Viljum við aðstoð ?
30.10.2008 | 10:18
Ég átti í gær, ásamt Valgerði Sverrisdóttur, fund með þingmanni frá norska Miðflokknum sem kom hingað gagngert til að fræðast um ástandið á Íslandi og hvernig Norðmenn gætu komið að því að aðstoða okkur í þeirri stöðu sem uppi er. Í samtölum okkar kom fram að það sé ósköp lítið sem Norðmenn geti gert ef ekki kemur til eitthvert frumkvæði frá okkur íslendingum.
Norska ríkið á 34% eignarhlut í stærsta banka Noregs og spurði ég hann beint hvort hann teldi mögulegt að sá banki væri til í að kaupa einn af íslensku bönkunum bæði til að auka hér samkeppni, til að fá fjármagn í ríkiskassann á erfiðum tímum og til að tryggja að hér verði opnaðar leiðir fyrir gjaldeyri inn í landið hratt og örugglega.
Hann sagði þetta dæmi um þá aðstoð sem Norðmenn væru tilbúnir að skoða með opnum huga, en að til þess að svo megi verða þarf frumkvæðið að koma frá Íslandi. Ríkisstjórnin situr við sinn keip og virðist upptekin við að rífast um aðild að ESB eða ekki aðild að ESB. Það fer ósköp lítið fyrir öllum tilraunum til þess að horfa fram á veginn og byggja hér upp.
Það er skiljanlegt að almenningur sé sár og reiður og leiti sökudólga, en stjórnvöld og stjórnmálamenn verða að leita lausna, raunhæfra lausna sem hægt er að grípa til í dag. Það er ekki hægt að dvelja við pólitíska drauma um ESB sem lausn á vanda dagsins í dag. Ef menn telja ESB leiðina lausn eiga stjórnarþingmenn að beita sér fyrir flýtimeðferð á frumvarpi Birkis J. