Persónukjör

Nú boðar ný ríkisstjórn breytingar á kosningalögum til þess að auka persónukjör við komandi Alþingiskosningar.   Í gildandi lögum er gert ráð fyrir því að kjósendur geti hafnað frambjóðanda með því að strika yfir nafn hans á kjörseðli.   Reglum um útstrikanir hefur verið breytt nokkrum sinnum og hringlað með þær fram og til baka.

Núverandi reglur er rýmri og áhrif kjósenda meiri en þau hafa verið áður.  Samt er á þessu fyrirkomulagi ákveðinn stór galli að mínu mati.   Það er neikvæð aðgerð að hafna einhverjum með því að strika hann út og ekki víst að kjósandi hafi mikinn áhuga á að færa næsta mann upp í sætið.  Útstrikanir hafa því takmörkuð áhrif á lista og hafa ekki nýst kjósendum til að hafa áhrif að skapa flokksræðinu aðhald.

Ég tel því mikilvægt að þegar kosningalögum er breytt verði leitast við að tryggja kjósendum raunveruleg áhrif um röð á lista.   Það verður að mínu mati best gert með óröðuðum listum þar sem kjósendur ákveða röðina í kosningunum.  Þetta má gera með því að kjósendur raði frambjóðendum þess lista sem þeir kjósa, eða með því að kjósendur velji bara t.d. einn, tvo eða þrjá frambjóðendur með því að merkja X við nafn þeirra.   Síðan má velta fyrir sér útfærslum þar sem kjósendur kjósa einn flokk en geta haft áhrif á röð frambjóðenda hjá fleiri flokkum.

Þetta þarf að ræða strax, áður en menn fara í uppstillingar, forvöl eða prófkjör hjá flokkunum þannig að leikreglurnar séu þekktar.   Óraðaðir listar gera jú uppstillingar og prófkjör óþörf og því mikilvægt að ríkisstjórnin leggi spilin strax á borðið og geri grein fyrir hugmyndum sínum.

Öll töf verður til þess að gera breytingar tortryggilegar og menn fara að spyrja sig um tilgang og eðli breytinganna og hverjir hagnast og hverjir tapa á þeim.   Persónukjör á að vera fyrir kjósendur og til að draga úr flokksræði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Lifi flokksræði. Það þarf breytt siðferði ekki breytingar frá flokksræði til persónustjórnmála. Persónustjórnmál snúast um að þeir ríku komast frekari að en þeir efnaminni.... og ef ekki peningar þá almenningsálit.

Gunnar Sigurðsson (IP-tala skráð) 3.2.2009 kl. 13:00

2 Smámynd: Kristbjörg Þórisdóttir

Þetta er frábær hugmynd... vona að hún komist til framkvæmda!

Kristbjörg Þórisdóttir, 5.2.2009 kl. 00:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband