Eru fleiri óveðurský við sjóndeildarhringinn ?

Fyrir 50 árum sendi Bank of America plast kort til næstum allra íbúa í Fresno í Kaliforníu, plast sem kallað var BankAmericaKort.  Í um það bil 60.000 umslögum lá lausnin á því hvernig heimilin gætu orðið sér úti um fleiri þúsund dollara til að versla fyrir.

Diners Club hafði reyndar komið tveimur árum áður með samskonar póstsendingu þar sem hægt var að borga vexti í skipta og dreifa greiðslunni og þetta var upphafið að mikilli kortanotkun í Ameríku.

 

Þegar á öðru ári höfðu íbúar Frexno verslað fyrir næstum 60 milljónir dollara og núna 50 árum seinna er BankAmericacard orðið að heimsrisanum Vísa.

Árið 1968 skulduðu bandaríkjamenn um 1,5 milljarð dollara í kreditkortaskuldir.  Nú í júlí 2008 var kreditkortaskuld bandaríkjamanna komin í hvorki meira né minna en 969,9 milljarða dollara. Til samanburðar áætlaði Fortune Magazine í október í fyrra að vandamálin vegna undirmálslánanna sem er rótin að núverandi kreppu væru uppá 900 milljarða dollara.

 

Kreditkort hafa verið hluti af neytendakultúr í Bandaríkjunum í mörg ár, og reyndar líka hér á Íslandi.  Í dag er kreditkortaskuld heimilanna í Bandaríkjunum um 20% af tekjum þeirra en þessari skuld er velt á undan sér þar sem það hún er greidd upp að stórum hluta um hver mánaðarmót og síðan safna menn skuldum næsta mánuð.  Undanfarin ár hefur verið jafnvægi milli kortaskulda og tekna.

 Síðastliðið ár hafa kortaskuldirnar aukist mikið milli ára  eða um 8% á þriðja og fjórða ársfjórðungi síðasta árs og um 7% í Maí en það eru síðustu þekktar tölur.  Þetta bendir til þess að bandaríkjamenn líti á kortin sín sem hluta af tekjunum.   

Nú reikna kortafyrirtækin með að vanskil við þau aukist og reiknað er með að  á þriðja ársfjórðungi 2008 verði þau  5,2% samanborið við 3,66% á sama tíma í fyrra. Skýringarinnar er að leita í að fólk á erfiðara með að standa í skilum þegar olíuverð og matvara hækkar og atvinnuleysi eykst.. Aukið atvinnuleysi mun síðan draga úr einkaneyslu en hún er um tveir þriðju hlutar af Bandarískum efnahag.

 

Ken Lewis bankastjóri i Bank of America, Ken Lewis, sem margir telja valdamesta manninn í viðskiptaheiminum telur að næstu ár verði erfið.  Hann telur að stærstu vandamálin sem bankarnir standi frammi fyrir séu að neytendur geti ekki staðið í skilum og þaðan af síður að þeir geti tekið ný lán.  Hann telur að blómaskeið bankaþjónustu sé liðið og það muni ekki ná sér í fyrirsjáanlegri framtíð.

 

Íslendingar hafa tekið Bandaríkjamenn sér til fyrirmyndar í kortanotkun og á mörgum sviðum gengið lengra í kortanotkun en þekkist í öðrum löndum.  Það væri fróðlegt að vita nú hver staðan er hjá Íslensku kortafyrirtækjunum.   Í Bandaríkjunum er rætt í fullri alvöru um að afskrifa allt að 40% af kortaskuldum einstaklinga og gefa þeim kost á að skuldbreyta restinni til nokkurra ára til að koma í veg fyrir hrun í einkaneyslunni.  

 Ætla Íslendingar að sigla sofandi að feigðarósi eða má gera ráð fyrir að menn hafi lært af reynslu undanfarinna vikna og að Fjármálaeftirlitið með  Talsmanni neytenda og öðrum sem láta sig hagsmuni neytenda og almennings varða setjist nú niður og skoði stöðuna hér á landi og horfi til þess hvaða ráð aðrir eru að skoða til að koma í veg fyrir enn frekara hrun efnahagslífsins ?  

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband