Seðlabankastjórinn - hvað er verið að fela?
19.9.2008 | 11:39
Nú hefur Seðlabankastjóri hellt úr skálum reyði sinnar yfir þjóðinni svo eftir var tekið. Björn Bjarnason talsmaður þriðju leiðarinnar við upptöku evru heldur ekki vatni yfir snilldinni en gleymir um leið að átrúnaðargoðið kallaði hann og fleiri sem misst hafa trúna á krónunni landráðamenn.
Offorsið og heiftin ásamt sífelldum flótta duglaus forsætisráðherra frá málefnalegri umræðu um hagstjórn og peningamálastefnu hlýtur að vekja menn til umhugsunar um hvað liggur að baki.
Getur verið að á Íslandi séu íslenskar krónur í bakherbergjum og undir koddum sem ekki þola dagsljósið? Getur verið að vegna laga um peningaþvætti verði mönnum gert ómögulegt að breyta svörtum krónum í evrur ef til þess kæmi og að Sjálfstæðisflokkurinn með Seðlabankastjórann í broddi fylkingar sé að verja það?
Spyr sá sem ekki veit, en það er ljóst að heiftin og málatilbúningurinn er með þeim hætti að hér virðist ekki allt með felldu. Í alvöru stjórnmálaflokkum eru málin rædd á málefnalegan og skynsaman hátt. Kostir og gallar metnir, einstakar leiðir að markmiði skoðaðar og annað hvort slegnar af eða skoðaðar nánar.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur á hinn bóginn verið upptekinn af því að kasta reyksprengjum inn í umræðuna, afvegaleiða hana og komast hjá því að svara. Ég neita að trúa því að svona illa sé komið fyrir flokknum að ekki sé hægt að ræða hlutina á málefnalegan hátt. Skyldi eitthvað annað að búa að baki?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.