Björn veistu ekki númerið hjá Geir ?
23.9.2008 | 15:54
Eftirfarandi er af bloggi Björns Bjarnasonar í dag.
"Evrópunefnd undir formennsku minni ræddi við Olli Rehn, stækkunarstjóra ESB, í byrjun júní 2005. Þá sagði hann hið sama og við Evrópuvaktnefndina, sem er í Brussel núna: Það tekur engan tíma fyrir Ísland að gerast aðili að ESB. Þetta kemur fram í skýrslu Evrópunefndarinnar. Hvernig dettur nokkrum manni í hug, að stækkunarstjórinn segi annað, en evra án aðildar komi ekki til greina? Það þarf ekki að hitta hann til að vita svarið. Aðrar leiðir eru þó fyrir hendi. Um það þarf ekki að deila."
tilvitnun líkur
Hvernig væri nú að Dómsmálaráðherrann tæki upp símann og hringdi í forsætisráðherra og léti hann vita að það hafi verið mistök að senda þessa nefnd til Brussel til að komast að því sem dómsmálaráðherrann vissi nú þegar. Þannig mætti spara bæði dýrmætan tíma og fjármuni ríkisins.
Maður skyldi ætla að þeir sem sitja í ríkisstjórninni ræddu saman af og til og ef að Björn veit þetta allt saman (Margir aðrir virðast vita það líka miðað við umræður undanfarna daga) Hversvegna upplýsir Björn ekki Geir um að það sé tilgangslaust að fara þessa leið og að hann viti um aðra betri?
Í hvaða sandkassaleik eru Sjálfstæðismenn með fjöregg þjóðarinnar þessa dagana?
Seðlabankastjórinn - hvað er verið að fela?
19.9.2008 | 11:39
Nú hefur Seðlabankastjóri hellt úr skálum reyði sinnar yfir þjóðinni svo eftir var tekið. Björn Bjarnason talsmaður þriðju leiðarinnar við upptöku evru heldur ekki vatni yfir snilldinni en gleymir um leið að átrúnaðargoðið kallaði hann og fleiri sem misst hafa trúna á krónunni landráðamenn.
Offorsið og heiftin ásamt sífelldum flótta duglaus forsætisráðherra frá málefnalegri umræðu um hagstjórn og peningamálastefnu hlýtur að vekja menn til umhugsunar um hvað liggur að baki.
Getur verið að á Íslandi séu íslenskar krónur í bakherbergjum og undir koddum sem ekki þola dagsljósið? Getur verið að vegna laga um peningaþvætti verði mönnum gert ómögulegt að breyta svörtum krónum í evrur ef til þess kæmi og að Sjálfstæðisflokkurinn með Seðlabankastjórann í broddi fylkingar sé að verja það?
Spyr sá sem ekki veit, en það er ljóst að heiftin og málatilbúningurinn er með þeim hætti að hér virðist ekki allt með felldu. Í alvöru stjórnmálaflokkum eru málin rædd á málefnalegan og skynsaman hátt. Kostir og gallar metnir, einstakar leiðir að markmiði skoðaðar og annað hvort slegnar af eða skoðaðar nánar.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur á hinn bóginn verið upptekinn af því að kasta reyksprengjum inn í umræðuna, afvegaleiða hana og komast hjá því að svara. Ég neita að trúa því að svona illa sé komið fyrir flokknum að ekki sé hægt að ræða hlutina á málefnalegan hátt. Skyldi eitthvað annað að búa að baki?
Hver er þá vandinn Davíð
18.9.2008 | 22:08
Gæti verið að vandinn væri Geir Haarde. Vill Davíð að við tölum um getulausa úrræðalausa duglausa hrædda forsætisráðherrann sem stærir sig annan daginn af aðgerðarleysinu og ræður auglýsingastofu hinn daginn til að finna dæmi um að hann hafi verið í vinnunni og gert eitthvað undanfarnar vikur.
Er það Geir sem er vandamálið, eða er það mislukkuð ímyndarherferð Sjálfstæðisflokksins við að benda á að vandi þjóðarinnar sé erlendur sem fer svona í skapið á Seðlabankastjóra?
Hversvegna er verðbólga á Íslandi í dag? Hefur það ekkert með gengið að gera? Er gengið ekki verðið sem menn eru tilbúnir til að greiða fyrir KRÓNUNA á hverjum tíma. Davíð segir að krónan sé ekki vandamálið heldur verðbólgan, en hvort kemur nú á undan eggið eða hænan.
Menn fegra ekki vonlausan málsstað með því að vera orðljótir og svipljótir í drottningarviðtölum í fjölmiðlum. Seðlabankastjóra væri nær að ræða vandan á málefnalegum nótum, en það er augljóst að hann er rökþrota og kastar bara skít í allt og alla sem ekki eru honum sammála.
Held að hann ætti að nota sér eftirlaunalögin á meðan þau eru enn í gildi og koma sér í helga stein.
![]() |
Davíð segir að krónan muni ná sér |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Um þjóðaratkvæði
18.9.2008 | 13:17
Nú hafa þrír framsóknarmenn tekið frumkvæði í umræðunni um stöðu Íslands gagnvart Evrópubandalaginu. Þremenningarnir leggja til að þjóðin verði spurð um það hvort hún vilji leggja inn aðildarumsókn í Brussel og að atkvæðagreiðslan fari fram strax vorið 2009.
Það er mikilvægt að fá úr því skorið fyrr en seinna hverskonar aðildarsamningi íslendingar geti náð við Evrópusambandið. Umræðan í dag skilar okkur engum svörum þar sem báðir aðilar draga fram hina ýmsu "sérfræðinga" til þess að sannfæra sig um að þeirra skoðun sé sú eina rétta. Þessi skotgrafahernaður ESB sinna og andstæðinga ESB hefur verið ástundaður á einn eða annan hátt alveg síðan við gengu inn í EES.
Umræðan hefur engu skilað og við erum engu nær um það hvernig aðildarsamningur Íslands gæti litið út. Það er ljóst að allavega helmingur þjóðarinnar horfir til aðildar að ESB sem leið til að koma hér á auknu jafnvægi í þjóðarbúskapinn. Andstæðingar ESB virðast forðast það sem heitan eldinn að fá svör við áleitnum spurningum um það hverskonar samningi við getum náð. Svör sem ekki fást nema að með aðildarumsókn.
Ég fagna því að ungir stjórnmálamenn hafa pólitískan kjark til að taka upp spurninguna um ESB með svo afgerandi hætti sem þremenningarnir hafa gert. Hingað til hafa stjórnmálamenn talað, og lýst sig fylgjandi eða andvíka aðild, en ekki viljað setja málið með afgerandi hætti á dagsrá. Þau Birkir, Sæunn og Páll vilja að aðildarumsóknin verði á dagskrá í vetur og svarið fáist í vor. Það er meira frumkvæði í Evrópumálum en nokkrir stjórnmálamenn á Íslandi hafa sýnt til þessa.
Þetta er fyrsta tilraunin til að binda enda á skotgrafahernaðinn og til þess að fá skýr svör sem byggja má á til framtíðar. Ég styð það heilshugar að þjóðin verði spurð um það hvort sækja eigi um aðild eða ekki í þjóðaratkvæði og það er engum til framdráttar að það verði dregið lengur.
Geir er ekki komið nóg?
18.9.2008 | 11:28
Það er segin saga að þegar forsætisráðherra mætir í viðtöl, hérlendis eða erlendis þá fellur gengið. Geir Haarde virðist lifa í annarri veröld en við hin og þegar hann mætir og tilkynnir um hagvöxt á öðrum ársfjórðungi, hagvöxt mældan í hríðfallandi krónu, og að verðbólgan verði farin eftir örfáar vikur, þá fellur markaðurinn í stað þess að hækka.
Þetta gerist vegna þess að aðilar á markaði vita betur. Það sem er alvarlegt er að þeir fá um leið staðfestingu á því að forsætisráðherran veit ekki betur. Hann er í afneitun, eða þorir ekki að horfast í augu við ástandið. Þegar aðilar á markaði eru mynntir á það reglulega að forsætisráðherra Íslands lifir í öðrum heimi veikir það tiltrú á krónunni og Íslensku efnahagslífi.
