Forstjóri N1 er í Noregi.
3.10.2008 | 11:46
![]() |
Engin hætta á olíukreppu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Söguritarar samtímans
3.10.2008 | 10:55
Eftir að hafa verið óbloggfær í gær vegna laseraðgerðar á báðum augum ætla ég að reyna að setja nokkrar línur á skjáinn í dag.
Eldhúsdagsumræðurnar á Alþingi í gær voru áfall fyrir þjóðina. Tilgangur eldhúsdagsumræðna er að flytja þjóðinni boðskap ríkisstjórnar um stefnuna og málin sem tekin verða fyrir í vetur. Í stað þess að tala um stefnu og mál og boða aðgerðir voru stjórnarliðar fastir í baksýnisspeglinum. Það var farið yfir afrekalistann, sumt satt og rétt, annað stolið og stílfært en engin þeirra hafði dug og kjark til að horfa fram á við og segja þjóðinni hvernig þeir hyggjast bregðast við aðsteðjandi vanda, hvorki í bráð eða lengt. Undantekningin var reyndar viðskiptaráðherrann sem boðaði aðild að Evrópusambandinu, en Samfylkingin notar aðildina stundum í ræðum þegar hentar en hefur ekki kjark til að ganga langra en það.
Ég er sannfærður um að ríkisstjórnin þarf að byrja á því að byggja upp traust á íslensku efnahagslífi og þar verður að byrja á byrjuninni. Þjóðin treystir ekki Seðlabankanum og þá fyrst og fremst Davíð Oddssyni. Á meðan þjóðin treystir manninum ekki, er ekki hægt að reikna með að aðrar þjóðir eða erlendir bankar treysti honum. Og á meðan ekkert traust er fyrir hendi fáum við engin lán á ásættanlegum kjörum til að leysa vandan.
Sjálfstæðismenn verða að horfast í augu við ástandið og bregðast við, eða fara frá að öðrum kosti. Sjálfstæðisflokkurinn hefur í marga mánuði komið sér hjá því að ræða efnahagsmál, peningamálastjórn og framtíðar skipulag gjaldmiðilsmála á Íslandi. Umræðan hefur verið afvegaleidd og Flokkurinn hefur lagt sig fram um ómálefnalega framkomu, útúrsnúninga og hálfkák til að komast hjá því að taka afstöðu.
Flokkurinn hefur ástundað það að umskrifa söguna og sannleikan og nota yfirburðarstöðu sína í fjölmiðlum til þess að mata þjóðina á heimatilbúnum sannleika úr Valhöll.
Nýjasta dæmið eru skrif Agnesar Bragadóttur í Morgunblaðið um yfirtökuna á Glitni. Agnes er ráðin sérstaklega til Morgunblaðsins framhjá ritstjórn af eigendum Björgúlfsfeðgum. En það eru þeir sem sitja á kvöld og næturfundum með forsætisráðherra talandi um ekki neitt. Agnes kemur fram og fullyrðir að hún viti meira um fundi og fundarefni í kringum yfirtökuna á Glitni en þeir sem sátu fundina. Þetta getur aðeins verið satt og rétt ef hún veit hvað ekki var sagt á fundum heldur bara hugsað.
Það þýðir að hún hefur aðgang að Seðlabankastjóra og eða forsætisráðherra umfram aðra fréttamenn. Seðlabankastjóri verður að gera grein fyrir því hversvegna hann gefur ekki viðtöl við almenna blaðamenn en veitir þessum eina aðgang að hugsunum þínum. Það lyktar óneitanlega af tilburðum til að breyta umfjöllun og sögunni sér í hag og er alls ekki til þess fallið að auka traust á Seðlabankanum þvert á móti.
Boðuð lántaka til að styrkja gjaldeyrisvarasjóðinn er engin lausn til framtíðar. Lántaka á kjörum sem væru í samræmi við skuldatryggingarálag ríkissjóðs núna er tilræði við komandi kynslóðir. Sjálfstæðisflokkurinn getur keypt ýmislegt, en hann kaupir sig ekki frá því að ræða framtíðina. Samfylkingin hefur nú tækifæri til þess að verða afl sem hefur áhrif í íslandssögunni en þá verða menn að taka frumkvæðið af íhaldinu og koma Evrópuumræðunni á dagskrá. Annars kemst íhaldið upp með það að kaupa sér frið og aðgang að stólunum enn um stund og senda unga fólkinu og börnum þessa lands reikninginn. Eru menn eða mýs í Samfylkginunni?
