Að laumast inn í Evrópusambandið

Það hefur vakið undrun mína hvað lítið hefur verið rætt um þær hugmyndir landbúnaðarráðherra að innleiða matvælalöggjöf Evrópusambandsins á Íslandi.  Hér á landi hafa verið í gildi strangar takmarkanir á innflutningi landbúnaðarvara og m.a. vísað til sóttvarna sem rök gegn auknu frelsi í innflutningi t.d. á hráu kjöti.

Nú bregður svo við að þessi rök virðast ekki eiga við lengur og þeim er öllum stungið undið stól.  Ekki veit ég hvað gerðist í Evrópu sem réttlætir þessa stefnubreytingu, ekkert hefur allavega gerst hér á landi eða er það?

Ég hef heyrt því fleygt að rökin fyrir stefnubreytingunni séu að Evrópusambandið setur öll matvæli undir sömu löggjöf hvort sem um er að ræða landbúnaðarvörur eða afurðir sjávarútvegsins.  Og að þarna vegi hagsmunir sjávarútvegsins þyngra en hagsmunir landbúnaðarins.   Það er fyrsta afurð sameinaðs ráðuneytis landbúnaðar og sjávarútvegs að fórna hagsmunum landbúnaðar fyrir hagsmuni sjávarútvegsins.  Látum það nú liggja á milli hluta, stundum þarf að fórna minni hagsmunum fyrir meiri.

En hvar stöndum við gagnvart Evrópusambandinu þegar búið er að innleiða matvælalöggjöfina? Ísland er aðili að innri markaðnum í gegnum EES og hefur þess vegna innleitt allt að 80% af lögum og reglum Evrópusambandsins og það sem út af stendur eru fyrst og fremst landbúnaður og sjávarútvegur sem Evrópusambandið gerir engan greinarmun á.

Löggjöf Evrópusambandsins um landbúnað má skipta í þrennt, þ.e. matvælalöggjöfina, lög um tolla á landbúnaðarvörur og lög um styrki til landbúnaðar.   Nú hlýtur að liggja eitthvað að baki því þegar hagsmunum landbúnaðarins er fórnað á altari sjávarútvegsins og má ætla að það standi til að sækja um einfaldari aðgang að mörkuðum, minna eftirlit og niðurfellingu tolla.  

Það er því rökrétt að álykta að þegar þeim markmiðum er náð að þá séum við komnir inn í Evrópusambandið með íslenskan landbúnað og sjávarútveg að öðru leiti en því að við njótum ekki sömu styrkja og þeir sem við keppum við og við höfum ekki samið um yfirráð yfir fiskimiðunum.

Sjálfstæðisflokkurinn leiðir inngöngu Íslands í ESB bakdyramegin án þess að spyrja þjóðina álits.  Síðan þegar Flokknum hentar verður þjóðinni sagt að það sé svo lítið um að semja að það sé óþarfi að vera að spyrja hana álits og það verður bara gengið inn hægt og hljótt og enginn spurður.  Þannig kemst Flokkurinn hjá því að taka upp erfiða umræðu um Evrópusambandið.  Allir í Flokknum una glaðir við sitt.  Hagsmunir Flokksins eru jú meiri en hagsmunir þjóðarinnar og það má jú fórna minni hagsmunum fyrir meiri.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Erna Bjarnadóttir

Sæll, það er augljóst að eftir stendur m.a. að Ísland hefur áfram sjálfstæða tollastefnu sem dæmi. Nú er verið að semja um gagnkvæmar lækkanir á tollum sjá t.d. forsíðu 24 Stunda í dag.

Erna Bjarnadóttir, 9.4.2008 kl. 14:00

2 Smámynd: G. Valdimar Valdemarsson

Og gæti ekki komið upp sú staða að samið sé um niðurfellingu á tollum á landbúnaðarvöru t.d kjúklingum og svínakjöti fyrir að niðurfellingu í sjávarútvegi?  Þetta er jú allt undir sama hattinum í dag.

G. Valdimar Valdemarsson, 9.4.2008 kl. 14:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband