Alþingi veldur ekki verkefninu

Nú er orðið ljóst að Alþingi er ekki fært um að viðhalda stjórnarskránni í takt við tímann.   Þingsköp eru misnotuð til að koma í veg fyrir að vilji meirihlutans á þingi nái fram að ganga og ljóst að þrátt fyrir skýran vilja til dæmis til að setja í stjórnarskrá ákvæði um þjóðareign á auðlindum tekst það ekki.  

Það hefur verið á stefnuskrá Framsóknarflokksins undanfarin ár að setja þetta ákvæði inn til að tryggja að ekki myndist óafturkræfur eignarréttur á fiskveiðiauðlindinni og jafnframt til að tryggja stöðu auðlinda í þjóðareigu.

Sjálfsstæðisflokkurinn stóð að stjórnarmyndunum með Framsóknarflokknum þar sem gert var ráð fyrir þessari breytingu.  Sjálfsstæðisflokkurinn stóð einnig að stjórnarmyndum með Samfylkingu þar sem gert var ráð fyrir samskonar breytingu.  Sjálfsstæðisflokkurinn hefur aldrei ætlað sér að standa við þessa stjórnarsáttmála.  Það sést glöggt á vinnubrögðum Sjálfsstæðismanna á Alþingi í dag.

Íhaldið er tilbúið til að fótumtroða lýðræðið í grímulausri hagsmunagæslu.  Þeir snúa út úr og rangfæra  álit sem send eru Alþingi til að fegra málsstaðinn.  Það skiptir engu þó ákvæði um þjóðaratkvæði til að breyta stjórnarskrá sé samþykkt.  Valdið liggur eftir sem áður hjá Alþingi og þar sitja Þeir og hafa eftir sem áður málþófið sem vopn til að koma í veg fyrir að stjórnarskránni sé breytt í takt við breytta tíma.

Á meðan ekki er hægt að treysta Sjálfsstæðisflokknum í samstarfi er hann óstjórntækur. Það breytist ekki nema að hann sýni það í verki að flokkurinn sé tilbúinn að hlusta á fólkið í landinu og virða leikreglur lýðræðisins.

Stjórnarskráin kveður á um þrískiptinu valdsins og valdahlutföll á milli löggjafar- framkvæmda- og dómsvalds.   Það má færa fyrir því gild rök að það sé eðlilegt að þjóðin taki ákvörðun um grundvallar leikreglur samfélagsins en ekki Alþingi sem ein af þremur grunnstoðum samfélagsins.  

Ég tel því að að Framsóknarmenn verði að halda baráttunni áfram og næsta skref sé að sett sé í stjórnarskrá ákvæði um stjórnlagaþing sem haldið sé ekki sjaldnar en á 20 ára fresti til að endurskoða stjórnarskrána.

Upp er risinn hreyfing sem kennir sig við borgara.  Þeir tala fyrir því að slembiúrtak úr þjóðskrá sé notað til að manna stjórnlagaþing.  Það mun leiða til þess að sérfræðingaræðið verður algert og þingið algjörlega háð sérfræðingum.  Það er ekkert annað en önnur birtingarmynd varðhundanna sem ekki vilja færa valdið til fólksins.

Vinnubrögð Sjálfsstæðismanna staðfesta þá bjargföstu skoðun Framsóknarmanna að stjórnlagaþing er nauðsynlegt.  Alþingi er ekki fært um að breyta stjórnarskránni og þess vegna verður að færa fólkinu í landinu valdið til að breyta stjórnarskránni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband