Árangur áfram
30.9.2008 | 16:23
Ísafjarðarbær hyggst fresta framkvæmdum fyrir 87,8 milljónir króna, ef farið verður að tillögum sem lagðar voru fram í bæjarráði í gær. Þetta kemur fram í frétt á Skutull.is.
Þetta er tilkomið vegna erfiðleika við að útvega lánsfé til framkvæmda. Margir hafa orðið til þess að ræða aðkomu ríkis og sveitarfélaga þegar kreppir að. Talað hefur verið um að ríki og sveitarfélög eigi að framkvæma þegar aðrir geti það ekki. Nú er kreppan orðin það alvarleg að sveitarfélögin eru dæmd úr leik. Þau hafa ekki aðgang að lánsfé á skikkanlegum kjörum
Ríkissjóður stendur heldur ekkert of vel, hátt skuldatryggingarálag og lækkandi lánshæfismat hefur þau áhrif að annars arðbærar og nauðsynlegar framkvæmdir eru ekki eins fýsilegar í dag. Þessi þróun getur leitt af sér fjöldagjaldþrot í mörgum atvinnugreinum og síðar hjá mörgum fjölskyldum. Stjórnvöld hafa flotið steinsofandi að þessum ósi.
Peningamálastefnan er í algjöru öngstræti, háum vöxtum er ætlað að draga úr þenslu og koma í veg fyrir verðbólgu. Verðbólgu sem er fyrst og fremst til komin vegna gengisfalls og hárra vaxta. Vaxtabyrgði fyrirtækja fer beint út í verðlagið og há verðbólga og úrræðaleysi stjórnvalda veldur óstöðvandi gengisfalli.
Forsætisráðherrann hefur komið fram nokkrum sinnum á þessu ári og sagt að botninum sé náð og jafnoft haft rangt fyrir sér. Hann sagði um helgina að allt væri stakasta lagi og hann væri bara að setja sig inn í málin. (lesist: hann var að leita að botninum) Á mánudegi vaknar þjóðin og allt er að fara til fjandans. Seðlabankinn hefur framið hryðjuverk á íslensku efnahagslífi og erlendar lánastofnanir og matsfyrirtæki keppast við að fella lánstraust þjóðarinnar.
Einmitt á þeim tíma þegar ríki og sveitarfélög þurfa á því að halda til að fá hjól atvinnulífsins til að snúast vinnur Seðlabankinn gegn því. (Heldur víst að enn sé þensla á Íslandi) Ríkisstjórnin hefur lagt steina í götu atvinnuuppbyggingar frá þeim degi sem hún tók við völdum. Ráðherra keppast við að þvælast fyrir þeim sem vilja tryggja fólkinu í landinu atvinnu.
Gengi krónunnar fellur vegna þess að það er ekki jafnvægi milli þjóðarframleiðslu, kaupmáttar fyrirtækja og almennings og gengis. Þá er gengið leiðrétt sem hækkar tekjur af útflutningi og dregur úr kaupmætti þar til jafnvægi fæst. Það hefur margoft verið bent á að nær væri að auka útflutningstekjur og þjóðarframleiðslu í stað þess að fella gengið og senda almenningi reikninginn.
Ríkisstjórnin og Geir ætla sér að láta almenning borga þennan reikning að fullu og línan er að þjóðin eigi þessa timburmenn skilið eftir góðærisfylleríið undanfarin ár. Timburmannasamlíkingin hentar vel þeim sem vilja að almenningur borgi brúsann. Vandamálið er bara að almenningur allur var ekki á fylleríi og þessir heimatilbúnu timburmenn ríkisstjórnarinnar spyrja ekki hvort þú hafir sopið á góðærinu eða ekki, þeir leggjast á alla fulla og ófulla.
Þjóðin á skilið þá stjórn sem hún kýs yfir sig, en það er ekki tilviljun að dýpstu efnahagslægðir þjóðarinnar hafa komið þegar kratar og íhald sitja í stjórn. Þessir flokkar eiga það sameiginlegt að vilja nota atvinnuleysi sem stjórntæki í efnahagsmálum. Nú þegar saman fer heimatilbúin niðursveifla eftir miklar framkvæmdir og djúp alþjóðlega kreppa ráða þessir flokkar ekki við vandan.
Ástæða ráðleysis er margþætt, sjálfstæðismenn búa við forystukreppu þar sem nýr formaður hefur ekki náð tökum á flokknum og hefur gefið á sér færi sem bæði væntanlegir vonbiðlar eftir formannssætinu og fyrrverandi formaður ganga á lagið. Samfylkingin er ekki stjórnmálaflokkur heldur kosningabandalag fjögurra flokka með mismunandi rætur og því enga eina stefnu þangað að sækja til lausnar á vandanum.
Það veit enginn hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Framsóknarmenn boðuðu árangur áfram, að sókn væri besta vörnin við aðsteðjandi niðursveiflu. Nú hefur alþjóðleg kreppa bæst við þá sveiflu sem við vissum að lá í kortunum. Eina svarið við stöðunni eins og hún blasir við er Árangur áfram, áframhaldandi atvinnuuppbygging, ef ríkisstjórnin er þá ekki búin að fæla allt fjármagn frá landinu og sökkva þjóðinni í 10 ára kreppu.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.