Neytendasamvinnufélag
17.2.2010 | 13:07
Undanfarna daga hafa menn rætt sín á milli um að stofna samvinnufélag til þess að kaupa Haga. Markmiðið félagsins yrði að stunda verslunarrekstur til hagsbóta fyrir félagsmenn og alla neytendur í landinu. Félagsmenn hefðu áhrif á reksturinn og stjórnarkjör færi fram í netkosningu þar sem allir félagsmenn hafa jafnan atkvæðisrétt. Einn maður eitt atkvæði.
Í lögum félagsins verði svo sérstök ákvæði sem takmarka stjórnarsetu einstaklinga t.d. við þrjú 2 ára kjörtímabil ásamt ákvæðum um nýliðun til að tryggja að ný sjónarmið komist að við reksturinn og til að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra og blokkamyndun.
Til þess að svona félag geti haft burði til að kaupa svo mikinn rekstur sem Hagar eru þarf að safna þúsundum félagsmanna. Hagur af því að vera félagsmaður er svo tryggður í gegnum arðgreiðslu í hlutfalli við viðskipti hvers og eins. Félagsmenn fá þá félagskort eða tengja debet og kreditkort sín við félagsnúmer og þegar arður er af rekstrinum er hann greiddur til félagsmanna.
Félagið myndi einbeita sér að dagvöruverslun en láta af rekstri tuskubúða. Það myndi þá leiða til aukinnar samkeppni á því sviði ef nýir aðilar kæmu að þeim rekstri og þá hellst fleiri en einn eða tveir.
Arion banki sem fer með eignarhald á Högum í dag hefur sagt að hann vilji selja fyrirtækið í einu lagi þar sem verðmæti þess myndi rýrna við að skipta því upp. Hversvegna ætti verðmætið að rýrna? Eru Hagar kannski auðhringur sem hagnast á því að drepa niður alla samkeppni? Hagar hafa ekki skilað ársreikningum undanfarin 2 ár og því erfitt að gera sér grein fyrir því hvað eigið fé fyrirtækisins er og hvernig það er samansett.
Ég vona að upplýsingar um stöðu Haga verði gerðar aðgengilegar sem fyrst og áður en farið er í söluferli á hlutabréfamarkaði þannig að hægt sé að skoða hagkvæmni þess að stofna um félagið samvinnufélag og brjóta það upp til hagsbóta fyrir neytendur og almenning í stað þess að selja það í einu lagi og stórum bita sem aðeins útvaldir geta kyngt.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.