Söguritarar samtímans

Eftir að hafa verið óbloggfær í gær vegna laseraðgerðar á báðum augum ætla ég að reyna að setja nokkrar línur á skjáinn í dag.

Eldhúsdagsumræðurnar á Alþingi í gær voru áfall fyrir þjóðina.   Tilgangur eldhúsdagsumræðna er að flytja þjóðinni boðskap ríkisstjórnar um stefnuna og málin sem tekin verða fyrir í vetur.  Í stað þess að tala um stefnu og mál og boða aðgerðir voru stjórnarliðar fastir í baksýnisspeglinum.  Það var farið yfir afrekalistann, sumt satt og rétt, annað stolið og stílfært en engin þeirra hafði dug og kjark til að horfa fram á við og segja þjóðinni hvernig þeir hyggjast bregðast við aðsteðjandi vanda, hvorki í bráð eða lengt.  Undantekningin var reyndar viðskiptaráðherrann sem boðaði aðild að Evrópusambandinu, en Samfylkingin notar aðildina stundum í ræðum þegar hentar en hefur ekki kjark til að ganga langra en það.

Ég er sannfærður um að ríkisstjórnin þarf að byrja á því að byggja upp traust á íslensku efnahagslífi og þar verður að byrja á byrjuninni.   Þjóðin treystir ekki Seðlabankanum og þá fyrst og fremst Davíð Oddssyni.  Á meðan þjóðin treystir manninum ekki, er ekki hægt að reikna með að aðrar þjóðir eða erlendir bankar treysti honum.   Og á meðan ekkert traust er fyrir hendi fáum við engin lán á ásættanlegum kjörum til að leysa vandan.

Sjálfstæðismenn verða að horfast í augu við ástandið og bregðast við, eða fara frá að öðrum kosti. Sjálfstæðisflokkurinn hefur í marga mánuði komið sér hjá því að ræða efnahagsmál, peningamálastjórn og framtíðar skipulag gjaldmiðilsmála á Íslandi.   Umræðan hefur verið afvegaleidd og Flokkurinn hefur lagt sig fram um ómálefnalega framkomu, útúrsnúninga og hálfkák til að komast hjá því að taka afstöðu.

Flokkurinn hefur ástundað það að umskrifa söguna og sannleikan og nota yfirburðarstöðu sína í fjölmiðlum til þess að mata þjóðina á heimatilbúnum sannleika úr Valhöll.

Nýjasta dæmið eru skrif Agnesar Bragadóttur í Morgunblaðið um yfirtökuna á Glitni.  Agnes er ráðin sérstaklega til Morgunblaðsins framhjá ritstjórn af eigendum Björgúlfsfeðgum.  En það eru þeir sem sitja á kvöld og næturfundum með forsætisráðherra talandi um ekki neitt.   Agnes kemur fram og fullyrðir að hún viti meira um fundi og fundarefni í kringum yfirtökuna á Glitni en þeir sem sátu fundina.  Þetta getur aðeins verið satt og rétt ef hún veit hvað ekki var sagt á fundum heldur bara hugsað.  

Það þýðir að hún hefur aðgang að Seðlabankastjóra og eða forsætisráðherra umfram aðra fréttamenn.  Seðlabankastjóri verður að gera grein fyrir því hversvegna hann gefur ekki viðtöl við almenna blaðamenn en veitir þessum eina aðgang að hugsunum þínum.  Það lyktar óneitanlega af tilburðum til að breyta umfjöllun og sögunni sér í hag og er alls ekki til þess fallið að auka traust á Seðlabankanum þvert á móti.

Boðuð lántaka til að styrkja gjaldeyrisvarasjóðinn er engin lausn til framtíðar.  Lántaka á kjörum sem væru í samræmi við skuldatryggingarálag ríkissjóðs núna er tilræði við komandi kynslóðir.  Sjálfstæðisflokkurinn getur keypt ýmislegt, en hann kaupir sig ekki frá því að ræða framtíðina.  Samfylkingin hefur nú tækifæri til þess að verða afl sem hefur áhrif í íslandssögunni en þá verða menn að taka frumkvæðið af íhaldinu og koma Evrópuumræðunni á dagskrá.  Annars kemst íhaldið upp með það að kaupa sér frið og aðgang að stólunum enn um stund og senda unga fólkinu og börnum þessa lands reikninginn.    Eru menn eða mýs í Samfylkginunni? 

 Smá viðbót:  Stoðir leiðrétta í tilkynningu rangfærslur Agnesar Bragadóttur, rangfærslur þar sem skeikar 126.000 milljónum.   Það er ekki einhver smá ónákvæmni í blaðamanni heldur annað hvort svo óvönduð vinnubrögð að leitun er að öðru eins, eða vísvitandi rangfærsla til að fegra slæman málstað.  Hvort sem er hittir grein hennar í Morgunblaðinu í morgun hana sjálfa ílla fyrir.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband