Að horfa fram á veginn
14.10.2008 | 12:09
Nú eru margir sem tala um "nýja Ísland" og "gamla Ísland". Almenningur kallar eftir breyttu samfélagi með nýjum leikreglum. Í þeirri stöðu sem upp er komin í samfélaginu felast tækifæri, það er engin spurning. Verkefnunum má skipta upp í nokkra áfanga.
Í fyrsta lagi bráðaaðgerðir til að lágmarka þann skaða sem samfélagið verður fyrir og þar er mikilvægast að skapa ró og koma á ástandi sem er ásættanlegt fyrir fyrirtækin og einstaklingana. Þar hlýtur fyrsta mál á dagskráð að vera að lækka vexti í samfélaginu og koma í veg fyrir að fyrirtækin og fjölskyldunnar tapi meiru enn orðið er. Eigið fé fyrirtækja er að brenna upp í ríkisstýrðu vaxtaokri. Annað aðkallandi mál er að koma gjaldeyrisviðskiptum í viðunandi horf til að tryggja að fyrirtækin fái þau aðföng sem þau þurfa á að halda til áframhaldandi reksturs og vonandi uppbyggingar í framhaldi af því.
Síðan kemur uppbygging sem miðar að því að auka gjaldeyristekjur þjóðarinnar aftur og vinna upp það sem tapast hefur við það að erlendur hluti bankakerfisins er horfinn. Þar er mikilvægt að horfa til nýtingar náttúruauðlinda og áframhaldandi uppbyggingar í orkufrekum iðnaði. Íslendingar áttu í áralangri baráttu á síðustu öld við að sannfæra erlenda aðila um kosti þess að fjárfesta á Íslandi. Nú búum við svo vel að það eru til aðilar sem þekkja til og eru tilbúnir til þess að koma að uppbyggingu hér t.d. stækkun í Straumsvík, stærra álver í Helguvík og nýtt álver við Húsavík.
Nú er staða hagkerfisins þannig að þessar framkvæmdir myndu koma á samdráttartíma og hjálpuðu til við að fá hjólin til að snúast og skapa hér vinnu sem við þurfum örugglega á að halda næstu mánuði og ár. Innviðirnir eru sterkir og mikil þekking til staðar vegna nauðsynlegrar orkuöflunar, það sem hellst stendur í veginum er andstaða þeirra sem telja að við getum aflað okkur gjaldeyris með einhverjum öðrum hætti. Eflaust verður uppgangur í ferðamennsku hérna næsta misserið en vonandi ætla menn ekki að skrá krónuna varanlega við gengisvísitöluna 200 svo að sú gósentíð sem menn upplifa í ferðamennsku verður skammvinn.
Síðan þegar hlutirnir eru komir fyrir vind og við sjáum fram á að fólkið hafi atvinnu og ríkið tekjur til að standa undir nauðsynlegri almannaþjónustu er nauðsynlegt að huga að uppstokkun og breytingum í samfélaginu. Við eigum ekki að fara í grundvallarbreytingar á samfélagsgerðinni á þessum umrótstímum sem nú ráða ríkjum, um slíkar breytingar þarf að ríkja sem mest sátt.
Aðstoð frá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum við að ljúka fyrsta áfanga nauðsynlegra aðgerða þarf að koma til. Staða fyrirtækjanna og fólksins í landinu er þannig að þar verða menn að kyngja stoltinu og þiggja þá hjálp sem er í boði.
Síðan tel ég rétt að þjóðin taki um það afstöðu í þjóðaratkvæði hvort við eigum að sækja um aðild að ESB eða ekki. Þannig sest þjóðin í ökumannssætið á þessum viðsjárverðu tímum og meirihlutinn varðar veginn hvort við sækjum um aðild eða ekki. Þetta þarf að gerast í vetur eða ekki síðar en næsta vor. Margir munu segja að það sé á ábyrgð stjórnmálamanna að taka afstöðu til þess hvort sækja eigi um aðild eða ekki. Stjórnmálamenn á Íslandi hafa haft 15 ár til að ræða Evrópumálin og hafa margir hverjir grafið sér djúpar skotgrafir. Allir flokkar hafa brugðist því hlutverki sínu að taka málefnalega umræðu um kosti og galla aðildar og móta síðan skýra afstöðu í framhaldinu og fylgja henni eftir. Það er því fullreynt að fara þá leiðina.
Ef reynslan af þjóðaratkvæði um aðildarumsókn að ESB verður góð er vel hægt að hugsa sér að beita þjóðaratkvæði um önnur mikilvæg framfaramál í samfélaginu. Ég nefni bara í því samhengi breytingar á kosningalögum, Ísland eitt kjördæmi, eignarhald á auðlindum, staða sveitarstjórnarstigsins og eflaust má telja þar fleira til.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Fínn pistill hjá þér, það er bara eitt sem ég óttast að uppstokkunin verði ekki nógu mikil og að það verði beðið of lengi með hana. Það er tækifæri núna til að leiðrétta margt sem aflaga hefur farið s.s. í auðlindastjórnun. Ég reyndar geri ekki ráð fyrir að núverandi stjórnvöld, hvort sem eru stjórnarsinnar og stjórnarandstæðingar hafi kjark og framsýni til að gera nauðsynlega uppstokkun. Það þarf að gefa uppá nýtt, til að tryggja réttlæti og sanngjarnar leikreglur fyrir komandi kynslóðir. ES er örugglega leið til að tryggja leikreglurnar í framtíðinni.
Magnús Guðjónsson, 14.10.2008 kl. 14:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.