Tvískinnungur
19.5.2008 | 13:17
Geir Haarde hefur sagt hér heima að fólk eigi að halda að sér höndum, ekki taka lán heldur spara á meðan kreppan gengur yfir. Það hentar greinilega ekki glansmyndinni sem hann vill setja upp í útlöndum og þar kveður við annan tón.
Nú blasir það við að hér er samdráttur, samdráttur á húsnæðismarkaði, samdráttur í sölu nýrra bíla, samdráttur í veltu með kort og svo mætti áfram telja. Markmiðið með háum stýrivöxtum er jú að draga úr eftirspurn og nú hefur dregið úr eftirspurn það er ekki um það deilt.
Ef forsætisráðherra hefur af því áhyggjur að hjól smærri fyrirtækja séu að stöðvast og heimilin og einstaklingar að lenda í kröggum er rétt að hann segi það hér á landi en ekki í viðtali við erlenda blaðamenn. Hann getur líka gert ýmislegt til þess að hafa áhrif á þessa þróun, bara ef hann vill.
Hann er hér að finna sér blóraböggul og varpa ábyrgð á ástandinu frá ríkisstjórn og Seðlabanka til bankana. Honum væri nær að líta í eigin barm, hann segist hafa eitt mest öllum tíma sínum frá áramótum í að hafa áhyggjur af efnahagsmálunum.
Það er ótvírætt merki um þunglyndi að hugsa bara um vandamálin og gera ekkert. Ég trúi því ekki að það hafi tekið mest allan tíma forsætisráðherra í fjóra og hálfan mánuð að væla út neyðaraðstoð hjá þjóðum sem hann þiggur hjálp frá í öðru orðinu en gagnrýnir í hinu.
Það getur verið erfitt að kyngja stoltinu. Þegar forsætisráðherra og Seðlabankastjóri sem hafa ekki nógu sterk lýsingarorð til að lýsa óbeit sinni á Evrópusambandinu geta farið á hnjánum til Seðlabanka Evrópusambandslanda og vælt þar út aðstoð verða þeir að viðurkenna að efnahagsstjórn þessara landa er miklu betri en okkar.
Heimskreppan sem Geir Haarde vísar til hefur nefnilega líka áhrif í öðrum löndum, t.d. í Svíþjóð og í Danmörku. Þrátt fyrir það eru Seðlabankar þessara landa aflögufærir og geta rétt þeim Geir og Davíð hjálparhönd þegar þeir hafa lent á skeri.
![]() |
Útlán of lítil |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.