Einfalt lítið skref ?
18.4.2008 | 10:02
Núna á tímum mikillar verðbólgu fór ég að velta fyrir mér vísitöluútreikningum og hvaða áhrif það hefur á verðbólgu ef raunverð á íbúðarhúsnæði lækkar eins og bæði Seðlabanki og fjármálaráðuneyti hafa spáð. Það er ljóst að verðbólgunni var haldið uppi af hækkandi húsnæðisverði svo mánuðum skipti á undanliðnum árum.
Húsnæðisliðurinn vegur þyngra í neysluverðsvísitölunni hér á landi en í flestum þeim löndum sem við berum okkur saman við og því gæti aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum bent til þess að hún ætli að láta lækkandi húsnæðisverð draga úr verðbólgu. Það gæti verið meðvituð stefna, sem ég tel reyndar hreina uppgjöf í því að taka á vandanum.
Ég vil varpa þeirri hugmynd hér fram hvort ekki væri skoðandi að bankar, lífeyrissjóðir og Íbúðalánasjóður tækju sig saman um að bjóða nýja tegund af verðtryggðum lánum. Lán sem fylgdu samræmdri neysluvísitölu EES en ekki íslenskum vísitölum sem eru í vítahring víxlhækkana þar sem hækkandi lántökukostnaður vegna hærri verðbólgu leiðir til hærri vísitölumælinga í næsta mánuði og svo koll af kolli.
Ef nýr lánaflokkur yrði almennur, sem myndi nú ekki gerast mjög hratt miðað við núverandi framboð af ljásfjármagni, gæti það rofið þennan vítahring víxlhækkana og orðið til þess að það dregur fyrr úr verðbólgu. Þarna gæti verkalýðshreyfingin tekið frumkvæði í krafti stjórnarsetu í lífeyrissjóðum og þá er líklegt að bankar og aðrir myndu svara nýrri samkeppni á markaði.
Það væri fróðlegt að fá viðbrögð við þessum pælingum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.