Draumalandið er orðið að martröð
15.10.2008 | 12:00
Þessa dagana upplifum við skipbrot draumalandsins. Hugmyndafræði draumalandsins gekk út á að við hefðum ekki þörf fyrir að nýta auðlindir landsins. Allir þeir sem vildu byggja traustar undirstöður undir þjóðarbúið með skynsamlegri nýtingu auðlinda í þágu lands og þjóðar voru illa séðir í draumalandinu.
Við framsóknarmenn upplifðum þetta í síðustu kosningum. Við vildum skynsamlega nýtingu auðlindana, við vildum að stofnaður yrði auðlindasjóður sem færi með ráðstöfun sameiginlegra auðlinda þjóðarinnar og skilaði þjóðinni arðinum. Auðlindasjóðurinn átti að ráða yfir öllum sameiginlegum auðlindum svo sem vatnsréttindi, hitaréttindi, olíu, í sjávarútvegi og nýtingu þjóðlenda í þágu þjóðarinnar.
Þessu höfnuðu aðrir flokkar á þingi í aðdraganda síðustu kosninga, og þessu hafnaði krúttkynslóðin í síðustu kosningum. Nú standa allir á torgum og vildu Lilju kveðið hafa. Nú er komið fram að ríkisstjórnin kaus að leyna þjóðina sannleikanum um stöðu bankana og stakk skýrslu þar um undir stól og lét sem ekkert væri að.
Ég á mér draum, draum um að þjóðin komist frá því ástandi sem nú ríkir í þjóðfélaginu sterkari og samhentari en hún hefur verið lengi. Ég á mér þann draum að við eignumst leiðtoga sem horfa fordómalaust á viðfangsefnin með hagsmuni almennings og fjöldans í huga, ekki hagsmuni fárra.
Framsóknarmenn hafa flutt tillögur um auðlindasjóðinn á Alþingi og nú er lag fyrir þjóðina að tryggja stöðu auðlinda sem þjóðareignar. Mikilvægt að í stjórnarskrána komi ákvæði um auðlindirnar og væntanlegan auðlindasjóð og þannig verði staðið vörður um fjöreggið. Þegar harðnar á dalnum eru það landsins gagn og gæði sem telja en ekki huglæg verðmæti á markaði.
Mikilvægt er að nýting á auðlindum þjóðarinnar sé stýrt í þann farveg að hugað sé að atvinnuuppbyggingu um allt land. Stórkostleg verðmæti hafa farið forgörðum í fólksflutningum undanfarinna ára. Fólk hefur flúið heimabyggð í leit að atvinnu og betra lífi og skilið eftir byggingar og sköðuð samfélög. Á þessu hefur þjóðin ekki efni til lengdar, ný skipan atvinnumála verður að taka mið af þessari staðreynd.
Þessi vetur verður mörgum erfiður og mikilvægt er að leiðtogar þjóðarinnar stappi stálinu í þjóðina og láti einskis ófreistað við að leita lausna. Þar verða hagsmunir fólksins að vera í fyrirrúmi. Ekki er lengur hægt að slá erfiðum ákvörðunum á frest. Nú verðum við að kanna í fullri alvöru með aðildarviðræðum við ESB hvað íslendingum stendur til boða. Það er ljóst að efnahagsumhverfið í Evrópu er með allt öðrum hætti en hér og því líklegt að vinna megi upp að miklu leiti fyrirsjáanlegt kaupmáttartap almennings með lægri skattabirgði í ESB.
Þetta gerist ekki á einni nóttu en það er mikilvægt í vetur þegar fjöldi fólks lendir í atvinnuleysi að fólk viti að allt sé gert til að búa því betri framtíð. Framtíð þar sem íslendingar búa við sambærileg kjör og þjóðirnar í kringum okkur. Okkur hefur ekki tekist að viðhalda nauðsynlegum stöðuleika með íslensku krónuna, það er öllum ljóst. Stöðuleiki frá stríðslokum 1945 til dagsins í dag hefur lengst varað í um 30 mánuði seint á 10 áratug síðustu aldar. Allar þekktar aðferðir í hagstjórn hafa verið reyndar á þessu tímabili og niðurstaðan er öllum ljós. Almenningur þarf ekki á fleiri tilraunum að halda heldur raunhæfum lausnum sem þjóðin trúir á. Annars er hætta á stórfelldum landflótta og við því megum við ekki.
Íslendingar hafa ekki byggt upp öflugt menntakerfi og menntað heila kynslóð fyrir aðrar þjóðir. við þurfum þetta fólk hér heima til að byggja upp öflugt og sanngjarnt samfélag. Nú þarf nýja framtíðarsýn sem byggir á skynsamlegri nýtingu auðlindana og ég vona heitt og innilega að flokkurinn minn, framsóknarflokkurinn beri gæfu til að varða leiðina inn í nýja öld.
Til þess að svo megi vera verða allir að leggjast á eitt og kasta fyrir róða gömlum kreddum og leita fordómalaust að lausnum sem lýsa þjóðinni fram á veginn.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Eða öllu heldur erum við nú að upplifa gjaldþrot þeirrar hugmyndafræði sem Framtíðarlandið réðst gegn.
Slæmt þegar fólk misskilur jafn alvarlega staðreynd og neitar að viðurkenna það slys sem græðgin hefur valdið þessari þjóð. Og jafnframt virðingarleysið fyrir vermætum landsins.
Árni Gunnarsson, 15.10.2008 kl. 12:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.