Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2009

Er glóra í þessu ?

Hvernig dettur mönnum í hug að mæla gjaldeyrisvaraforða í krónum?   Gjaldeyrisvaraforði er lager af peningum í erlendri mynt.  Lagerinn hvorki stækkar eða minnkar þó krónan veikist eða styrkist.  Krónan er engin mælikvarði á gjaldeyrisvarasjóðinn.   Þetta er svipuð hundalógík eins og að mæla vegalengdina frá A til B í skrefum.  Það fer eftir því hver skrefar hvað skrefin eru mörg en vegalengdin er reyndar alltaf sú sama.

Er nema furða þegar greiningardeildir og Seðlabanki beita sjálfa sig svona blekkingum að illa hafi farið ?


mbl.is Gjaldeyrisforði minnkar vegna styrkingar krónu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bullukollur

Er ekki komin tími á þennan forseta, hann er búinn að eyðileggja embættið á einhverju ego-trippi.
mbl.is Svakalegt að fá þetta í andlitið núna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnlagaþing

Nú er frumvarp framsóknarmanna um stjórnlagaþing komið fram.   Í frumvarpinu koma fram hugmyndir okkar í Framsóknarflokknum um það hvernig leikir og lærðir koma saman á þingi til að setja þjóðinni nýja stjórnarskrá.  Nýjar leikreglur til að byggja á nýtt og réttlátara Ísland.

Rauði þráðurinn í hugmyndinni er að það veljist einstaklingar í krafti kunnáttu, þekkingar og hugmynda á þingið sem ræði og móti nýja stjórnarskrá fyrir Lýðveldið Ísland.    Stjórnlagaþing á að vera sjálfstætt og óháð flokkapólitík eins og við þekkjum hana í dag.    Hagsmunir þjóðarinnar eiga að vera í fyrirrúmi en ekki hagsmunir einstaklinga að flokka.

Þingið á að semja stjórnarskrárfrumvarp sem þjóðin tekur svo afstöðu til.   Í tímans rás hafa verið gerðar breytingar á stjórnarskrá þar sem leitast hefur verið við að skapa sem breiðasta sátt.   Sú afstaða að stjórnarskránni eigi ekki að breyta nema um það náist sátt hefur leitt til þess að einstakir stjórnmálaflokkar hafa náð að koma í veg fyrir breytingar.  

Samfélagið hefur breyst hratt á undanförnum árum en stjórnarskráin hefur ekki fylgt þeim breytingum og tilfellum þar sem deilt er um túlkun hennar fer stöðugt fjölgandi.   Það er því full þörf á breytingum eða jafnvel nýrri stjórnarskrá með nýjum leikreglum fyrir samfélagið.  Þannig hljóðar kall tímans.   Því kalli svörum við framsóknarmenn með þessu frumvarpi.  

Við settum stjórnlagaþing sem skilyrði fyrir því að verja minnihlutastjórn VG og Samfylkingar falli. Innan úr ríkisstjórn og þingflokkum þessara flokka heyrast nú raddir um að setja ekki ákvæði í stjórnarskrá um stjórnlagaþing og rétt þess til að breyta og setja nýja stjórnarskrá.  Hugmyndin virðist vera að stjórnlagaþing eigi einungis að vera ráðgefandi  þing en að Alþingi taki síðan hugmyndir þingsins fyrir.   Það er ekki svar við kalli þjóðarinnar það er hagsmunagæsla stjórnmálaflokka sem telja sig betur til þess fallna að hafa vit fyrir þjóðinni en þjóðina sjálfa.

Stöndum vörð um stjórnlagaþing þjóðarinnar.


Ríkissjóður á yfir 500 milljarða útistandandi í ógreiddum sköttum.

Ríkissjóður hefur lánað launþegum landsins skatta af lífeyrisgreiðslum áratugi fram í tímann.  Með einfaldri kerfisbreytingu og samningum við lífeyrissjóðina má innheimta þessa skatta á næstu árum og þannig koma í veg fyrir hallarekstur og skuldastöfnum ríkissjóðs.

Með því að innheimta strax skatt af lífeyrisgreiðslum í stað þess að innheimta hann þegar lífeyrir er greiddur út fær ríkissjóður tekjurnar strax.   Síðan þyrfti að ganga til samninga við lífeyrissjóðina um að þeir greiddu þá skatta sem liggja í í sjóðunum í dag.

Fyrir launþega mun þetta þýða að mótframlag þeirra yrði skattlagt strax en það þýðir 37% skatt á 4% af launum.   Ó móti kemur að þegar launþegarnir fá greiddan lífeyri í framtíðinni borga þeir eingöngu fjármagnstekjuskatt af ávöxtun lífeyrisins í stað þess að greiða fullan tekjuskatt eins og þeir gera í dag.

Í lífeyrissjóðunum eru um 1600 milljarðar í dag og gera má ráð fyrir því að allt að þriðjungur af þeim fjármunum séu skattar sem ríkissjóður hefur lánað væntanlegum lífeyrisþegum og ekki koma til greiðslu fyrr en þeir fara á lífeyri.  Eins og staðan í þjóðarbúinu er í dag eru þessir fjármunir miklu betur komnir í ríkissjóði til að koma í veg fyrir skuldasöfnun og vaxtagreiðslur í stað þess að liggja hjá lífeyrissjóðunum.

Mikilvægt er að ganga til samninga við lífeyrissjóðina um að þeir leysi þessa fjármuni á næstu árum og greiði til ríkissjóðs.  Þetta verður að gerast yfir  nokkur ár til þess að ekki komi til óæskilegra áhrifa á markaði með verðbréf s.s skuldabréf og hlutabréf. 