Ef að forsætisráðherra er að reyna að talal kjark í þjóðina með því að hagræða tölum og neita að horfast í augu við ástandið hefur það mistekist. Geir ætti því að bæta þögninni á aðgerðarleysislistann og láta vera að svara fréttamönnum, allavega á meðan hefur ekki áttað sig á stöðunni og hversu alvarlega hún er.
Það gæti verið fyrsta skrefið til að stöðva þá vegferð sem krónan er á í dag.
![]() |
Enn lækkar gengi krónunnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Efnahagsráðgjafinn ??????????
17.9.2008 | 12:48
Tryggvi Þór Herbertsson fer mikinn við að verja stefnu eða stefnuleysi forsætisráðherra í peningamálum. Rök efnahagsráðgjafans fyrir því að ekki skipti máli hvort hér sé króna eða evra eru þau að það sé sama hvort hitinn sé mældur á celcius eða fareinheit það sé alltaf jafn kalt eða heitt úti.
Þessi myndlíking veldur mér nokkrum áhyggjum, annaðhvort er hagfræðingurinn að spila með fjölmiðla og þjóðina og ætti þá að vera titlaður spunameistari en ekki efnahagsráðgjafi, eða þá að hann kann ekkert í hagfræði. Hann verður að svara fyrir sig.
Ef að evra og króna væru sambærilegar myntir með sambærilegan bakhjarl og trúverðugleika mætti kannski til sannsvegar færa að þessi myndlíking ætti við. Það er bara ekki hægt að bera saman krónu og evru og fyrir því allnokkrar ástæður, ástæður sem eru undirrót þeirrar umræðu sem er í gangi og ætti ekki að þurfa að eyða orðum að til að upplýsta meintan efnahagsráðgjafa ríkisstjórnarinnar um.
Bakhjarl krónunnar er Seðlabanki Íslands og um það er ekki deilt á milli hagfræðinga að hann er veikur bakhjarl sem m.a. hefur leitað aðstoðar seðlabanka í Evrópu til að geta valdið hlutverki sínu. Ríkisstjórnin viðurkenndi þetta þegar hún á Alþingi óskaði eftir heimild til að taka lán til að styrkja gjaldeyrisvarasjóðinn. Nú hafa verið færð röf fyrir því að það þurfi 1300 milljarða í fjandeyrisvarasjóð til að hann nái tilætluðum áhrifum með kostnaði fyrir þjóðarbúið upp á 15-25 milljarða á ári.
Á Íslandi, þar sem krónan er myntin, er verðtrygging á nánast öllum langtímaskuldbindingum sem gerir alla peningastjórn mun erfiðari með krónu en með evru þar sem stýrivextir Seðlabanka hafa mun fyrr áhrif í hagkerfinu en hér. Þarf af leiðir þarf ekki að grípa til jafn róttækra og harkalegra aðgerða við hagstjórn og raunin er hér á Íslandi.
Stór hluti skulda atvinnulífsins, og reyndar einstaklinga í dag, eru í erlendum lánum á vöxtum sem Seðlabanki Íslands hefur ekkert um að segja og þess vegna aldeilis ófær um að hafa þar áhrif til að draga úr þenslu eða til að hjálpa hjólum atvinnulífsins af stað.
Hér eru bara nefnd örfá dæmi um það hversvegna ekki er hægt að notast við myndlíkingu "efnahagsráðgjafans" nema þá til að slá ryki í augun á saklausum fjölmiðlamönnum og þjóðinni.
Ég held að "efnahagsráðgjafinn" viti þetta allt saman en hann er húsbóndahollur og geltir eins og húsbóndinn vill, endar borgar hann launin. Hann er bara um leið að leggja eigin orðstír undir og hann verður lítils virði ef hann ætlar að beita svona bellibrögðum til að komast hjá því að svara á málefnalegan hátt og benda á leiðir út úr þeim vandamálum sem að steðja.
Fjármálaráðuneytið á villigötum
4.9.2008 | 11:07
Til að efla trúverðugleika fjárlagarammans ætti að innleiða bindandi útgjaldaþak fyrir hvert ráðuneyti yfir heilt kjörtímabil að mati Viðskiptaráðs Íslands. Árni Mathiesen, fjármálaráðherra, er þessu ósammála.
Ég verð að vera sammála ráðherranum að þetta sé ekki leiðin að fara, en ég til jafnframt að núverandi fyrirkomulag sé óviðunandi. Rétt væri að við leituðum í smiðju nágrannaþjóða um það hvernig eftirlit með framkvæmd fjárlaga fer fram.
Ríkisendurskoðun ætti að fá mun viðtækara hlutverk og vera verkfæri fjárlaganefndar og heyra undir hana. Þegar fjárlög eru afgreidd er lagt inn á þar til gerða reikninga það fármagn sem er til ráðstöfunar fyrir hverja stofnun og hvern útgjaldalið. Þegar féð er uppurið er það búið og verður ekki aukið öðruvísi en að sækja það með aukafjárveitingu eða fjáraukalögum. Þetta eftirlit á að vera í höndum fjárveitingarvaldsins, löggjafans en ekki framkvæmdavaldsins.
Það hefur sýnt sig að fjármálaráðuneytinu, sérstaklega undir stjórn núverandi fjármálaráðherra er ekki treystandi til að fara að fjárlögum. Um það er Grímseyjarferjan talandi dæmi.
![]() |
Setja á útgjaldaþak á ráðuneyti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Eru Össur og Þórunn í sömu ríkisstjórn
3.9.2008 | 15:15
Ríkisstjórnin styður álver á Bakka, að því er fram kom í máli Össurar Skarphéðinssonar, iðnaðarráðherra, á Alþingi áðan. Er þetta bara síðasta dæmið um tvískynnung Samfylkingarinnar. Það er dæmalaust hvað sá flokkur kemst lengi upp með að hafa tvær stefnur í öllum málum, bæði með og á móti. Ríkisstjórnin hefur nú sýnt stuðning sinn í verki og farið fram á "heilstætt umhverfismat" framkvæmda vegna álvers, raforkuöflunar og línulagna þarna fyrir norðan.
Heilstætt umhverfismat er hugtak sem engin þekkir til hlítar hvað þýðir. Það á að leika það af fingrum fram, en þó hlýtur öllum að vera ljóst að ekki verður hægt að taka afstöðu til neinna framkvæmda fyrr en öll vinna við umhverfismat allra þátta er að baki og það hefur farið í gegnum lögformlegt ferli.
Ráðherrar, til og með umhverfisráðherra hafa keppst við að segja að ákvörðunin um heilstætt umhverfismat hafi ekki áhrif á eða seinki framgangi verksins. Ríkisstjónin þarf að gera betur grein fyrir því hvað í þessum orðum fellst. Á að gefa einhvern afslátt af umhverfismatinu? Verður sett um einhver flýtileið? Eða eru þetta innantóm orð til að slá ryki í augu kjósenda?
Össur stendur sig vel í blogginu og blammeringunum á samþingmenn sína, en er hann að standa sig í vinnunni? Það kemur í ljós í vor þegar bora á rannsóknarholur við Þeystareyki. Ef ekki getur orðið af því eins og til stendur er ríkisstjórnin að þvælast fyrir og til bölvunar og Össur getur ekki beytt yfir það með fagurgalanum einum saman.
Nú verður fróðlegt að sjá hvort Össur bara talar... eða hvort hann getur líka látið verkin tala
![]() |
Stjórnin styður álver á Bakka |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sjálfstæðisflokkurinn vanvirðir forsetaembættið
28.8.2008 | 19:48
Í annars ágætri þjóðhátið gærdagsins, þar sem þjóðin hyllti handboltahetjurnar
okkar, sýndi Sjálfstæðisflokkurinn forseta lýðveldisins þvílíka vanvirðingu að það
tekur ekki nokkru tali.
