Er frambjóðandinn týndur ?
6.4.2009 | 12:35
Hvar er Illugi Gunnarsson frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík núna? Það virðist skipulegt af Valhöll að fela frambjóðandann enda á hann erfitt með að skýra gjörðir sýnar í bankahruninu og í aðdraganda þess.
Fram hefur komið og ekki um það deild að Illugi Gunnarsson var í stjórn peningamarkaðssjóðs sem kallaðist Sjóður 9 hjá Glitni banka. Það er heldur ekki um það deilt að þessi sjóður stóð mjög illa þegar bankinn hrundi að mestu leiti vegna vafasamra viðskipta í vafasömum bréfum tengdra aðila.
Í prófkjörinu íhaldsins í Reykjavík gat Illugi ekki verið felum og reyndi að skýra aðkomu stjórnarmanna að starfssemi sjóðsins í bloggfærslu sem finna má hér.
Frambjóðandinn gerir enga tilraun til að skýra út hvers vegna hann sat þarna í stjórn. Var það vegna þess að hann hafði fjárfest svona mikið í sjóðnum? Var það vegna þess að bankanum þótti betra að hafa aðgang að þingmanninum og þess vegna var hann settur í stjórn? Það vakna ýmsar spurningar bara um stjórnarsetuna eina og sér.
Það er ekki um það deilt að settir voru umtalsverðir fjármunir í sjóðinn til að bjarga því sem bjargað varð við hrunið. Illugi fullyrðir að sjóðsfélagar hafi þar allir setið við sama borð, en það er nú öðru nær. Margir fengu greitt út hlutfall af því sem þeir áttu og annað er tapað. Fyrir öðrum er sjóðurinn ennþá lokaður og verið að semja um greiðslur þar sem gera má ráð fyrir að allt að 80% af fjármunum sé glatað. Fjármunir sem stjórnin og starfsmenn sjóðsins áttu að gæta og ávaxta.
Illugi fullyrðir að engar greiðslur hafi komið úr ríkissjóði til að fela tap sjóðanna. Varla duttu þessir fjármunir af himnum ofan?
Um þessa hlið málsins þegir Illugi þunnu hljóði.
Ég spyr:
Hvernig er stjórnarsetan tilkomin?
Bera stjórnarmenn í raun enga ábyrgð eins og Illugi fullyrðir?
Hvaðan komu fjármunirnir sem runnu inn í Sjóð 9 ?
Hverjir áttu þá fjármuni í raun?
Hverjir greiddu fyrir mannorð Illuga og voru þeir inntir álits áður ?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Hann er ekki í felum, hann er að vinna á þinginu við það að verja stjórnarskránna - eitthvað sem vinstri flokkarnir neyða hann til að gera.
Grímur Jónsson, 6.4.2009 kl. 13:59
Hver er neyðin? Getur hann ekki sætt sig við leikreglur lýðræðisins að það er meirihlutinn sem ræður. Danski kóngurinn gaf þjóðinni stjórnarskránna en ekki Sjálfstæðisflokknum.
G. Valdimar Valdemarsson, 6.4.2009 kl. 14:01
Hvar eru aðrir frambjóðendur? Er hann eitthvað ósýnilegri en aðrir frambjóðendur í hvaða flokki sem er?
TómasHa, 6.4.2009 kl. 14:38
Illugi er oddviti Sjálfstæðismanna í sjálfri höfuðborginni. Aðrir frambjóðendur í sömu stöðu eru vel sýnilegir í umræðunni á hverjum degi. Enda hafa þeir ekkert að fela.
G. Valdimar Valdemarsson, 6.4.2009 kl. 14:41
Hann situr í skjóli með Ögmundi hjá V-G.
Þeir tveir eru búnir að gera svo dægilega í buxurnar að þeir eru ekki flokks-húsum hæfir!
Óskar Guðmundsson, 6.4.2009 kl. 14:56
ef þú værir að horfa á alþingi núna - þá er hann í pontu ;)
Erla Margrét Gunnarsdóttir, 6.4.2009 kl. 22:04
Líkt og nefnt hefur verið að ofan er Illuga oftast að finna niðri í þingi. Þar er ekki slegið slöku við eins og alkunna er, þó tilgangurinn sé vafasamari og tölum sem minnst um árangurinn. Það þarf enga neyð til eins og G. Valdimar virðist halda, það er nefnilega aðalstarfi þingmanna að vera í þinginu.
Varðandi spurningar hans, þá er rétt að vísa til texta á vefnum illugi.is sem Valdimar nefnir en virðist ekki hafa lesið af nægilegri kostgæfni. Auk þess má benda á frétt í Morgunblaðinu í dag, þar sem greint er nánar frá því hvaðan fjármunirnir komu og hverjir „áttu þá í raun“. Það er ekkert dularfullt við það, eins og Valdimar lætur liggja að.
Það hefur margkomið fram að Illugi var fenginn til stjórnarsetu sem sjálfstætt starfandi hagfræðingur, áður en hann gaf kost á sér til stjórnmálastarfa, einmitt vegna þess að hann var alls ótengdur helstu eigendum bankans og sjóðanna. Hann hefur hvergi fullyrt að stjórnarmenn hafi enga ábyrgð borið eins og Valdimar dylgjar um.
Nú skilur maður vel að framsóknarmenn séu að fara á taugum; þeir hafa ástæður til þess og stutt í kosningar. En að það birtist helst í aðdróttunum þeirra um að forystumenn annarra stjórnmálaflokka hafi átt í einhverjum hæpnum fjármálagerningum í aðdraganda hrunsins þykir mér lýsa nokkurri ósvífni. Fífldirfsku jafnvel.
Andrés Magnússon, 6.4.2009 kl. 22:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.