Engar nýjar fréttir

Nú bíður þjóðin spennt eftir því hvaða biðleik Sjálfstæðismenn finna næst uppá til þess að komast hjá því að ræða peningamálastefnuna.   Boðaðri endurskoðun peningamálastefnunnar er slegið á frest þar til ró kemst á fjármálamarkaði sem getur tekið mánuði og jafnvel ár og á meðan á þjóðin að búa við ástand sem allir eru sammála um að er fullkomlega óásættanlegt.

Ef sótt er um aðild að Evrópusambandinu verður strax til umræðugrundvöllur um stöðuleikasamning við Seðlabanka Evrópu.  Samning sem getur hjálpað okkur út úr þeim ógöngum sem hagstjórnin og krónan eru í.   Umsókn og stöðuleikasamningur í framhaldinu er bestu kostirnir sem þjóðinni býðst í dag til að vinna sig út úr vandanum.

Það verður ekki auðvelt, en þar getur samningur við Seðlabanka Evrópu riðið baggamuninn og hjálpað til við koma krónunni á rétt ról mun fyrr en ella hefði verið.  Trúverðugleiki krónunnar og efnahagslífsins myndi styrkjast og sá skaði sem seðlabankastjórar með skítkasti og flótta frá vitrænni umræðu hafa valdið samfélaginu verður lágmarkaður.


mbl.is Útilokað að taka upp evru
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ágúst Ásgeirsson

Valdi, ég tek skrif þín síðustu daga sem vott um að þú sért fylgjandi aðild að ESB. Og gengur með því nokkuð lengra en Framsóknarflokkurinn sem virðist ekki þora stíga stærra skref að sinni en vilja kanna hvort þjóðin vill að sótt verði um aðild.

Þarna finnst mér flokkurinn klikka, ef einhvere töggur væru í honum ætti hann að segja hvað hann vill í þessum efnum. Ekki bíða og sjá hvað lýðurinn vill eða vill ekki. Og hvað ef þjóðin hafnaði? Yrðu þá ekki nei-seglin dregin upp?

Hafandi búið í ESB í þrjú ár fæ ég nú ekki betur séð en hér og í öðrum sambandsríkjum sé blússandi efnahagsvandi. Jafnvel innmúraður í kerfinu vegna sósíalískra stjórnarhátta og "eftir-68" hugsunarháttar. Sarkozy er að reyna vinda ofan af vitleysunni.

Því efast ég um að það sé einhver allsherjarlausn á vanda krónu og efnahagslífs að ganga í ESB. Þú þyrftir eiginlega að útskýra það betur og sleppa aðeins pólitík í útleggingunum. Ekki bara skamma sjálfstæðismenn og Davíð!

Heldurðu að sátt verði um það í Framsókn að sækja um aðild að ESB?

Ágúst Ásgeirsson, 24.9.2008 kl. 12:59

2 Smámynd: G. Valdimar Valdemarsson

Sæll Ágúst.   Já það er rétt ályktun hjá þér að ég er fylgjandi aðild að ESB.   Ég hef verið þeirra skoðunar síðan við gengum í EES að fyrst það skref var tekið á sínum tíma með því valdaafsali sem fylgdi væri rétt að ganga alla leið.   Í aðdraganda EES var ég á línu með Davíð Oddssyni og vildi láta reyna á tvíhliða samning en Davíð seldi sannfæringu sína fyrir Viðreisn.

Því miður fæ ég ekki alla framsóknarmenn eða flokkinn til að fylgja mér að málum, kannski skiljanlegt þar sem hver og einn metur kosti og galla aðildar út frá sínum forsendum og sumir leggja þar á ískalt hagsmunamat með tilfinningar spila stórt hlutverk hjá öðrum.

Þetta er vandamál allra stjórnmálaflokka á Íslandi í dag þegar nálgast á spurninguna um aðild eða ekki aðild.  Þess vegna höfum við framsóknarmenn, í stað þess að leggja flokkinn undir í átökum, ákveðið að við teljum rétt að vísa spurningunni um aðildarumsókn beint til þjóðarinnar.   

Ég er fylgjandi þessu m.a. vegna reynslu minnar frá því að ég dvaldi mikið í Noregi í aðdragandi síðust EU atkvæðagreiðslu þar.   Og hafandi kynnt mér flokkadrætti og pólitískar deilur sem skóku Noreg þegar fyrri atkvæðagreiðslan fór fram.

Ég vil ekki eyðileggja flokkinn minn í innanflokksátökum um aðild að ESB, en tel samt að við getum ekki frestað því lengur að þjóðin fái að segja sitt álit og ég, öfugt við marga aðra, hræðist ekki dóm þjóðarinnar og er tilbúin að hlíta þeirri niðurstöðu sem þjóðin kemst að.

Ég held að Framsókn standi að aðildarumsókn ef það reynist meirihluti fyrir því að þjóðaratkvæðagreiðslu.

G. Valdimar Valdemarsson, 24.9.2008 kl. 13:18

3 Smámynd: Ágúst Ásgeirsson

Þakka þér Valdi hreinskilin og ótvíræð svör. Það verður fróðlegt að fylgjast með framvindu Evrópuumræðunnar. Eflaust þarf hún sinn tíma. Og, eins og þú víkur að, verður eflaust einna erfiðast fyrir stjórnmálaflokkana að venjast tilhugsuninni um að umsókn um ESB-aðild verði óhjámkvæmileg.

Ágúst Ásgeirsson, 25.9.2008 kl. 14:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband