Samræðustjórnmál í praxís

Eftirfarandi samtal er hreinn og klár uppspuni og ekki nokkur fótur fyrir því að það hafi átt sér stað:

Kona: Sæll Geiri minn, Solla hér.

Karl: Blessuð. Ég ætlaði einmitt að fara að taka upp tólið og hringja í þig. Ég var ekki ánægður með að heyra af ræðunni þinni áðan. Þú ert alltaf með einhverjar hugmyndir og vilt alltaf vera að gera eitthvað. Veistu ekki að það er yfirleitt best að gera ekki neitt? Þá gerir maður ekki nein mistök. Þetta er ég búinn að gera í mörg ár og sérðu bara í hvaða stöðu ég er!

Kona:   Það er lúxus sem þú kemst upp með í þínum flokki. Hjá okkur er þetta ekki svona einfalt því fólk hefur jú sjálfstæðar skoðanir hjá okkur. Þess vegna verðum við að hafa þann háttinn á að tala mikið og útlista alls kyns hugmyndir. Þá heldur fólk             alltaf að við ætlum raunverulega að gera eitthvað og styður áfram við bakið á      okkur. Þetta eru samræðustjórnmálin. Þú manst að við sömdum um þetta á Þingvöllum. Við áttum að fá að tala til að sýna muninn á stjórnarflokkunum. Það þýðir ekkert að vera pirraður á þessu núna.

Karl:     Þótt við höfum samið svona þá þýðir það ekki að þú getir gengið svona langt. Manni getur nú sárnað. Hvað varstu t.d. að þvæla um aðgerðir í efnahagsmálum þegar þú veist að við erum ráðalaus og ættum því bara að spila þetta cool og blöffa? Og eftirlaunafrumvarpið, þetta er í stjórnarsáttmálanum og við þurfum að klára það saman áður en svona yfirlýsingar fara í loftið. Eins og Valgerður Bjarnadóttir sé ekki búin að skaða okkur nóg. Einar K. er líka brjálaður út af             tollalækkuninni sem þú fórst að tala um. Ég bjó þó við næg vandræði í því kjördæmi vegna Sturlu. Þú manst að hann var ekki beint sáttur við að fá ekki að vera ráðherra áfram?

Kona:   Já, auðvitað. Það er samt óþarfi að fara í fýlu. Þetta var nú samt bara saklaus ræða. Þú veist að ég segi oft svona hluti. Við þurfum auðvitað ekkert að gera þetta. Við      hlógum að nákvæmlega því sama þegar við skrifuðum stjórnarsáttmálann. Manstu ekki eftir brandaranum um samráðið við utanríkismálanefnd? Og Evrópunefndin - þú tókst bókstaflega bakföll af hlátri þegar ég pikkaði það inn. Þið eruð svo heldur ekki alsaklausir sjálfir. Það er pirringur mín megin vegna Árna Matt og Þorsteins og út af veseninu í Keflavík. Er ekki bara best að Björn fái meiri pening og hætti við?

Karl:     Nei, það má ekki gerast. Hann fékk víst andskotans nóg þegar sá stóri réði öllu.            Einhvers staðar verður að stoppa. Við eyddum líka svo miklu í fjárlagagerðinni í haust að við megum ekki við frekari útgjöldum - það var nú ekki síst þínu fólki að kenna.

Kona:   Slakaðu bara á. Við reddum þessu. Þú mátt heldur ekki vera of trekktur fyrir fundinn í Búkarest. Talandi um hann - varstu búinn að fá svar frá RÚV? Það er allt klárt mín megin.

Karl:     Nei, held að Palli sé í einhverri fýlu vegna þess að hann er í vandræðum með Tóta. En það er allavega nóg pláss í þotunni. Heldurðu að það verði eitthvað vesen með hana?

Kona:   Nei, blessaður vertu. Við segjum bara að þetta sé ódýrara. Það dugar. Það nennir hvort sem er enginn að tékka á því. Við förum bara á fundinn og tökum því rólega. Það er ágætt að sleppa frá þessu argaþrasi hér heima og umferðarhnútunum.

Karl:     Jæja þá. En þú verður að lofa mér að fara ekki svona bratt í hlutina næst. Siggi Kári og strákarnir eru brjálaðir.

Kona:   Ok, Geiri minn. Ég reyni að draga úr þessu. Ég hef nú náð að hemja Össur og næturbloggið svo þú getur ekki kvartað yfir öllu sem ég geri.

Karl:     Nei, sem betur fer er sú vitleysan hætt. Ég var farinn að missa sjálfur svefn yfir þessari vitleysu alltaf í honum. En ég verð að hætta núna. Frúin er byrjuð að pakka niður og þarf einhverja aðstoð. Við sjáumst á morgun.

Kona:   Ok, Geiri minn. Slakaðu bara vel á í dag og reyndu bara að gera ekki neitt. Ég skal sjá um að þetta endi allt vel.

Karl:     Allt í lagi. Segjum það í bili. Bless.

Kona:   Bless Geiri minn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband