Er rauðka á vetur setjandi ?
7.4.2009 | 12:07
Fram kom í umræðum á framboðsfundi í Norðvesturkjördæmi að það er himinn og hafa á milli VG og Samfylkingarinnar í Evrópumálum. Guðbjartur Hannesson taldi óhjákvæmilegt að sækja um aðild að ESB á næsta kjörtímabili en Jón Bjarnason taldi það hið mesta óráð. Reyndar afhjúpaði Jón vanþekkingu sína á aðild að ESB og talaði um inntökuskilyrði í sambandið og ruglaði þar saman Evrópusambandinu og myntsamstarfi Evrópusambandsríkja.
Þessir flokkar leika tveimur skjöldum í málinu. Ef þeir ætla saman í stjórn verður annar flokkurinn að gefa fullkomlega eftir í málinu. Það er ekki hægt að vera bæði með og á móti í og ekki í ESB. Það er heldur ekki traust að ríkisstjórn sem sækir um aðild sé klofin í málinu og annar stjórnarflokkurinn í raunverulegri andstöðu við það. Sagan hræðir. Samfylkingin hefur í tvígang fórnað Evrópustefnunni á altari ráðherrastólanna í stjórnarmyndun. Hver segir að það gerist ekki aftur? Það er ekkert sem bendir til að núverandi stjórnarflokkar komi sér saman um raunhæfa stefnu út úr vandanum hvorki í atvinnumálum, efnahagsmálum eða Evrópumálum og því líklegt að stjórnin verði ekki langlíf.
Framsóknarflokkurinn hefur aðildarviðræður á stefnuskrá sinni. Flokkurinn hefur sett fram skilyrði sem væntanleg samninganefnd þarf að taka tillit til við samningsgerðina. Aðrir flokkar telja þessi skilyrði þannig að þau í raun útiloki aðild. Ég er sammála þeim, ef skilyrðin nást ekki er sjálfsagt að fella væntanlegan samning. Skilyrðin eru ekki sett fram í þeim tilgangi heldur eru þau raunhæf og um sambærileg skilyrði hefur verið samið í aðildarsamningum annarra ríkja.
Ég tek reyndar fram að eitt skilyrða framsóknar er ekki að finna í aðildarsamningum annarra ríkja. En samningar eru samningar og rétt að samninganefndin haldi vel á hagsmunum þjóðarinnar og vinni að því að ná því fram. Það er jú einu sinni þannig að í öllum aðildarsamningum hefur ESB orðið að gefa eftir og taka tillit til hagsmuna þeirrar þjóðar sem um sækir. Annars þyrfti jú enga samninga.
Ástandið á Íslandi kallar á aðgerðir sem ekki þola bið. Það verður að komast á hreint hver peningastefnan á Íslandi verður á næstu árum. Hún þarf að vera trúverðug og styðjast við öflugan bakhjarl. Aðild að ESB með upptöku Evru sem langtímamarkmið er eina peningastefnan sem nefnd hefur verið nú í aðdraganda kosninga. Þessi leið gerir ráð fyrir stöðuleikasamningi við Seðlabanka Evrópu sem þá styður Seðlabanka Íslands við að ná fram nauðsynlegum stöðuleika og gengi til að geta skipt um mynt. Þessa leið vilja Framsóknarmenn láta reyna á. Samfylkingin telur þetta einu færu leiðina út úr vandanum og aðrir flokkar vilja bara eitthvað annað, en benda ekki á neinar lausnir.
Framsóknarmönnum hefur verið borið á brýn að vilja slá aðildarumsókn á frest. Það er ekki rétt. Framsóknarmenn gera sér aftur á móti grein fyrir því að grípa þarf til aðkallandi aðgerða sem verða að hafa forgang í sumar. Ef ekki er gripið til raunhæfra aðgerða til að styrkja atvinnulíf og efnahag fjölskyldnanna í landinu verður samningsstaða Íslands engin. Þar skilur á milli Framsóknarflokks og Samfylkingar, en hún hefur ekki komið fram með neinar lausnir á bráðavanda atvinnulífs og heimila sem er nauðsynlegur undanfari aðildarviðræðna við ESB. Þeir vilja sækja um með allt niður um sig og sjá hvað þeir fá.
Framsóknarflokkurinn erindi við þjóðina og það erindi hefur aldrei verið brýnna en nú.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.