Smá viðbót: Stoðir leiðrétta í tilkynningu rangfærslur Agnesar Bragadóttur, rangfærslur þar sem skeikar 126.000 milljónum. Það er ekki einhver smá ónákvæmni í blaðamanni heldur annað hvort svo óvönduð vinnubrögð að leitun er að öðru eins, eða vísvitandi rangfærsla til að fegra slæman málstað. Hvort sem er hittir grein hennar í Morgunblaðinu í morgun hana sjálfa ílla fyrir.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hvað er til ráða?
1.10.2008 | 14:54
Nú hefur krónan enn fundið leið niður á við og virðist fall hennar engan enda ætla að taka. Stjórnvöld hafa ekki uppi nokkra tilburði til þess að verja gengið. Enda eru þau orðin ráðalaus eftir að umtalsverður hluti gjaldeyrisvarasjóðsins var tekin til hliðar til þess að kaupa Glitni banka á spottprís.
Stjórnvöld hafa allt þetta ár flotið sofandi að feigðarósi og það er grátlegt að rifja upp yfirlýsingar ráðamanna. Snemma árs talaði forsætisráðherra um að botninum væri náð, þá kom að uppgjöri fyrsta ársfjórðungs hjá fjármálastofnunum og krónan féll eins og steinn.
Á ársfundi Seðlabanka flutti forsætisráðherra ræðu og taldi þar fulla ástæðu til að endurskoða peningamálastefnuna og taka lán til að styrkja gjaldeyrisvarasjóðinn, en það var bara í orði ekki á borði frekar en annað sem frá Geir Haarde hefur komið allt þetta ár.
Í maí tveimur dögum fyrir þinglok vaknaði Geir og mundi eftir því að það væri eitthvað að og sóttist eftir heimild frá Alþingi til lántöku til að styrkja gjaldeyrisvarasjóðinn. Svo seint vaknaði Geir að leita þurfti afbrigða til að koma málinu í gegn.
Á þessum tíma hafði markaðurinn róast og skuldatryggingarálag ríkisins lækkað umtalsvert, þarna gafst nokkurra daga tóm til að bregðast við og taka lán á viðunandi kjörum, en þá hafði Geir bara sofnað aftur. Sagði þjóðinni að hann hefði sparað henni milljarða með því að sofa og taldi vissast að sofa bara áfram á verðinum.
Þá kom að uppgjöri annars ársfjórðungs og krónan datt fram af brúninni og féll lengi eða fram að mánaðarmótum júní, júlí þá var tilganginum með fallinu náð og krónan lenti á syllu og hóf að klifra aðeins upp á við aftur.
Þá kom Geir enn fram og sagði þjóðinni að botninum væri náð og nú væri að koma fram kostir þess að hafa nú ekki gert neitt allt árið. Gagnrýnin varð nú svo hávær að gerðar voru málamyndabreytingar á húsnæðismarkaði og samningar við seðlabanka á norðurlöndunum reyndar bara til áramóta til að kaupa sér frið og til að setja inn í áróðursbleðlana frá Valhöll þannig að hægt væri að benda á að eitthvað hefði verið gert.
Þjóðin var nú ekki ginkeypt fyrir yfirlýsingum duglaus forsætisráðherra og Sjálfstæðisflokkurinn mældist í skoðanakönnum ekki lengur stærsti flokkur landsins. Hófst þá mikil ímyndarherferð til að bæta ímynd flokksins. Línur voru lagðar, sannleikurinn saminn upp nýtt eins og hentaði flokknum.
Þá leið að lokum þriðja ársfjórðungs og krónan missti takið og datt aftur. Hún bara dettur og dettur allan september og Geir og Solla drífa sig til útlanda meðan þau hafa enn efni á að kaupa dollara. Seðlabankinn hann gerir akkúrat ekki neitt enda er það línan frá forsætisráðherra að best sé að gera ekki neitt.
