Hvað er til ráða?

Nú hefur krónan enn fundið leið niður á við og virðist fall hennar engan enda ætla að taka.   Stjórnvöld hafa ekki uppi nokkra tilburði til þess að verja gengið.  Enda eru þau orðin ráðalaus eftir að umtalsverður hluti gjaldeyrisvarasjóðsins var tekin til hliðar til þess að kaupa Glitni banka á spottprís. 

Stjórnvöld hafa allt þetta ár flotið sofandi að feigðarósi og það er grátlegt að rifja upp yfirlýsingar ráðamanna.   Snemma árs talaði forsætisráðherra um að botninum væri náð, þá kom að uppgjöri fyrsta ársfjórðungs hjá fjármálastofnunum og krónan féll eins og steinn. 

Á ársfundi Seðlabanka flutti forsætisráðherra ræðu og taldi þar fulla ástæðu til að endurskoða peningamálastefnuna og taka lán til að styrkja gjaldeyrisvarasjóðinn, en það var bara í orði ekki á borði frekar en annað sem frá Geir Haarde hefur komið allt þetta ár.

Í maí tveimur dögum fyrir þinglok vaknaði Geir og mundi eftir því að það væri eitthvað að og sóttist eftir heimild frá Alþingi til lántöku til að styrkja gjaldeyrisvarasjóðinn.  Svo seint vaknaði Geir að leita þurfti afbrigða til að koma málinu í gegn. 

Á þessum tíma hafði markaðurinn róast og skuldatryggingarálag ríkisins lækkað umtalsvert, þarna gafst nokkurra daga tóm til að bregðast við og taka lán á viðunandi kjörum, en þá hafði Geir bara sofnað aftur.  Sagði þjóðinni að hann hefði sparað henni milljarða með því að sofa og taldi vissast að sofa bara áfram á verðinum.

Þá kom að uppgjöri annars ársfjórðungs og krónan datt fram af brúninni og féll lengi eða fram að mánaðarmótum júní, júlí þá var tilganginum með fallinu náð og krónan lenti á syllu og hóf að klifra aðeins upp á við aftur.

Þá kom Geir enn fram og sagði þjóðinni að botninum væri náð og nú væri að koma fram kostir þess að hafa nú ekki gert neitt allt árið.  Gagnrýnin varð nú svo hávær að gerðar voru málamyndabreytingar á húsnæðismarkaði og samningar við seðlabanka á norðurlöndunum reyndar bara til áramóta til að kaupa sér frið og til að setja inn í áróðursbleðlana frá Valhöll þannig að hægt væri að benda á að eitthvað hefði verið gert.

Þjóðin var nú ekki ginkeypt fyrir yfirlýsingum duglaus forsætisráðherra og Sjálfstæðisflokkurinn mældist í skoðanakönnum ekki lengur stærsti flokkur landsins.   Hófst þá mikil ímyndarherferð til að bæta ímynd flokksins.  Línur voru lagðar, sannleikurinn saminn upp nýtt eins og hentaði flokknum.

Þá leið að lokum þriðja ársfjórðungs og krónan missti takið og datt aftur.  Hún bara dettur og dettur allan september og Geir  og Solla drífa sig til útlanda meðan þau hafa enn efni á að kaupa dollara.  Seðlabankinn hann gerir akkúrat ekki neitt enda er það línan frá forsætisráðherra að best sé að gera ekki neitt.

Nú síðan fær Seðlabankinn upp í hendurnar verkefni, sem hann ætti að öllu eðlilegu að ráða við og geta sinnt fljótt og vel.  Hann er beðinn um lán til þrautavara, sem er meðal annars eitt af hlutverkum bankans.   Á þeim bæ voru menn orðnir svo leiðir á að gera ekki neitt og horfa bara á sömu tölurnar á skjánum viku eftir viku að þeir brettu upp ermar og gengu í verkefnið af þvílíku offorsi að steypubrjálaðir menn í 400 fermetra plötu líta út eins og sunnudagaskólabörn undir predikun við hliðina.

Þeir skutu svo rækilega yfir markið að blessuð krónan er núna eins og hún hafi verið bundin við sökku og ekkert annað að gera en að krossa sig og vona að hún haldi enn í sér andanum þegar botninum er náð og hún nær að losa sig við sökkuna.  

Sakkan sem dregur krónuna niður er traustið á íslensku efnahagslífi, Seðlabankanum og forsætisráðherranum sem sefur.   Allir þessir aðilar hafa það sammerkt í dag að til þeirra bera fáir traust. 

Forsætisráðherrann hefur fyrirgert öllu trausti með fáránlegum yfirlýsingum allt árið um að botninum sé náð og framundan betri tíð með blóm í haga.

Seðlabankinn er rúinn trausti vegna þess að þar situr seðlabankastjóri sem menn efast um að komi fram með hag þjóðarinnar í fyrsta sæti.  Þar situr stjórn vildarvina seðlabankastjóra sem hefur enn sem komið er allt þetta ár bara þegið laun en ekkert lagt á móti.

Efnahagslífið er rúið trausti vegna þess að hér er minnst mynt í heiminum sem á sér ekkert skjól hvorki í Seðlabanka eða hjá ríkisstjórn.   Ábyrgir aðilar í samfélaginu sem reyna að benda á leiðir út úr vandanum verða fyrir árásum og skítkasti ráðamanna og eru uppnefndir landráðamenn.

Svona er Ísland í dag, og það verður fróðlegt að heyra stefnuræðu forsætisráðherra og sjá fjárlög Flokksins í þessu árferði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband