Hversvegna ríkir vantraust á stjórnmálunum
26.3.2010 | 12:14
Sú spurning gerist á áleitnari hversvegna þjóðin treystir ekki stjórnmálamönnunum. Hvað er það í Íslenskum stjórnmálum sem veldur viðvarandi vantrausti á flokkakerfinu ?
Við þessari spurningu er eflaust ekki til eitt einfalt svar en samt vil ég leitast við að greina stöðuna og leggja fram mína kenningu á því hvað veldur þessu vantrausti. Til þess er rétt að líta á fjórflokkinn sem er uppistaðan í íslenskum stjórnmálum í dag og hefur í raun verið undanfarin 90 ár.
Bakgrunnur flokkana á Íslandi liggur í stéttarbaráttu og hagsmunagæslu. Flokkarnir urðu að stofni til til á árunum 1916 til 1930 og endurspegluðu það þjóðfélag sem ríkti á þeim tíma og þau viðfangsefni sem voru í stjórnmálunum. Allir telja flokkarnir sig eiga hliðstæðu í pólitík nágrannalandanna og leita hugmynda og samstarfs við flokka eða hóp flokka í nágrannalöndunum.
Þegar maður tekur þátt í erlendu samstarfi stjórnmálaflokkana tekur maður eftir því að íslensku flokkarnir eru alltaf svolítið sér á báti. Þeirra stefna og þeirra gjörðir ríma ekki alveg við þá flokka sem þeir eru að starfa með.
Allir hafa flokkarnir upplifað hugmyndafræðilega krísu á undanförnum árum og fóru t.d. vinstri menn í gegnum miklið umrót og breytingar en niðurstaðan var samt tveir flokkar sem byggja á mismunandi gildum. Þeim lánaðist samt ekki að búa til tvo flokka sem byggja á þeirri hugmyndafræði sem einkennir vinstri flokka í löndunum í kringum okkur. Þar virðast hagsmunirnir hafa sett strik í reikninginn, kannski bæði hagsmunir þeirra samtaka sem flokkarnir hafa átt náið samstarf við og ekki síður persónulegir hagsmunir þeirra sem stóðu að stofnun flokkanna.
Allt verður þetta til þess að þegar flokkarnir bjóða fram til kosninga er ekki á vísan að róa með hvaða stefna er sett fram og kannski enn síður hvaða stefna verður ofaná eftir kosningar.
Ef við skoðum erlend stjórnmál þá birtist Íslenski fjórflokkurinn bara undir öðrum formerkjum.
Við sjáum hægri flokka sem standa fyrir frjálst markaðshagkerfi þar sem markaðurinn á að leysa flest vandamál samfélagsins. Ég kalla þessa flokka frjálshyggjuflokka þar sem frelsi einstaklingsins er grunntónn stefnunnar. Þessir flokkar telja að frelsið og framtak einstaklinganna skapi auðlegð sem gagnast öllu samfélaginu og tryggi hagsæld. Þeir vilja lágmarka opinberan rekstur og skattheimtu.
Við sjáum frjálslynda flokka sem aðhyllast blandað hagkerfi og aukið alþjóðlegt samstarf. Þessir flokkar eru umbótasinnaðir og opnir fyrir nýjum hugmyndum í leit að hagkvæmustu lausnum á vandamálum samfélagsins. Þessir flokkar aðhyllast samvinnu rekstrarforma við að leysa vandamál samfélagsins og takmarkaðan ríkisrekstur.
Við sjáum sosialdemokrata sem aðhyllast blandað hagkerfi en þó með áherslu á að öll grunnþjónusta samfélagsins eigi að vera á forræði ríkis eða sveitarfélaga. Þeir kalla sig jafnaðarmenn og eru tilbúnir til að breyta skattkerfinu til að jafna kjör milli þjóðfélagshópa.
Við sjáum sosialista sem telja að ríki og sveitarfélög eigi að sjá um stóran hluta af atvinnulífinu og að það sé sjálfsagt að ríki og sveitarfélög séu í samkeppni við einkageirann í atvinnulífinu. Þeir vilja sterkt ríkisvald og háa skatta bæði til að standa undir þjónustu og til að jafna kjör milli hópa.
Svo hafa í seinni tíð orðið til grænir flokkar sem leggja áherslu á umhverfismál og vilja breyta áherslum í skattheimtu og beita henni frekar til að ná umhverfispólitískum markmiðum en til að jafna lífskjör milli hópa.
Ef við reynum að setja Íslenska flokka inn í þetta mynstur verður það frekar erfitt.
Sjálfstæðisflokkurinner ekki hægri flokkur nema á tyllidögum. Opinber umsvif hafa aldrei aukist jafn mikið á skömmum tíma og á valdatíma Sjálfsstæðismanna. Flokkurinn horfir á erlent samstarf s.s. aðild að ESB með gleraugum hagsmunaaðila en lætur hjá líða að skoða það út frá hugmyndafræðinni sem flokkurinn segist standa fyrir. Flokkurinn getur ekki gert það upp við sig hvort hann er frjálshyggjuflokkur, frjálslyndur flokkur eða bara gamaldags hagsmunagæsluflokkur.
Framsóknarflokkurinn á erfitt með að gera það upp við sig hvort hann er frjálslyndur umbótasinnaður flokkur sem er opinn fyrir samvinnu og tilbúinn að skoða nýjar leiðir og útfærslur með opnum huga eða hvort hann er gamaldags bændaflokkur og hagsmunagæsluflokkur sem stendur vörð um þjóðfélagsgerðina eins og hún er. Það er tilviljunum háð hvor armurinn vinnur kosningastefnuskránna og hvor armurinn vinnur kosningarnar og því ekki á vísan að róa hver stefnan er að afloknum kosningum.
Samfylkingin gerir tilkall til þess að vera bæði krataflokkur að norrænni fyrirmynd og frjálslyndur flokkur og virðist það nánast fara eftir veðurfari hvaða sjónarmið eru ofan á í flokknum á hverjum tíma og ekkert á vísan að róa. Flokkurinn lofar skjaldborg um heimilin og atvinnuuppbygginu en tekur svo þátt í rauðgrænni ríkisstjórn sem leggst gegn einkageiranum í atvinnulífinu, leggur þungar byrgðar á almenning en stendur á sama tíma dyggan vörð um fjármagnseigendur.
Vinstrihreyfingin grænt framboð kemur hreint fram og segist geta verið bæði sosíaliskur flokkur og grænn flokkur. Flokkurinn hefur þar að auki sótt fylgi sitt í gamaldags hagsmunagæslu og vill standa vörð um þjóðfélagsgerðina, er lafhræddur við erlend áhrif og samstarf. Eftir að flokkurinn komst í ríkisstjórn verður æ ljósar að hann á erfitt með að tala einu máli og að fóta sig í þjóðfélagsumræðunni og sendir misvísandi skilaboð. Flokkurinn stendur að aðildarumsókn til ESB en vinnur gegn eigin stefnu og eigin ríkisstjórn við hvert tækifæri.
Þegar flokkakerfið er skoðað í þessu ljósi er ekki að undra að kjósendur treysti ekki flokkunum. Þeir eru allir meira og minna klofnir og í innbyrðis átökum sem menn forðast að leysa til að halda flokknum saman. Á meðan geta þeir trauðla unnið hver með öðrum eða áunnið sér traust hjá kjósendum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Þetta er ágæt greining. Og þessvegna finna margir kjósendur oft meiri stuðning í öðrum flokkum og marga andstæðinga í eigin flokki. Þá er ekkert mál að stökkva yfir í annan flokk. En breytingar eru að gerast í flokkunum. Framsóknarflokkurinn er nú ekki sá sami og var þegar Guðni Ágústsson var formaður og við vitum ekki hvert Sigmundur fer með flokkinn. Hann sjálfur gæti verið í þremur flokkum, en við skulum ekki gleyma því, að hann er erfingi að miklum fjármunum og þeir eru ekkert vel til komnir. Það mun geta haft mikil áhrif á hann pólitískt þegar hann kemur á krossgötur. - En Sigmundur er ungur maður og vel menntaður og það getur verið, að honum takist að lyfta flokknum upp úr 10-15%unum, sem hann var farinn að hjakka í. En stuðningur við landbúnaðinn er bara sögulegur orðið og það er ekki að sjá, að flokkurinn sé nokkuð til í að greiða götur bænda umfram aðra um þessar mundir. Þessvegna verður ekki séð, að nokkur festa sé fyrir hendi og þessvegna geti flokkurinn verið frjálslyndur þéttbýlisflokkur. Ekki verður séð, að Alfreðar, Finnar, Guðnar, Ólafar og Halldórar séu horndrangar eða saltstólpar í flokknum. Ekki verður með nokkru mótí séð hvert flokkurinn mun hreyfast.
Bjarni Benediktsson hefur sýnt að hann er tilbúinn að ganga nokkuð langt í því að viðurkenna mistök flokksins og stefnumálanna eins og þau voru. Já, en það voru aðrir menn og þeir eru farnir. Við sem stjórnum núna eigum ekki að bera meiri ábyrgð á hruninu en aðrir eftir því sem þeir voru þátttakendur í því. - En Bjarni er tengdur peningaöflum og vondum málum varðandi t.d. Sjóvá, sem hefur verið flaggskip hans fólks. Þessvegna er líkt með honum og flokknum komið og Framsóknarflokknum að við sjáum ekki hvert stefnir í mörgum málum nema varðandi útgerðarmenn og kvótakerfið. LÍÚ hefur stutt flokkinn ótæpilega með fjárframlögum, en það veldur afstöðu forystunnar nú, en hún er ekki hugmyndafræðileg um samkeppni heldur um vörn fyrir fjármagnseigendur og höfðingja í atvinnumálum. - Það hefur ekkert reynt á stuðning við landbúnaðinn að gagni og Sjálfstæðisflokkurinn var undir niðri stuðningströll hans án þess að það væri hugmyndafræðilega. Það bara var svona og flokkurinn studdi útgerðarmenn áður án þess að það væri skilgreint hugmyndafræðilega. Og hann mun styðja þá áfram. Ennfremur munu kaupmenn eiga fastari setu í flokknum en annars staðar. Frjáls samkeppni og samtök í atvinnurekstri verða hans ær og kýr. Ungir lögfræðingar og kórdrengir ríks fólks munu sitja sem fastast í flokknum. Að öðru leyti verður erfitt að ráða í þróun flokksins. Það er með hann eins og Framsóknarflokkinn, að miklir ólgutímar eiga eftir að breyta þeim mikið, en persónuleikar forystumanna eiga eftir að hafa mikil áhrif. - (meira seinna).
Jónas Bjarnason, 26.3.2010 kl. 22:13
Takk fyrir fína grein og greiningu.
Í hnotskurn held ég að vandamál stjórnmálamanna sé það að menn eru ekki að fylgja neinni hugmyndafræði.
Stjórnmál á Íslandi eru fyrst og fremst klækja- og valdastjórnmál.
En það er okkar að breyta því.....
Sigurður Jón Hreinsson, 26.3.2010 kl. 23:15
Mitt mat á umsóknarferinu er. Að vegna þess að Samfylkingin vann kosningar í raun og umræðuna um aðildarumsókn.
Flestir virtust sannfærðir um að umsókn yrði nauðsynleg til þess að sjá hvað væri í boði.
Ég gat sjálfur mótað mér skoðun áður en flestum var talið trú um að við færum í aðildar viðræður en sóttum ekki beint um. En það er önnur saga.
Lýðræðislega þá var þetta alls ekki fullkomið og hefði verið farsælast að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort sækja ætti um aðild til þess að sjá hvað væri í boði eins og það var kallað.
Nú hefur umræðan færst á annað stig og þegar umræðan vex mun andstaðan magnast.
En ég tel að VG hafi verið að fara eins lýðræðislega að þessu máli og hægt var.
Ég er líka viss um að Íslendingar fella aðildarsamning.
Að VG séu hræddir viðsamvinnu er spuni og áróður.
Að vilja ekki fullan samruna við ESB þýðir ekki hræðsla við samstarf og erlend áhrif.
Þetta er bara tugga sem er algjörlega ósönn og ómarktæk. í raun hin aumast þvæla.
Margt er þó til í þessum pistli og varðandi flokkana virðast þeir að mörgu leiti undirorpnir þeim persónuleikum sem tróna þar og troðast um.
Um leið og flokarnir fara að starfa að málefnum og markmiðum þvert á flokka vinnst loksins eitthvað.
Þeir sem eru vinstri grænir og gagnrína ríkisstjórn fyrir vissa hluti eru að gera henni mesta gagn en ekki ógagn.
Þetta virðas fæstir skilja og þessvegna er órólega deildin merki um bata í stjórnmálum.
Þar sem forusta kemst ekki upp með að vaða áfram án þess að leita fylgis við þau áform sem forustan ætlar að leysa.
Hvort forustur flokkana taka gagríni sem árás eða sem tilsögn og ábendingar ríður úrslitum um þroska lýðræðis og stjórnmála á Íslandi.
Vilhjálmur Árnason, 27.3.2010 kl. 00:02
Ágæt og athyglisverð greining Valdi.
Ég er líka á því að eftir því sem viðfangsefnin verða tæknilega flóknari, s.b. alla hagfræðiumræðuna undanfarna 18 mánuði og fjármálaumræðuna fyrir þann tíma, verður alltaf fleira og fleira fólk sem á engan möguleika á að setja sig almennilega inn í umræðuna.