Nú síðan fær Seðlabankinn upp í hendurnar verkefni, sem hann ætti að öllu eðlilegu að ráða við og geta sinnt fljótt og vel. Hann er beðinn um lán til þrautavara, sem er meðal annars eitt af hlutverkum bankans. Á þeim bæ voru menn orðnir svo leiðir á að gera ekki neitt og horfa bara á sömu tölurnar á skjánum viku eftir viku að þeir brettu upp ermar og gengu í verkefnið af þvílíku offorsi að steypubrjálaðir menn í 400 fermetra plötu líta út eins og sunnudagaskólabörn undir predikun við hliðina.
Þeir skutu svo rækilega yfir markið að blessuð krónan er núna eins og hún hafi verið bundin við sökku og ekkert annað að gera en að krossa sig og vona að hún haldi enn í sér andanum þegar botninum er náð og hún nær að losa sig við sökkuna.
Sakkan sem dregur krónuna niður er traustið á íslensku efnahagslífi, Seðlabankanum og forsætisráðherranum sem sefur. Allir þessir aðilar hafa það sammerkt í dag að til þeirra bera fáir traust.
Forsætisráðherrann hefur fyrirgert öllu trausti með fáránlegum yfirlýsingum allt árið um að botninum sé náð og framundan betri tíð með blóm í haga.
Seðlabankinn er rúinn trausti vegna þess að þar situr seðlabankastjóri sem menn efast um að komi fram með hag þjóðarinnar í fyrsta sæti. Þar situr stjórn vildarvina seðlabankastjóra sem hefur enn sem komið er allt þetta ár bara þegið laun en ekkert lagt á móti.
Efnahagslífið er rúið trausti vegna þess að hér er minnst mynt í heiminum sem á sér ekkert skjól hvorki í Seðlabanka eða hjá ríkisstjórn. Ábyrgir aðilar í samfélaginu sem reyna að benda á leiðir út úr vandanum verða fyrir árásum og skítkasti ráðamanna og eru uppnefndir landráðamenn.
Svona er Ísland í dag, og það verður fróðlegt að heyra stefnuræðu forsætisráðherra og sjá fjárlög Flokksins í þessu árferði.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Árangur áfram
30.9.2008 | 16:23
Ísafjarðarbær hyggst fresta framkvæmdum fyrir 87,8 milljónir króna, ef farið verður að tillögum sem lagðar voru fram í bæjarráði í gær. Þetta kemur fram í frétt á Skutull.is.
Þetta er tilkomið vegna erfiðleika við að útvega lánsfé til framkvæmda. Margir hafa orðið til þess að ræða aðkomu ríkis og sveitarfélaga þegar kreppir að. Talað hefur verið um að ríki og sveitarfélög eigi að framkvæma þegar aðrir geti það ekki. Nú er kreppan orðin það alvarleg að sveitarfélögin eru dæmd úr leik. Þau hafa ekki aðgang að lánsfé á skikkanlegum kjörum
Ríkissjóður stendur heldur ekkert of vel, hátt skuldatryggingarálag og lækkandi lánshæfismat hefur þau áhrif að annars arðbærar og nauðsynlegar framkvæmdir eru ekki eins fýsilegar í dag. Þessi þróun getur leitt af sér fjöldagjaldþrot í mörgum atvinnugreinum og síðar hjá mörgum fjölskyldum. Stjórnvöld hafa flotið steinsofandi að þessum ósi.
Peningamálastefnan er í algjöru öngstræti, háum vöxtum er ætlað að draga úr þenslu og koma í veg fyrir verðbólgu. Verðbólgu sem er fyrst og fremst til komin vegna gengisfalls og hárra vaxta. Vaxtabyrgði fyrirtækja fer beint út í verðlagið og há verðbólga og úrræðaleysi stjórnvalda veldur óstöðvandi gengisfalli.
