Játningar Evrópusinna

Nú er dagurinn sem greiða á atkvæði um það hvort sækja eigi um aðild að ESB.  Ég hef verið þeirrar skoðunar allar götur frá því að Ísland samþykkti að gerast aðili að EES að við yrðum fyrst það skref var stigið að ganga alla leið.

Ég hef talað fyrir þessari skoðun og stundum hlotið hljómgrunn og stundum ekki.  Fram af var það þannig að efnahagsástandið réði miklu um hvaða skoðun var ráðandi í umræðunni.  Þegar hér ríkti góðæri töldu menn enga þörf á að vera eyða tíma í aðildarumsókn en ef eitthvað bjátaði á þá fjölgaði þeim sem allavega vildu kanna hvað felst í aðild.

Í dag ætla Evrópusinnar að fagna niðurstöðunni.  Ég ætla ekki að mæta í þann fagnað.  Ég hef af því þungar áhyggjur að þeir sem drífa málið áfram í dag séu að vinna málstaðnum tjón.  Tjón sem getur orðið til þess að Ísland verði utan ESB og áhrifalaust í mörgum málum er varða framtíð og heill þjóðarinnar næstu ár og jafnvel áratugi. 

Alla tíð hefur verið ljóst að aðild er umdeild og að þegar og ef til aðildarumsóknar kæmi yrði að vanda vel til verka og leggja mikla áherslu á sem breiðasta pólitíska samstöðu.  Mikilvægt er að þeir sem halda á samningamálum fyrir hönd þjóðarinnar njóti víðtæks trausts þjóðarinnar.

Nú stefnir í aðildarumsókn sem samþykkt er á Alþingi með naumum meirihluta og hluti þess meirihluta mun greiða atkvæði með óbragð í munni og sannfæringu í hjarta um að þeir geti leiðrétt þessi mistök sín á síðari stigum.  Þetta er ekki glæsilegt upphaf á erfiðu samningaferli.  Það á að kosta til 1000 milljónum í að gera samningi sem ríkisstjórnin lýsir í upphafi yfir að hún áskilji sér allan rétt til að fella.   Hugur fylgir semsagt ekki máli, allavega ekki hjá öllum þeim sem ætla að greiða aðildarumsókn atkvæði sitt.

Gera má ráð fyrir í væntanlegri samninganefnd verði aðilar sem telja það hlutverk sitt að koma heim með slæman samning sem þjóðin fellir.  Ef til þess kemur að þjóðin felli aðildarsamning mun ekki verða sótt aftur um aðild að ESB um langt árabil.  Það er því umhugsunarefni hvort ekki sé rétt að bíða með umsókn og vinna heimavinnuna sína betur. 

Talsmenn þess að flýta sér í málinu er að þá sé hægt að fá Svía til hjálpa okkur fram hjá biðröðinni fram fyrir aðrar þjóðir.  Það á semsagt að beita gamaldags íslenskri klíku til að komast inn á undan öðrum.  Alltaf sárnaði mér hér áður fyrr þegar ég sá menn laumast framfyrir biðraðir á skemmtistöðum vegna þess að þeir voru í klíkunni. 

Vinnubrögð utanríkisráðherra við gerð EES samningsins voru ekki til fyrirmyndar, kokkuð voru upp vafasöm lögfræðiálit til að komast hjá nauðsynlegri breytingu á stjórnarskrá og af því súpum við seiðið í dag.   Núverandi utanríkisráðherra virðist ætla að falla í nákvæmlega sama farið.  Þjóðinni er sagt að sem hentar en ekki sannleikurinn.  Það er alveg ljóst að aðild að ESB leysir ekki öll vandamál þjóðarinnar og mun reyndar skapa vandamál á ýmsum sviðum.  Ég hef samt talið að kostirnir vegi upp gallana og þess vegna verið jákvæður gagnvart aðild.

Það getur vel verið að það auðveldi mönnum að komast í gegnum umræðuna á hverjum tíma að öll gögn liggi ekki á borðinu, en til lengdar skaðar það málstaðinn.  Í svona umdeildu og máli getur sá skaði eyðilagt allt málið.  Þessi vinnubrögð eru ekki til þess að auka mönnum bjartsýni og traust á svona degi.

Þess vegna hef ég fullann skilning á því að þingmenn sem í hjarta sínu eru Evrópusinnar eigi erfitt með að samþykkja fyrirliggjandi tillögu um aðildarviðræður.

Er ekki rétt að bíða aðeins og anda nú með nefinu og vanda sig betur ?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband