Maður líttu þér nær
22.7.2008 | 13:36
Björn Bjarnason skýtur sig laglega í fótinn í dagbókarpistli 21.07.2008 á vefsíðu sinni í dag. (sjá hér) Þar segir Björn m.a.
"Seðlabankastjórinn líkir sem sé Írlandi, Spáni og Portúgal við Missouri, Kaliforníu og Texas í Bandaríkjunum og segir bandaríska seðlabankann aldrei mundu haga ákvörðunum sínum með hagsmuni þessara ríkja innan Bandaríkjanna að leiðarljósi - hið sama eigi við evrópska seðlabankann, hann verði að hafa háleitari markmið en huga að hagsmunum einstakra þjóðríkja.
Hvað skyldu málsvarar íslenskrar evruaðildar segja um þessa afstöðu?"
Á móti má spyrja Björn hvað hefur breyst síðan hann lagði til að semja um evruaðild án þess að ganga í Evrópusambandið? Það er ótrúlegur hringlandaháttur í öllum málflutningi Sjálfstæðismanna þegar Evrópumál eru annarsvegar. Meinti Björn eitthvað með útspilinu um daginn, eða var verið að drepa málinu á dreif eins og þeir gera sem eru rökþrota? Það má líka spyrja Björn að því í framhaldi af þessar spurningu hér að ofan, hvaða álit hann hefur á útspili forsætisráðherra um að taka frekar upp dollar en evru? Hann gerir lítið úr formanni sínum í þessum pistli og hittir sjálfan sig og Geir fyrir. Skýtur sig og sinn helsta samherja í fótinn.
Þetta er íhaldið í dag.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Það kemur nú úr hörðustu átt að framsóknarmaður saki sjálfstæðismenn um hringlandahátt í Evrópumálum. Framsóknarflokkurinn hefur um árabil ekki getað komið sér saman um einhverja áþreifanlega stefnu í þessum málum. Stefnan hefur þess í stað hvorki verið fugl né fiskur, svona kannski, e.t.v., hugsanlega, sjáum til stefna.
Þannig að maður líttu þér nær sjálfur
Hjörtur J. Guðmundsson, 23.7.2008 kl. 13:05
æi Hjörtur, Framsóknarflokkurinn klofnaði í afstöðunni til EES og kom hreint fram við þjóðina og sagði frá því, hvaða annar flokkur hafði kjark til þess?
Innan Framsóknarflokksins eru skiptar skoðanir, en við verðum ekki sakaður um að ræða ekki Evrópumál eins og margir aðrir flokkar.
Stefnan undangengin ár hefur verið að á meðan EES uppfyllir þarfir Íslendinga í EVRÓPUSAMSTARFI verði ekki gengið lengra, getur það verið skýrara ?
Eftir miðstjórnarfund sl. vor ákvað flokkurinn að binda ekki hendur fulltrúa í jafn umdeildu máli og aðild að Evrópusambandinu er, heldur hafa það á stefnuskrá að þjóðin eigi að taka um það ákvörðun hvort aðildarumsókn verði send eða ekki. Er þetta eitthvað flókið í þínum huga?
Það hefur frá upphafi umræðu um Evrópumál verið á stefnu Framsóknarflokksins að þjóðin hefði síðasta orðið, og það hafa aðrir flokkar tekið upp síðar.
Það læðist að mér sá grunur að þú hafir ekki kynnt þér málið á nokkurn hátt áður en athugasemdin var sett hér inn og það er miður ef það er tilfellið í öllum þínum máflutningi.
G. Valdimar Valdemarsson, 23.7.2008 kl. 13:17
G. Valdimar:
Í færslunni ertu að miða við málflutning einstakra manna í forystu Sjálfstæðisflokksins og vilt greina einhvern meintan hringlandahátt í þeim málflutningi. En í tilfelli Framsóknarflokksins viltu aðeins horfa til þeirrar stefnu sem samþykkt hefur verið á flokksþingum hans sem einmitt hefur gjarnan verið einhver kannski, e.t.v., hugsanlega stefna. Flokksþingið 2005 er ágætis dæmi. Framsóknarflokkurinn er opinberlega klofinn í Evrópumálunum og hefur verið það a.m.k. síðustu tvo áratugi. Forystumenn flokksins hafa talað sitt á hvað allan þann tíma. Þú hrósar Framsóknarflokknum fyrir þetta og kallar það að hafa kjark og að koma hreint fram en sakar svo sjálfstæðismenn um hringlandahátt þegar skiptar skoðanir koma fram í þeirra röðum. Hvers vegna eru tveir mælikvarðar í gangi hjá þér? Mikið er þetta trúverðugt allt sama hjá þér
Og ég hef svo sannarlega kynnt mér málin
Hjörtur J. Guðmundsson, 23.7.2008 kl. 21:23
Hjörtur, framsóknarmenn eru ekki allir sammála í Evrópuumræðunni og það er ekkert verið að fara í neinar grafgötur með það. Munurinn á þeim og Birni Bjarnasyni er að framsóknarmenn eru sammála sjálfum sér milli daga og vikna. Björn segir hinsvegar eitt í dag og kemur svo með rök gegn eigin hugmynd á morgun og enginn veit hvert maðurinn er að fara eða hvað hann vill. það er eitt að menn deili sín á milli, en þegar Björn deilir við Björn þá hlýtur það að vekja menn til umhugsunar um það hvort manninum er yfir höfuð treystandi.
G. Valdimar Valdemarsson, 24.7.2008 kl. 10:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.