Forsætisráðherrann hefur komið fram nokkrum sinnum á þessu ári og sagt að botninum sé náð og jafnoft haft rangt fyrir sér. Hann sagði um helgina að allt væri stakasta lagi og hann væri bara að setja sig inn í málin. (lesist: hann var að leita að botninum) Á mánudegi vaknar þjóðin og allt er að fara til fjandans. Seðlabankinn hefur framið hryðjuverk á íslensku efnahagslífi og erlendar lánastofnanir og matsfyrirtæki keppast við að fella lánstraust þjóðarinnar.
Einmitt á þeim tíma þegar ríki og sveitarfélög þurfa á því að halda til að fá hjól atvinnulífsins til að snúast vinnur Seðlabankinn gegn því. (Heldur víst að enn sé þensla á Íslandi) Ríkisstjórnin hefur lagt steina í götu atvinnuuppbyggingar frá þeim degi sem hún tók við völdum. Ráðherra keppast við að þvælast fyrir þeim sem vilja tryggja fólkinu í landinu atvinnu.
Gengi krónunnar fellur vegna þess að það er ekki jafnvægi milli þjóðarframleiðslu, kaupmáttar fyrirtækja og almennings og gengis. Þá er gengið leiðrétt sem hækkar tekjur af útflutningi og dregur úr kaupmætti þar til jafnvægi fæst. Það hefur margoft verið bent á að nær væri að auka útflutningstekjur og þjóðarframleiðslu í stað þess að fella gengið og senda almenningi reikninginn.
Ríkisstjórnin og Geir ætla sér að láta almenning borga þennan reikning að fullu og línan er að þjóðin eigi þessa timburmenn skilið eftir góðærisfylleríið undanfarin ár. Timburmannasamlíkingin hentar vel þeim sem vilja að almenningur borgi brúsann. Vandamálið er bara að almenningur allur var ekki á fylleríi og þessir heimatilbúnu timburmenn ríkisstjórnarinnar spyrja ekki hvort þú hafir sopið á góðærinu eða ekki, þeir leggjast á alla fulla og ófulla.
Þjóðin á skilið þá stjórn sem hún kýs yfir sig, en það er ekki tilviljun að dýpstu efnahagslægðir þjóðarinnar hafa komið þegar kratar og íhald sitja í stjórn. Þessir flokkar eiga það sameiginlegt að vilja nota atvinnuleysi sem stjórntæki í efnahagsmálum. Nú þegar saman fer heimatilbúin niðursveifla eftir miklar framkvæmdir og djúp alþjóðlega kreppa ráða þessir flokkar ekki við vandan.
Ástæða ráðleysis er margþætt, sjálfstæðismenn búa við forystukreppu þar sem nýr formaður hefur ekki náð tökum á flokknum og hefur gefið á sér færi sem bæði væntanlegir vonbiðlar eftir formannssætinu og fyrrverandi formaður ganga á lagið. Samfylkingin er ekki stjórnmálaflokkur heldur kosningabandalag fjögurra flokka með mismunandi rætur og því enga eina stefnu þangað að sækja til lausnar á vandanum.
Það veit enginn hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Framsóknarmenn boðuðu árangur áfram, að sókn væri besta vörnin við aðsteðjandi niðursveiflu. Nú hefur alþjóðleg kreppa bæst við þá sveiflu sem við vissum að lá í kortunum. Eina svarið við stöðunni eins og hún blasir við er Árangur áfram, áframhaldandi atvinnuuppbygging, ef ríkisstjórnin er þá ekki búin að fæla allt fjármagn frá landinu og sökkva þjóðinni í 10 ára kreppu.
Nú er það svart maður
30.9.2008 | 15:38
Seðlabankinn er ekki lengur vinur bankana og lánveitandi til þrautavara. Hann er þeirra óvinur og ef þeir svo mikið sem láta sjá sig á Hólnum eiga þeir ekki von á góðu. Bankinn kaupir upp hlutfé og sendir reikninginn á ríkissjóð án þess að ráðfæra sig einu sinni við nema annan ríkisstjórnarflokkinn.
Ríkissjóður er í höndum viljalausra verkfæra sem láta bankastjórann segja sér fyrir verkum og hafa ekki sjálfsstæða skoðun. Nú er komið í ljós að bankamenn stefna forsætisráðherra til fundar við sig í stjórnarráðinu um alls ekki neitt. Sennilega hefur þeim bara langað í gott kaffi og koníak.
Annar ráðherra lætur reka sig upp úr rúminu um miðja nótt til að hitta stórlax í viðskiptalífinu og taka við skömmum hans. Ég skil að Glitnir og tengdir geti stefnt mönnum á ofurlaunum til sín á öllum tímum sólarhrings til að ræða þá alvarlegu stöðu sem upp er komin.
En hvaðan kemur bankastjórnum Landsbankans það vald að stefna forsætisráðherra í stjórnarráðið á mánudagskvöldið til að ræða um ekki neitt? Og hvaðan kemur Jóni Ásgeiri það vald að rífa bankamálaráðherra upp úr rúminu til að skamma hann eins og smákrakka?
Auðvitað er Geir frjáls að því að hitta mennina og ræða við þá um ekki neitt. Maður er bara hættur að taka blessaðan kallinn hann Geir alvarlega þegar hann ræðir um ekki neitt, dæmin um helgina tala sínu máli. Um bankamálaráðherrann þarf ekki að ræða, hann gengisfelldi sjálfan sig út úr allri alvarlegri pólitískri umræðu með því að láta stefna sér á fund Jóns Ásgeirs og taka þar við skömmunum.
![]() |
Fitch lækkar lánshæfismat ríkissjóðs |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Falleinkunn
30.9.2008 | 14:42
Viðbrögð Seðlabanka við beiðni Glitnis um lán eru með þvílíkum endemum að greiningarfyrirtækin hljóta að lækka lánshæfismatið. Árangurinn af margra ára uppgreiðslu skulda ríkissjóðs er farinn út um gluggann á einni helgi. Dettur nokkrum í hug eftir þessi viðbrögð bankans að aðrir bankar komi til með að leita til Seðlabanka um fyrirgreiðslu?
Fyrirgreiðsla hefur fengið alveg nýja merkingu eftir helgina. Seðlabankinn kaupir 75% af 200 milljörðum og ákveður sjálfur að verðið sé 84 milljarðar. Síðan verður hluturinn seldur og nánast öruggt að það fæst hærra verð fyrir. Þetta er hrein og klár eignaupptaka hvernig sem á málið er litið. Menn geta haft skoðun á því hvernig eignirnar urðu til en ég fullyrði að margir eru að tapa umtalsverðum hluta ævisparnaðarins á þessum aðgerðum. Litlir hluthafar sem hafa ekkert um málið að segja og gleymast í hita leiksins.
Aðilar á markaði hafa gefið aðgerðum Seðlabanka einkunn í dag, og það fer ekki á milli mála að það er falleinkunn. Hvað þarf Seðlabankinn að falla á mörgum prófum áður en yfir líkur? Peningastefnan er gjaldþrota og stjórnendur Seðlabanka njóta ekki trausts í samfélaginu. Það sér hver maður að þegar Seðlabankinn tekur til hendi er þjóðinni efst í huga hvaða búi að baki, hverjum sé verið að refsa og hverjum eigi að hygla. Það er lýsandi dæmi um fullkomið vantraust og þekkist ekki á byggðu bóli að málsmetandi menn um allt þjóðfélagið telji bankann ganga erinda annarra en þjóðarinnar.
![]() |
Fleiri lækka lánshæfismat ríkissjóðs |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
hvað svo?
29.9.2008 | 11:03
Hvernig verða svo fjárlögin ?
http://gvald.blog.is/blog/gvald/entry/655382
![]() |
Ríkið eignast 75% í Glitni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Hvað svo ?
29.9.2008 | 11:01
Nú er komið í ljós að fjármögnun Glitnis banka versnaði til muna vegna aðstæðna á markaði undanfarna daga. Aðstæðna sem einkennast af björgunaraðgerðum ríkisstjórna og seðlabanka um allan heim til að koma í veg fyrir hrun. Á sama tíma og þjóðir heims hafa verið að bregðast við er ekkert gert á Íslandi. Það er því fullkomlega eðlilegt að draga þá ályktun að þeir sem fjármagnað hafa Glitni undanfarið hafi dregið sig í hlé vegna aðgerðarleysis ríkisstjórnarinnar og seðlabankans.
Þá er reikningur þjóðarinnar vegna getuleysis Geirs orðinn áþreifanlegur, kr 270.000 á hvert einasta mannsbarn. Og þó aðeins búið að bjarga einum banka. Hvað verður nú um Byr sem var í samningum við Glitni um yfirtöku?
Önnur stór spurning sem brennur á þjóðinni er hvernig fjárlagafrumvarpið lítur út. Í fyrra var farið á bullandi eyðslufyllerí og útgjöld aukin um 20% á milli ára. 20% er engin smá hækkun á útgjöldum ríkissjóðs, það var eytt og spreðað í gæluverkefni hægri vinstri, nú verður fróðlegt að sjá hvort ríkisstjórnin sýnir ábyrgð og leggur fram fjárlög í jafnvægi. Það er jú búið að eyða 84.000 milljónum í dag í eina aðgerð og varla borð fyrir báru í frekari útgjöld. Ef gefa á út fjárlög með ávísun á komandi kynslóðir uppá 50-60 milljarða er komin tími til að ríkisstjórnin fari frá.
bla bla bla bla
25.9.2008 | 11:23
Gengi krónu er afar háð þeim skilyrðum sem ríkja á alþjóðlegum fjármálamörkuðum hverju sinni svo og mati erlendra matsfyrirtækja á efnahagslegum aðstæðum hér á landi og áhættulyst fjárfesta svo dæmi séu tekin.
Þetta er svar greiningardeildar Glitnis við þeim spurningum sem brenna á þjóðinni þessa dagana, hverjir eru að fella gengið.
Hér löngu söguleg upptalning á þróun gengis undanfarna mánuði og ár. En það er engin tilraun gerð til þess að finna ástæður fyrir gengisþróuninni. Það er talað um fylgni milli skuldatryggingaálags og gengisþróunar. Má ekki leiða að því líkum að þegar skuldatryggingaálagið er hátt leiti íslensku bankarnir annarra leiða til að fegra uppgjörin t.d. með því að fella gengið?
Þessi greining leggur ekkert til málanna og gerir enga tilraun til að svara þeirri spurningu hverjir það eru sem hafa af því hag að fella gengið á þriggja mánaða fresti. Það er reyndar horft algerlega framhjá þeirri staðreynd að gengið fellur mest við lok ársfjórðunga.
Það er því líklegt að bankarnir hafi leitað í smiðju Valhallar og séu að kasta reyksprengjum inn í umræðuna til að forðast kjarna málsins. Greiningardeildirnar hafa sannað sig að vera verkfæri bankanna í áróðursstríði við stjórnvöld og almenning en ekki hlutlausir aðilar sem ráða fólki heilt þegar kemur að fjárfestingum.
![]() |
Ýmsir þættir orsaka sveiflur á gengi krónunnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Engar nýjar fréttir
24.9.2008 | 11:41
Nú bíður þjóðin spennt eftir því hvaða biðleik Sjálfstæðismenn finna næst uppá til þess að komast hjá því að ræða peningamálastefnuna. Boðaðri endurskoðun peningamálastefnunnar er slegið á frest þar til ró kemst á fjármálamarkaði sem getur tekið mánuði og jafnvel ár og á meðan á þjóðin að búa við ástand sem allir eru sammála um að er fullkomlega óásættanlegt.
Ef sótt er um aðild að Evrópusambandinu verður strax til umræðugrundvöllur um stöðuleikasamning við Seðlabanka Evrópu. Samning sem getur hjálpað okkur út úr þeim ógöngum sem hagstjórnin og krónan eru í. Umsókn og stöðuleikasamningur í framhaldinu er bestu kostirnir sem þjóðinni býðst í dag til að vinna sig út úr vandanum.
Það verður ekki auðvelt, en þar getur samningur við Seðlabanka Evrópu riðið baggamuninn og hjálpað til við koma krónunni á rétt ról mun fyrr en ella hefði verið. Trúverðugleiki krónunnar og efnahagslífsins myndi styrkjast og sá skaði sem seðlabankastjórar með skítkasti og flótta frá vitrænni umræðu hafa valdið samfélaginu verður lágmarkaður.
![]() |
Útilokað að taka upp evru |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |