Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2008
Umræðan er þeim erfið
17.1.2008 | 11:52
Björn Bjarnason gerir það að umtalsefni í pistli sínum á blogginu í gær að fréttamenn haldi lífi í umræðunni um skipan Þorsteins Davíðssonar sem héraðsdómara. Birni virðist þykja það miður að umræðan sé ekki þögnuð og allt fallið í ljúfa löð. Hann gerir athugasemdir við fréttamat fjölmiðlamanna. Það er greinilegt að umræðan er farin að hafa áhrif innan Sjálfstæðisflokksins, það er ljóst að þeim þykir erfitt að verja málstaðinn og eru komnir út í horn með öll sín rök.
Það verður fróðlegt að sjá hvernig þeir bregðast við þegar umræðan hættir að snúast um aukaatriði og fer að snúast um aðalatriði málsins. Þegar fram koma upplýsingar um hæfi þeirra sem framhjá var gengið og matsnefndin taldi hæfari en Þorsteinn. Það er augljóst að það er allt gert nú til að svæfa málið áður en til þess kemur. Álit umboðsmanns Alþingis hlýtur að byggja á samanburði á hæfi þeirra sem sóttu og röksemdum setts dómsmálaráðherra í málinu. Hann fékk á þriðju viku til að semja greinargerð með rökum fyrir ráðningunni og því ljóst að hann hefur talað og nú er það umboðsmanns að vega og meta og fella dóm.
Össur Skarphéðinsson er ekki í mikið betri málum en Árni fjármálaráðherra. Össur sagði að ef hann hefði gengið framhjá Guðna við ráðningu orkumálastjóra hefði hann verið að brjóta stjórnarskrá. Það væri stjórnarskrárbrot að velja ekki hæfasta umsækjandann. Ef umboðsmaður Alþingis, og eftir atvikum jafnréttisráð komast að þeirri niðurstöðu að ekki hafi verið valinn hæfasti umsækjandinn, hafandi röksemdir Össurar undir höndum, hlýtur ráðherrann að segja af sér því ljóst er að þar til bær yfirvöld hafa farið yfir umsóknir og rök ráðherra vegið og metið og komist að því að brotið hafi verið gegn stjórnarskrá samkvæmt túlkun Össurar. Það verður fróðlegt að sjá hvernig hann ætlar að klóra sig frá því.
Vandlæting Samfylkingarinnar við ráðningar á undanförnum árum fór ekki framhjá þjóðinni. Þögn hennar um ráðningu Þorsteins Davíðssonar og ráðningar Össurar á ferðamálastjóra og orkumálastjóra hrópar. Siðapostularnir í Samfylkingu eru farnir í felur og það eina ljósa í málinu er að allt bendir þó til þess að þeir skammist sín fyrir sitt fólk í ríkisstjórn og á Alþingi sem segir eitt í dag og annað á morgun. Hver er opinn í báða enda þessa dagana? Ekki framsókn.