Það getur að mínu mati valdið tvenns konar þróun: a) Fólk hættir að skipta sér af stjórnmálum, gefst upp og sleppir því að kjósa. b) Fólk flykkist að baki stjórnmálamönnum sem það treystir af einhverjum ástæðum sem hafa ekkert endilega með málefni að gera. c) Fólk velur flokk eftir grundvallarhugmyndafræði en ekki tilteknum málum.
Það gæti vel verið að Jón Gnarr eigi eftir að gera það í vor. Núna er tækifæri til að herja á óánægjufylgið og mjög jákvætt að það skuli vera Jón Gnarr sem gerir það en ekki einhver brjálaður nasisti.
Annars eru forsvarsmenn flokkanna nú engir sérstakir leiðtogar og því ekki úr miklu að spila í b liðnum.
Ef c) liðurinn á við þá vitna ég í grein þína hér að ofan að þar er lítið að hafa fyrir kjósandann.
Það kemur manni því ekki á óvart að óákveðnir mælist í kringum 40% í könnunum.
Sigurður Viktor Úlfarsson, 27.3.2010 kl. 01:07
Takk fyrir frabaera greiningu!
Kvedja fra Noregi!
Gudbjörn Gudbjörnsson
Guðbjörn Guðbjörnsson, 27.3.2010 kl. 10:23
Margt athyglisvert er að finna í pistlunum hér að framan og sjónarhornin skemmtileg. Ég ætla aðeins að fara yfir Samfylkinguna og VG eins og mér koma þeir flokkar fyrir sjónir.
Umrótið fyrir nokkrum árum líktist nokkuð vatnsfalli sem rann um flatlendi og skiptist í nokkur minni (ár og læki) sem erfitt var að greina hvort frá öðru. Á tímabili var sem allt vildi leita í enn farveg, sem skiptist síðan í tvo sem hafa nokkuð haldið sér síðan.
Annar, Samfylkingin virðist nokkuð opin fyrir fjölþjóðlegum samskiptum og er ESB þar nærtækast. Þar er mikill vilji fyrir nýskipan í ýmsum þjóðfélagsþáttum, áhersla lögð á sterkan almennan grunn undir kerfi sem heldur utan um almenna félagslega hagsmuni almennings í landinu.
Alþýðuflokkurinn var með sterkar tengingar við verkalýðahreyfinguna í landinu framan af síðustu öld. Það var fyrir atbeina hans og áhrifa frá verkalýðshreyfingunni að mikilvægur lagabálkar voru samþykktir á Alþingi sem hafa skipt sköpum fyrir almenning í landinu.
Við þá hefur síðan bæst með árunum og gerir enn. Verkalýðsandinn er nokkuð sterkur í flokknum, án þess að hann komi í veg fyrir almenn tengsl við atvinnulífið.
Flokkurinn virðist hafa mun minni tengingar við hagsmunaaðila en Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur. Fyrir vikið er hann mun betur í stakk búinn til að gera breytingar í grunnskipulagi þjóðfélagsins þar sem einstakir þing/flokksmenn eru ekki fjötraðir fjárhagslega við einstakar greinar eða fyrirtæki.
Þetta er frjálslyndur miðjuflokkur með áherslu á jafnrétti og félagsleg gildi.
VG er eins og fram hefur komið, meir til vinstri og þar hafa umhverfismálin og mikið áhugafólk um þau, fundið sinn farveg. Einnig er þjóðerniskennd fyrri tíma nokkuð sterk, mikil séríslensk áhersla sem kemur út sem einangrunarhyggja hjá þeim sem lengst ganga.
Ótti við hvers kyns erlend áhrif er nokkur. Meira ber á mismunandi áherslum innan þess flokks og að þær vilja á stundum nuddast hver við aðra í umræðunni.
Flokkurinn er meira til vinstri en SF og er það á stundum nokkuð skýrt.
Þessir flokkar eru báðir nokkuð ungir að árum og bera þess merki að hafa farið í gegnum umbrot eins og áður sagði.
Þeir hafa líka verulega minni tengsl við hagsmunahópa, nema þá helst hverskynssamtök launafólks.
Þar eru ekki til staðar áratugahefðir í verkaskiptinu (helmingaskipti) eins og Framsókn og Sjálfstæðisflokkar og hafa því aðrar áherslur og eru jafnvel að þreifa sig áfram í ýmsum málum.
Aðstæður í samfélaginu eru líka afar sérstakar og hart hefur verið barið á ríkisstjórninni úr ýmsum áttum.
Þar sem stjórnin er að vinna að stórfelldum grundvallarbreytingum á þjóðfélaginu, er áreitið gríðarlegt og fólk mis vel undir það búið.
Hólmfríður Bjarnadóttir, 28.3.2010 kl. 03:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.