Í tvígang sleppti kynnirinn, Valgeir Guðjónsson, 17. maður á lista
Sjálfstæðisflokksins í Kraganum í síðustu Alþingiskosningum (kjördæmi
handboltamálaráðherrans), að nefna þjóðhöfðingann þegar hann fór yfir þá sem voru
uppi á sviði.
Þannig að vanvirðingin getur varla verið tilviljun sem má skrifast á gleymsku eða
mistök.
Sama hvaða skoðun menn hafa á einstaklingnum sem gegnir embættinu, verður að sýna
embættinu þá virðingu sem því ber.
Hann er sameiningartákn þjóðarinnar, þjóðhöfðingi.
Það virðast sjálfstæðismenn ekki geta.
Eðlilega var Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra og starfandi
forsætisráðherra uppi á sviði að hylla hetjurnar, en hvað í veröldinni voru aðrir
ráðherrar ríkisstjórnarinnar að gera uppi á sviði?
Ríkisstjórnin er ekki fjölskipað vald, heldur fer hver ráðherra með sinn málaflokk
og áttu hinir ráðherrarnir því ekkert erindi upp á svið.
Ég held að menn hafi gleymt sér gersamlega í að klína sig upp við hetjurnar til
reyna að ná nokkrum geislum dýrðarljómans.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Er hægt að taka framboð Íslands alvarlega?
28.8.2008 | 10:32
Íslensk utanríkisþjónusta hefur lagt mikið undir í framboði Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Starfsmenn utanríkisráðuneytisins forsetinn, ráðherrar og aðrir embættismenn hafa notað öll tækifæri undanfarin ár til að tala máli Íslands og leita eftir stuðningi annarra þjóða við framboðið.
Framboðinu var m.a. ætlað að styrkja íslenska utanríkisþjónustu og gera hana fullburða. Jafnframt að sýna öðrum þjóðum að íslendingar væru færir um að taka þátt í alþjóðastarfi jafnfætis öðrum þjóðum. Það mun í framtíðinni auka vægi Íslands í alþjóðlegu samstarfi margskonar sem við tökum þátt í. Leiða má að því líkum að það verði auðveldara fyrir okkur að koma okkar sjónarmiðum á framfæri og fá tekið tillit til þeirra í alþjóðasamstarfi og samningum.
þetta eru kannski helstu rökin fyrir því að eyða um 400 milljónum sérstaklega í framboðið. Nú hefur utanríkisráðherra sett alla þessa vinnu á spil til að afla sér vinsælda í fámennri klíku í Samfylkingunni. Íslendingar eiga að vera baggi á öðrum þjóðum þegar kemur að friðargæslu.
Íslenskir friðargæsluliðar eiga að vera óvopnaðir í störfum sínum á ófriðarsvæðum. Það þarf jú ekki friðargæslu þar sem friður ríkir. Þetta verður til þess að aðrar þjóðir verða að leggja til mannskap og tæki til að verja íslendingana. Það segir sig sjálft að þetta getur varla mælst vel fyrir hjá öðrum þjóðum að vera með farþega með sér í störfunum. Er þá ekki bara betra heima setið en af stað farið?
Ingibjörg Sólrún virðist telja það fullkomlega eðlilegt að Danir, Norðmenn, Hollendingar eða aðrir leggi til vopnaðar sveitir til að gæta óvopnaðra Íslendinga á ófriðarsvæðum, og að það sé gert undir því yfirskyni að við séum að taka þátt í friðargæslu.
Silfurstrákarnir okkar sýndu og sönnuðu að lítil þjóð getur staðið þeim stóru jafnfætis, en svo koma svona dæmalausar vinsældarákvarðanir þar sem við erum gerðir að bagga og þiggjendum í nauðsynlegu starfi erlendis við að stilla til friðar á ófriðarsvæðum.
Ráðherrar Samfylkingarinnar virðast vera í einhverskonar keppni í ábyrgðarleysi og asnaskap. Þær stöllur Ingibjörg Sólrún og Þórunn Sveinbjarnar leiða keppnina, en Össur kemur þar skammt á eftir.