Hagfræðingar eru ágætir til að spá fyrir um þróun og áhrif aðgerða á markaði en það á ekki að leita að lausnum á vandamálum samtímans í hagfræðikenningum og módelum heldur úti í samfélaginu.


Persónukjör

Nú boðar ný ríkisstjórn breytingar á kosningalögum til þess að auka persónukjör við komandi Alþingiskosningar.   Í gildandi lögum er gert ráð fyrir því að kjósendur geti hafnað frambjóðanda með því að strika yfir nafn hans á kjörseðli.   Reglum um útstrikanir hefur verið breytt nokkrum sinnum og hringlað með þær fram og til baka.

Núverandi reglur er rýmri og áhrif kjósenda meiri en þau hafa verið áður.  Samt er á þessu fyrirkomulagi ákveðinn stór galli að mínu mati.   Það er neikvæð aðgerð að hafna einhverjum með því að strika hann út og ekki víst að kjósandi hafi mikinn áhuga á að færa næsta mann upp í sætið.  Útstrikanir hafa því takmörkuð áhrif á lista og hafa ekki nýst kjósendum til að hafa áhrif að skapa flokksræðinu aðhald.

Ég tel því mikilvægt að þegar kosningalögum er breytt verði leitast við að tryggja kjósendum raunveruleg áhrif um röð á lista.   Það verður að mínu mati best gert með óröðuðum listum þar sem kjósendur ákveða röðina í kosningunum.  Þetta má gera með því að kjósendur raði frambjóðendum þess lista sem þeir kjósa, eða með því að kjósendur velji bara t.d. einn, tvo eða þrjá frambjóðendur með því að merkja X við nafn þeirra.   Síðan má velta fyrir sér útfærslum þar sem kjósendur kjósa einn flokk en geta haft áhrif á röð frambjóðenda hjá fleiri flokkum.

Þetta þarf að ræða strax, áður en menn fara í uppstillingar, forvöl eða prófkjör hjá flokkunum þannig að leikreglurnar séu þekktar.   Óraðaðir listar gera jú uppstillingar og prófkjör óþörf og því mikilvægt að ríkisstjórnin leggi spilin strax á borðið og geri grein fyrir hugmyndum sínum.

Öll töf verður til þess að gera breytingar tortryggilegar og menn fara að spyrja sig um tilgang og eðli breytinganna og hverjir hagnast og hverjir tapa á þeim.   Persónukjör á að vera fyrir kjósendur og til að draga úr flokksræði.


allt í plati stefna Samfylkingarinnar

Nú hefur Samfylkingin farið í gegnum tvennar stjórnarmyndunarviðræður á innan við tveimur árum.  Jafnframt hefur formaður hennar lýst því yfir að fyrrverandi stjórn var sjálfhætt ef ekki yrði gengið til viðræðna um aðild að Evrópusambandinu.

Ekki virðist neinn áhugi á að fylgja málinu eftir, sennilega er þetta línan frá auglýsingastofunni.  Draga málið á langinn til að geta notað það í einum eða tvennum kosningum í viðbót.  Það er verið að blekkja almenning til fylgilags við flokkinn (kosningabandalagið) en það stendur ekki til að standa við stóru orðin. 

Ef að alvara fylgdi máli væri gert ráð fyrir fernum breytingum á stjórnarskrá þ.e að gerð verði breyting á 21. greininni til að heimila framsal valds í samningum við yfirþjóðlegar stofnanir.  Það stendur ekki til og bíður þá næstu endurskoðunar á stjórnarskrá sem verður vonandi þá á stjórnlagaþingi.  Aðildarumsókn getur því ekki verið á dagsskrá fyrr en í fyrsta lagi sumarið 2010.

Kannski er hér um afleik að ræða í stjórnarmyndunarviðræðum, og þá hlýtur það að vera leiðrétt þegar stjórnarskrárbreytingar verða ræddar á þinginu næstu vikur.   

Hér að neðan er hugmynd framsóknarmanna að breytingum á 21. greininni sem nauðsynlegar eru til að hægt sé að sækja um og semja um aðild.

Við 21. gr. stjórnarskrárinnar bætist:

2. „ Heimilt er í því skyni að ná markmiðum um aukna samvinnu milli þjóða og
sameiginlega réttarskipan með öðrum ríkjum eða til þess að tryggja alþjóðlegan frið
og öryggi að framselja skilgreinda hluta valdheimilda, sem handhafar ríkisvalds fara
með samkvæmt stjórnarskránni, í hendur yfirþjóðlegra stofnana sem Ísland á eða fær
aðild að með samningi. Slíkt framsal getur þó ekki tekið til heimilda til þess að
breyta stjórnarskrá þessari.
3.        Framsal samkvæmt 1. mgr. skal ákveðið með lögum þannig að a.m.k. 3/4
þingmanna greiði slíku lagafrumvarpi atkvæði sitt. Náist slíkur aukinn meirihluti
ekki en einfaldur meirihluti þingmanna greiðir slíkri tillögu þó atkvæði sitt má í
kjölfarið bera tillöguna óbreytta undir bindandi þjóðaratkvæði til samþykktar eða
synjunar þar sem einfaldur meirihluti kjósenda ræður úrslitum.
4.        Framsal slíkra valdheimilda er ávallt afturkræft eftir sömu reglum og
greinir í 2. mgr.
5.        Ákvæði þessarar greinar eiga ekki við um þátttöku Íslands í
alþjóðastofnunum sem taka ákvarðanir sem einungis hafa þjóðréttarlega þýðingu
gagnvart Íslandi. “ 

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband