Jafnræði við upplýsingagjöf

Í áliti meirihluta utanríkismálanefndar við þingsályktun um aðildarumsókn að ESB er lögð áhersla á upplýsingagjöf til almennings.  Þar lagt upp úr því að upplýsingagjöfin sé hlutlaus og sanngjörn.  Sjónarmið þeirra sem vilja aðild og þeirra sem sem eru á móti aðild eiga að njóta jafnræðis og fá sambærilegan stuðning hins opinbera til að kynna sjónarmið sýn.

Orðrétt segir á áliti meirihlutans: "Meiri hlutinn bendir á að mikilvægur þáttur í upplýsingamiðlun af þessu tagi er einnig að gera félagasamtökum sem málið varðar kleift að kynna málstað sinn, en slíkt var einnig talinn mikilvægur þáttur í lýðræðislegri umræðu um ESB-aðild í Finnlandi á sínum tíma. Meiri hlutinn leggur því til að stjórnvöld sjái til þess að fjármunir verði til ráðstöfunar þannig að félagasamtök sem málið varðar geti með beinum hætti tekið þátt í opinberri umræðu og miðlað upplýsingum um málið."

Bændablaðið hefur haldið uppi víðtækum áróðri gegn aðild að ESB og virðist gera menn út af örkinni til landa ESB til að afla upplýsinga til að styðja málstaðinn.  Bændablaðið er samkvæmt heimasíðu Bændasamtaka Íslands hluti af útgáfustarfssemi samtakanna.  Samtökin eru að stórum hluta fjármögnuð af opinberu fé og því sjálfsagt að framlög til útgáfu á áróðursriti gegn aðild að ESB eins og Bændablaðinu séu reiknuð sem hluti af opinberum stuðningi við félagasamtök sem taka þátt í umræðu um aðild að ESB.

Það blasir við að þeir sem telja hagsmunum Íslands betur borgið innan ESB en utan eiga kröfu á samfærilegu fjármagni til að halda úti áróðursriti sem prentað er í yfir 20.000 eintökum, kemur út 22 sinnum á ári og dreift er frítt um allt land.

Ég velti því einnig fyrir mér hverjir fjármagna ferðir einstaklinga (ríkisstarfsmanna) sem skrifa reglulega í blaðið gegn aðild að ESB.  Eins og málin horfa við mér virðist ráðuneyti Landbúnaðar og sjávarútvegsmála hafa tekið að sér að fjármagna þá sem tala gegn aðild en hvert eiga þeir sem tala fyrir aðild og vilja t.d. fara utan til að kynna sér ESB að leita ?

Það er kannski næsta skref að leita til umboðsmanns Alþingis og fá álit hans, eða er nóg að leita til Jóns Bjarnasonar ráðherra og getur maður þá vænst þess að fá svipaða fyrirgreiðslu og andstæðingar aðildar njóta í ráðuneyi hans?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnlaugur I.

Heill og sæll gamli félagi.

Já þú ferð mikinn yfir því að bændur láti í sér heyra, um andstöðuna við ESB og það í málgagni sínu Bændablaðinu.

En ég spyr þá á móti hvað þá með samtök sem að stórum hluta eru á framfæri hinns opinbera með einum eða öðrum hætti, eins og Samtök atvinnulífsins og ASÍ* apparatið. Sem eru búinn að eyða fleiri milljónum króna í beinan áróður fyrir ESB aðild og halda því áfram. 

Hvað með ESB apparatið sjálft sem hér hefur þegar opnað stórt og mikið sendiráð og sér um að útdeila fjármagni á bæði borð, til Háskóladeilda og svokallaðra fræðasetra sem stunda leynt og ljóst ESB trúboð, reyndar í felulitum einhverra vísinda eða fræða. (svona álíka og Sovétríkin sálugu kenndu Marxísk fræði sem vísindagrein)  ESB greiðir með beinum hætti laun nokkurra prófessora og veita svo líka styrki til þessara stofnana og fræðimanna sem skrifa um ESB fagnaðarerindið í blöð og tímarit. 

Þarf ekki líka að skoða það hvernig þetta Yfirráðabandalag reynir í skjóli fjárausturs að hafa hér bein áhrif á íslensk innanríkismál.

Slíkt brýtur í bága við stjórnarskrá og lög landsins okkar og þeir sem þyggja fé fyrir að ganga erinda erlendra aðila til þess beint að skerða eða grafa undan fullveldi og sjálfstæði þjóðarinnar eru komnir ansi nærri því að brjóta landráðaákvæði stjórnarskrárinnar.  

Ég myndi hafa meir áhyggjur af þessu Valdi minn, heldur en hvað þjóðlegir íslenskir bændur sem vinna í sveita síns andlits, segja um ESB.

Svo spyr ég þig á móti sem Framsóknarmann, afhverju flokkurinn er með ESB innlimun á stefnuskránni, mér sýnist samkvæmt öllum skoðanakönnunum að stærstur hluti kjósenda flokksins vilji ekkert þangað inn, eða ætliði nú enn einu sinni að gera þau hrikalegu mistök að hlusta ekkert á kjósendurna eða grasrótina í flokknum. 

Hvar hefur hinn gamli góði og þjóðlegi Framsóknarflokkur lit sínum glatað.

Gunnlaugur I., 18.5.2010 kl. 11:19

2 Smámynd: G. Valdimar Valdemarsson

sæll og blessaður Gunnlaugur

Ég er ekki Framsóknarflokkurinn þó svo að ég starfi í flokknum.  Samþykkt flokksins var gerð á yfir 1.000 manna flokksþingi og þar talaði grasrót flokksins skýrt um ESB.

Ég vona að Framsóknarflokkurinn verði aldrei flokkur sem lætur stjórnast af skoðanakönnunum heldur af því hvað menn telja þjóðinni fyrir bestu.  Þannig reyni ég að starfa og ætla að flestir í stjórnmálum starfi í þeim anda.

Okkur greinir kannski á um hvað þjóðinni er fyrir bestu en að láta stjórnast af misvelunnum skoðanakönnunum í stað þess að fylgja sannfæringu kann aldrei góðri lukku að stýra og nóg að hafa einn stefnulausan stjórnmálaflokk sem lætur skoðanakannanir ráða.  S er listabókstafurinn fyrir skoðanakannanir.

Varðandi áhrifin á innanríkismálin sem þú nefnir þá er ég hugsi yfir því hvaðan Heimsýn er fjármögnuð og ekkert eðlilegra en að ef til þess kemur að þeir fái framlög úr opinberum sjóðum til að tala fyrir sýnu máli að þeir opni bókhaldið sitt og geri grein fyrir fjármögnun t.d. á ferð stórrar sendinefndar á aðalfund NEI hreyfingarinnar í Noregi.

Annars ættum við að hittast yfir kaffibolla og taka umræðuna við tækifæri ef þú ert heimkominn úr sæluríki ESB.

 Grænn er litur okkar framsóknarmanna - á allar hliðar ekki bara þá vinstri.

G. Valdimar Valdemarsson, 18.5.2010 kl. 11:43

3 Smámynd: Gunnlaugur I.

Sæll aftur G. Vald. og takk fyrir hressileg svör. Þó svo þú vékir þér nú algerlega undan því að svara fyrir allan áróðurskostnaðinn sem fer í gengdarlausan áróður ESB apparatsins og þeirrar elítu allrar.

Þessi í stað sagðistu vera hugsi yfir því hvaðan alíslensk hugsjóna samtök frjálsra einstaklinga eins og Heimssýn, þ.e. samtök okkar ESB andstæðinga fengju fé til að heyja áróðursstríð við það ofurefli sem ESB apparatið og þeirra fjáraustur og fylgifé þeirra allt er.  Þetta er svona álíka skrýtinn hugsunarháttur hjá þér eins og hjá FME og var þar viðvarandi í mörg ár í aðdraganda hrunsins.

Þeir hundeltust við ýmis smápeð og sjálfstæða tryggingarmiðlara, meðan bankaglæponarnir rændu viðskiptabankanna innanfrá og komu öllu þjóðfélaginu á vonarvöl, en þeir létu þessa elítu alveg ósnerta en voru sífellt með hugann við einhverja sem þeir gætu örugglega haft undir.

Ég bý nú enn í ESB dýrðinni hér á Spáni og 20% atvinnuleysinu og hreinu volæði og ekki er ESB eða Evran að hjálpa hér uppá neitt nema síður sé. Spillinginn ríður hér röftum í öllu stjórnmála- embættis- og viðskiptalífi og hin ósýnilega og allt um vefjandi hönd ESB apparatsins hefur bara aukið og fjölgað möguleikunum á myrkraverkunum og spenunum sem þetta hyski hefur til að gera að sérlegri féþúfu og mútuþægni allt á kostnað almennings.

Já ég væri vís með að hringja í þig þegar maður skreppur heim og ræða við þig hressilega um ESB og pólitíkina almennt, það yrði mjög gaman og allt í mesta bróðerni þó ekki yrðum við sammála um allt. En ég vildi gjanran gera tilraun til þess að snúa þér í þessu ESB máli þó svo ég hafi fyrir löngu gefist uppá því að snúa þér frá inngróinni Framsóknarmennskunni.

Góðar stundir.

Gunnlaugur I., 18.5.2010 kl. 15:02

4 Smámynd: G. Valdimar Valdemarsson

sæll aftur

Ég held að það sé erfiðara að snúa sannfæringu minni um kosti aðildar að ESB fyrir Ísland en að snúa mér frá Framsóknarmennskunni... en þú mátt reyna.

Varðandi fjármálin þá var því lofað að gætt yrði jafnræðis og þar skortir mikið á í dag.  Landbúnaðarráðherra brýtur allar jafnræðisreglur og þarf að gera á því bragarbót.

En sennilega verður að leita til umboðsmanns til að koma vitinu fyrir Jón Bjarnason.

G. Valdimar Valdemarsson, 18.5.2010 kl. 15:14

5 Smámynd: Jón Pétur Líndal

Sælir báðir tveir, gaman að sjá þið eruð að ræða málin. En þetta með ESB hluta framsóknarflokksins leystist nú ágætlega í kosningunum um helgina. Sá hluti flokksins sem vill inn í ESB dó einfaldlega í kosningunum. Það sem eftir lifir af flokknum vill ekki fara í ESB. Nú verður þú að fara að finna þér flokk við hæfi Valdimar, ef þú ert enn á því að fara í ESB. Er ekki Samfylkingin eini flokkurinn sem enn lætur sig dreyma um það? Stökktu á Jóhönnu á meðan enn er smá líf í þessari hugmynd hennar!

Hafið það annars gott báðir tveir.

Jón Pétur Líndal, 31.5.2010 kl. 01:52

6 Smámynd: G. Valdimar Valdemarsson

Jón Pétur, þetta voru sveitarstjórnarkosningar og því miður geta einstök sveitarfélög ekki gengið í ESB og þess vegna var ekki kosið um aðild í þessum kosningum.  Þó svo að ég sé í hjarta mínu jafnaðarmaður á ég enga samleið með Samfylkingunni.  Stjórnmál snúast um fleira en bara ESB.  Þó svo að það sé stærsta mál samtímans og til skammar að stjórnmálaflokkar ræða það ekki.

G. Valdimar Valdemarsson, 31.5.2010 kl. 10:44

7 Smámynd: Jón Pétur Líndal

Sæll aftur. Þú hljómar eins og þú sért orðinn upplitaður framsóknarmaður.

Jón Pétur Líndal, 31.5.2010 kl. 12:05

8 Smámynd: G. Valdimar Valdemarsson

Jón Pétur, svar þitt bendir til rökþrots.  Sem er nú frekar ólíkt þér.

G. Valdimar Valdemarsson, 31.5.2010 kl. 14:18

9 Smámynd: Jón Pétur Líndal

Sæll, auðvitað er ég rökþrota í sjálfu sér í þessu máli, en það er nú aðallega vegna þess að aðrar þrætur eiga athyglina hjá mér þessa dagana þannig að ég er ekki að velta þessu máli mikið fyrir mér núna. En mér finnst þú samt hljóma eins og svoldið upplitaður.

Jón Pétur Líndal, 31.5.2010 kl. 17:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband