is/raeda/134/rad20070613T105105.html
Hitt málið sem var nefnt eru hvalveiðarnar. Ég var dálítið hissa á því hvernig hv. þingmenn tóku þær inn í þessa umræðu eins og þær væru eitthvað sem hefði átt að semja um á milli ríkisstjórnarflokkanna. Ég held að hv. þingmenn séu búnir að gleyma á hvaða forsendum hefur verið unnið í hvalveiðimálum á undanförnum árum. Það er unnið á forsendum þingsályktunar frá Alþingi frá 1999. Hún var þingmannamál og það voru svo margir þingmenn á þeirri tillögu að ég man eiginlega ekki hvað þeir voru margir. Þeir muna það sem eru í salnum og voru á tillögunni, en ég man að 1. flutningsmaður var núverandi hæstv. sjávarútvegsráðherra. Ég var einn af flutningsmönnum tillögunnar og það voru flutningsmenn úr öllum flokkum á þessari tillögu. Á grundvelli hennar hefur verið unnið og ég held að hv. þingmenn ættu að muna það að forsendurnar (Forseti hringir.)voru lagðar hér af hv. Þingmönnum
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.