Um þjóðaratkvæði

Nú hafa þrír framsóknarmenn tekið frumkvæði í umræðunni um stöðu Íslands gagnvart Evrópubandalaginu.  Þremenningarnir leggja til að þjóðin verði spurð um það hvort hún vilji leggja inn aðildarumsókn í Brussel og að atkvæðagreiðslan fari fram strax vorið 2009.

Það er mikilvægt að fá úr því skorið fyrr en seinna hverskonar aðildarsamningi íslendingar geti náð við Evrópusambandið.   Umræðan í dag skilar okkur engum svörum þar sem báðir aðilar draga fram hina ýmsu "sérfræðinga" til þess að sannfæra sig um að þeirra skoðun sé sú eina rétta.  Þessi skotgrafahernaður ESB sinna og andstæðinga ESB hefur verið ástundaður á einn eða annan hátt alveg síðan við gengu inn í EES.

Umræðan hefur engu skilað og við erum engu nær um það hvernig aðildarsamningur Íslands gæti litið út.   Það er ljóst að allavega helmingur þjóðarinnar horfir til aðildar að ESB sem leið til að koma hér á auknu jafnvægi í þjóðarbúskapinn.   Andstæðingar ESB virðast forðast það sem heitan eldinn að fá svör við áleitnum spurningum um það hverskonar samningi við getum náð.  Svör sem ekki fást nema að með aðildarumsókn.

Ég fagna því að ungir stjórnmálamenn hafa pólitískan kjark til að taka upp spurninguna um ESB með svo afgerandi hætti sem þremenningarnir hafa gert. Hingað til hafa stjórnmálamenn talað, og lýst sig fylgjandi eða andvíka aðild, en ekki viljað setja málið með afgerandi hætti á dagsrá.   Þau Birkir, Sæunn og Páll vilja að aðildarumsóknin verði á dagskrá í vetur og svarið fáist í vor.  Það er meira frumkvæði í Evrópumálum en nokkrir stjórnmálamenn á Íslandi hafa sýnt til þessa. 

Þetta er fyrsta tilraunin til að binda enda á skotgrafahernaðinn og til þess að fá skýr svör sem byggja má á til framtíðar.   Ég styð það heilshugar að þjóðin verði spurð um það hvort sækja eigi um aðild eða ekki í þjóðaratkvæði og það er engum til framdráttar að það verði dregið lengur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson

Ég er alvega sammála því að efna til atkvæðagreiðslu um hvort eigi að hefja viðræður. Það er bara einn galli. Þegar þetta væri ákveðið þá myndu fylgjendur og andstæðingar margfalda hjá sér hræðsluáróðurinn þannig að menn vissu ekkert í hvorn fótinn þeir ættu að stíga. Síðan er það hitt. Hver á að leiða viðræðurnar? Er það Geir, sem vill alls ekki aðild, eða t.d. Björgvin, sem lifir fyrir að ísland gangi í ESB.

Jónas Yngvi Ásgrímsson, 18.9.2008 kl. 15:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband