Eru bara "dropout" í íslenskri blaðamannastétt ?
11.9.2009 | 19:56
Ég velti þessari spurningu fyrir mér eftir að hafa setið fyrirlestur sem Olli Rehn stækkunarstjóri ESB hélt í Háskóla Íslands síðast liðinn miðvikudag. Fréttaflutningur af fyrirlestrinum hefur verið afskaplega takmarkaður og það sem ég hef séð af fréttum hefur snúist um aukaatriði.
Allt bendir til þess að fréttamennirnir hafi fengið útskrift af fyrirlestrinum og hlustað síðan á spurningarnar og svörum sem á eftir fylgdu með bæði lokuð eyru og augu.
Ég verð allavega að segja það að þrjár fréttir stóðu upp úr af þessum fundir, fréttir sem fjölmiðlar hafa nánast ekki gert nokkur skil. Reyndar datt mér um stund í hug að ég hefði sofnað og dreymt fyrirlesturinn þar sem fréttamenn höfðu greinilega ekki heyrt það sem ég heyrði.
Nú hef ég notað undanfarna tvo daga til að bera saman bækur mínar við aðra sem hlýddu á fyrirlesturinn og þeirra upplifun var sú sama og mín.
Frétt númer eitt sem hefði að mínu mati átt að vera fyrirsögn og umræðuefni fjölmiðla í einn eða tvo daga.
Fyrir liggur nánast kláraður efnahagspakki af hálfu ESB til stuðnings Íslandi. Þessi pakki er niðurstaða viðræðna íslenskra stjórnvalda og framkvæmdastjóra fjármála og gjaldeyrismála hjá ESB. Niðurstaða þessara viðræðna er umtalsverðar "makro ökonómiskar tilfærslur" frá ESB til Ísland, sem hellst má bera saman við efnahagslegan stuðning ESB við Serbíu.
Frétt númer tvö sem fréttamennirnir misstu af þegar þeir sváfu er:
ESB hefur undir höndum skjöl sem sýna fram á að íslenskar eftirlitsstofnanir beinlínis hvöttu bankana til að fara á svig við reglugerð um innistæðutryggingar. En það er sú reglugerð sem allt IceSave málið byggir á. Fréttamenn hafa engan áhuga á þessu, hafa ekki hirt um að velta því fyrir sér hvaðan þessi skjöl eru komin eða hvernig þau bárust ESB. Þetta eru allavega spurningar sem ég velti fyrir mér og hef mínar tilgátur um.
Frétt númer þrjú sem fréttamennirnir heyrðu ekki er:
ESB bíður eftir niðurstöðu íslenskra rannsóknaraðila á hruninu en þegar skýrslur liggja fyrir mun sambandið setja af stað eigin rannsókn m.a til að vega og meta íslensku skýrslurnar og það hvort viðbrögð íslenskra stjórnvalda séu sannfærandi og í takt við alvarleika málsins.
Það hvort skýrslan er birt á vefnum eða ekki, eða hvort hún er á íslensku eða ekki, eru fréttir sem hægt hefði verið að segja frá á þriðja eða fjórða degi í umfjöllun. En þetta virðast einu fréttirnar sem blaðamenn sem voru á staðnum sáu.
Er það samsæri eða vanhæfi sem veldur þessu?
Af fenginni reynslu ætla ég að fullyrða að þetta er vanhæfi.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Hvers vegna hefur Evrópusambandið ekki opinberað þessi gögn ef þau eru raunverulega til? Ef þau eru til þarf að birta þau. Þess utan væri auðvitað fróðlegt að vita hvort bankarnir hafi farið á svig við tilskipunina og hvernig þá?
En jafnvel þó þetta væri rétt (sem ég veit ekki) þá breytir það auðvitað engu um þá staðreynd að tilskipunin um innistæðutryggingar nær ekki til þess þegar kerfishrun á sér stað og ekki heldur þá staðreynd að hvergi í tilskipuninni eða annars staðar er minnst á ríkisábyrgð á innistæðutryggingasjóðum.
Hjörtur J. Guðmundsson, 11.9.2009 kl. 21:45
Frábært G. Valdimar. Þakka þér kærlega fyrir þessa úttekt.
Alveg ótrúlegt að íslenskir blaðamenn eru ekki ennþá búnir að fatta þetta.
En svo skil ég ekkert í andstæðingunum að hafa ekki þegar byrjað á áróðri um að ESB vilji bara kaupa okkur inn til þess að ná í auðlindirnar :-)
Einar Hansson (IP-tala skráð) 11.9.2009 kl. 21:52
Þetta hefur mig lengi grunað og því miður hefur það verið að staðfestast æ greinilegar að íslenskir blaðamenn eru ekki góðir...því er verr og miður.
Takk fyrir góða samantekt.
Jón Ingi Cæsarsson, 11.9.2009 kl. 22:30
Er hægt að nálgast einhversstaðar aftrit af því sem fram fór á þessum fundi og orðum Rehns? Væri gaman að sjá hvort það var eitthvað fleira sem fór framhjá mönnum...
Skaz, 11.9.2009 kl. 23:12
Takk kærlega Valdimar. Það jákvæða er að fleiri og fleiri virðist farin að sjá þessa brotalamir á fjölmiðlum. Ég hef oft furðað mér á því að blaðamenn gjarnan fara af fundi þegar framsögum er lokið og það virkilega áhugaverða byrjar.
Svona fyri þá sem ekki vita þá vil ég nefna að Egill Helgason linkar hingað og á eyjunni fra fram umræður ( en mest undirtekir )
http://eyjan.is/silfuregils/2009/09/11/misstu-fjolmidlar-af-storum-frettum-i-fyrirlestri-ollis-rehn/
Morten Lange, 12.9.2009 kl. 00:03
Þetta var gott GVald. Til hamingju. ÞÞ
Þorgeir Þorsteinsson, 12.9.2009 kl. 00:04
Góð samantekt og stórmál þarna á ferð. Vandamál fréttamennsku á Íslandi er að einhverju leyti skortur á gæðum. Tökum t.d. viðtöl við hvern útrásarvíkinginn á fætur öðrum í fjölmiðlunum. Einhvern vegin sleppa þeir alltaf við réttu spurningarnar. Fréttamennirnir eru of illa undirbúnir!
Eysteinn Þór Kristinsson, 12.9.2009 kl. 08:48
Sæll Valdimar og takk fyrir þennan pistil!
Ég tók nákvæmlega eftir þessu eins og þú og undraði mig yfir því að ekkert skyldi vera fjallað um þetta og að blaðamenn skyldu ekki spyrja Olli Rehn meira út í þessa hluti.
Já, vanhæfni!
Guðbjörn Guðbjörnsson, 12.9.2009 kl. 08:49
Hjörtur:
Reyndar talaði Olli Rehn einnig um að hans skoðun væri, að ESB tilskipun nr. 94/19/EC um tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta hafi ekki verið rétt innleidd á Íslandi með lögum um innstæðutryggingar og tryggingarkerfi fyrir fjárfesta nr. 98/1999 og reglugerð um sama efni nr. 120/2000, en bæði lögin og reglugerðin tóku gildi á Íslandi í byrjun árs 2000. Þetta er einnig stórfrétt, sem fjölmiðlar sinntu ekki.
Valdimar, leiðréttu mig ef mig misminnir, hvað þetta atriði áhrærir.
Sé þetta rétt er því miður við okkur Íslendinga að eiga, ef ekki þarf að taka þetta mál aftur upp. Það mun verða einfaldara þegar við sitjum með Hollendingum og Bretum í öllum stofnunum ESB.
Guðbjörn Guðbjörnsson, 12.9.2009 kl. 08:58
Ég er fluttur til Noregs og ég verð að segja að þær fréttir sem maður fær af Íslandi hérna í Noregi eru oft ítarlegri og dýpri en þær frættir sem matreiddar eru af íslenskum fjölmiðlum. Það hefur þó nokkrum sinnum gerst að maður hefur hlustað/horft á fréttir og hugsað "Af hverju hefur þetta ekki komið fram í íslenskum fjölmiðlum"? Kannski er þetta bara með fjölmiðla eins og fótbolta: íslenski fjölmiðlamenn eru ágætir miðað við fólksfjölda.
Einar Solheim, 12.9.2009 kl. 10:07
Takk fyrir þetta Valdimar. En maður á ekki að gera væntingar til íslenskra "blaðamanna", stétt sem er merkilega ánægð með sig miðað við eigin vangetu. Ef maður gerir engar væntingar, þá verður maður ekki fyrir vonbrigðum þegar vangetan er augljós, aftur og aftur.
Sigurjón Sveinsson, 14.9.2009 kl. 21:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.