Ekkert traust
4.12.2008 | 12:42
Nú hefur Davíð Oddsson boðað endurkomu sína í pólitík. Hvort það verður á meðan Geir situr í forsætisráðuneytinu eða síðar er óljóst. Framkoma Davíðs sýnir að hann hefur ekki þann þroska til að bera sem þarf til að sitja sem seðlabankastjóri. Pólitískt skipaðir fyrirrennarar hans höfðu vit á því að vera ekki að vasast í pólitík á meðan þeir stóðu vaktina í Seðlabankanum.
Þennan þroska skortir Davíð og yfirlýsingar hans í dag hafa grafið endanlega undan öllu trausti til hans sem seðlabankastjóra. Ef Geir Haarde víkur honum ekki núna er það vegna þess að hann tekur eigin persónulega hagsmuni og hagsmuni Sjálfstæðisflokksins fram yfir hagsmuni þjóðarinnar og þjóðarbúsins.
Nú reynir á hvort Samfylkingin deilir áhyggjum Geirs af eigin stöðu sem formaður Sjálfsstæðisflokksins komi Davíð aftur í stjórnmálin, eða hvort Samfylkingin láti stjórnast af því hvað er best fyrir þjóðina. það liggur semsagt fyrir að hótun Davíðs um endurkomu í stjórnmálin var raunveruleg og skýrir það hörkuna í Geir við að láta hann sitja hvað sem tautar og raular.
Óttast Ingibjörg Sólrún Davíð svo mikið að hún er tilbúin að fórna þjóðarhagsmunum og hafa seðlabankastjóra sem ekki nýtur traust sitjandi í hennar skjóli?
Miserfitt að hætta í pólitík | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.