Er brennuvargur í slökkviliðinu ?
20.8.2009 | 16:24
Eftir að hafa gluggað í skrif Þorvaldar Gylfasonar í Fréttablaðinu í morgun get ég ekki orða bundist. Það getur vel verið að finna megi sök hjá stjórnmálamönnum og dæmi um vanrækslu sem átti þátt í að fjármálakerfi landsins hrundi. Ekki ætla ég mér að gerast dómari í þeirri sök.
En um eitt er ég sannfærður og það er að hluti ábyrgðarinnar liggur hjá háskólasamfélaginu á Íslandi. Fræðingarnir við Suðurgötuna hafa verið iðnir að tjá sig hægri og vinstri um hrunið og fara í fararbroddi þeirra sem leita sökudólga. Samanber grein Þorvaldar Gylfasonar.
Ég held að þeir sem hafa borið ábyrgð á kennslu í lögfræði og viðskiptum við Háskóla Íslands undanfarin 20 ár ættu kannski að velta því fyrir sér hvað þeir gerðu rangt. Embættismenn í ráðuneytum, hjá fjármálaeftirliti og í Seðlabanka, þeir sem áttu að tryggja að farið væri að reglum og þeir sem áttu að vara við ef reglum var ábótavant, ásamt starfsmönnum bankana sem mesta ábyrgð bera eru flestir með próf í lögfræði eða viðskiptafræði frá HÍ.
Mér þætti vænt um að háskólaprófessorar og lektorar litu nú aðeins í eigin barm og veltu því fyrir sér hvort og hvað þeir gerðu rangt og reyndu að læra af því áður en þeir hefja nornaveiðarnar.
Það væri kannski ágæt byrjun að viðskiptaráðherrann taki sér frí og skrifaði úttekt á kennslu sinni og hvort í hans kenningum megi finna hluta af orsök vandans.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.