Veislan er byrjuð

Nú þegar bankarnir eru á hliðinni og nánast ógerlegt að fá lánsfé á viðunandi kjörum er verið að ganga að einstaklingum og fyrirtækjum um allan bæ.

Skiptastjórar eru skipaðir í þrotabú og eignir seldar á brunaútsölum til vina og vandamanna án undangenginnar auglýsingar.   Skuldir eru afskrifaðar og enginn sem gætir þess að hámarka virði þeirra eigna sem liggja í búinu.

Það er til mýmörg dæmi um þrotabú þar sem eignir virðast hverfa eða verða að nánast engu á meðan þau eru í meðferð skiptastjóra.   Mönnum virðist liggja mikið á að ganga að fyrirtækjum og fólki þessa dagana.  

Morgunblaðið, eða á kannski að kalla það Fiskifréttiir  eftir eigendaskiptin er dæmi um fyrirtæki þar sem afskrifaðir eru milljarðar af skuldum og fyrirtækið afhent nýjum eigendum með nýja og bætta samkeppnisstöðu sem óhjákvæmilega bitnar á þeim sem eru á sama markaði.

Árvakur var seldur eftir auglýsingu og útboð sem er til fyrirmyndar, en það vakna samt upp spurningar um það hvað var afskrifað, hverjir afskrifuðu hvað og hvernig voru tilboðin sem bárust?

Þessar upplýsingar liggja ekki á lausu og borið er við bankaleynd.   Þetta er fyrirkomulagið eins og ríkisstjórnin vill hafa hlutina.   Það á að færa einstaklingum mikla fjármuni í formi afskrifta án þess almenningur hafi nokkurn möguleika á að kynna sér leikreglurnar.   Þessi feluleikur hentar engum nema fjármagnseigendum, þeim sem fá gjafirnar frá bönkunum. 

Örlög fyrirtækja og fjölskyldna verða ráðin í reykfylltum bakherbergjum í stað þess að grípa til almennra aðgerða sem tryggja fjölbreytni og samkeppni er lagt upp í vegferð sem safnar eignum á fáar hendur og færir til umtalsverð verðmæti frá þeim sem byggt hafa upp fyrirtækin til þeirra sem eru í náðinni hjá skiptastjórum, stjórnendum bankanna og ríkisstjórnarflokkunum.  

Fyrri ríkisstjórn bauð upp í þennan dans og það breyttist ekkert þó Samfylking skipti hægra íhaldinu út fyrir það vinstra.   Sama spillingin áfram.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband