Krónan liggur fyrir dauðanum
16.5.2008 | 11:15
Seðlabankinn hefur gert samninga við félaga sína á norðurlöndunum um að þeir geymi krónur og láti af hendi evrur í staðinn. Þetta er sagt gert til þess að tryggja lausafjárstöðu Seðlabankans.
Hversvegna bankinn þarf allar þessar evrur er spurning sem eftir stendur, kannski til að verja krónuna þegar Jöklabréf falla á gjalddaga næst? Það er ljóst að ef keyptar eru krónur fyrir evrurnar eru þær ekki lengur gjaldeyrisvarasjóður og varla fara bankarnir að taka þær að láni . Síðar kemur svo að skuldadögum og bankinn þarf að kaupa evrur til að skila til Skandinavíu og fá krónurnar heim þar sem þær eru jú engum til gangs í Skandinavíu.
Hér er verið að slá sig til riddara með því að pissa í skóinn og fresta vandanum, hann fer ekkert þrátt fyrir þessa samninga. Sálræn áhrif þess að loksins var eitthvað gert vara eflaust í viku eða tíu daga og svo fellur allt í sama farið.
Eftir stendur að Seðlabankinn, með þá Halldór Blöndal, Hannes Hólmstein og Ragnar Arnalds í stjórn og Davíð Oddsson sem aðalbankastjóra ýta vandanum á undan sér og vonast til að einn daginn hverfi hann af sjálfu sér. Evru og Evrópuumræðan er svo skrambi óþægileg og vond fyrir Flokkinn.
Hvenær ætla mennirnir að skilja það að Styrmir Gunnarsson skrifar ekki vandann út af borðinu í leiðurum, Reykjavíkurbréfum eða Staksteinum. Morgunblaðið er ekki lengur gerandi í íslensku efnahagslífi, þeir dagar eru liðnir og koma sem betur fer aldrei aftur.
Skiptasamningar gilda út árið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:17 | Facebook
Athugasemdir
Jamm ég held að það sé að koma dulítið flatt upp á þá félaga að vera ekki alráðir lengur, að hafa búið til skrímsli sem er farið að stjórna sér sjálft og verður fyrir utanaðkomandi áhrifum. Hvort þeir séu bara ennþá í sjokki eða bara viti ekkert hvað á að gera í málunum það á eftir að koma í ljós og ég óttast að það sé dálítið af báðu.
Skaz, 16.5.2008 kl. 13:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.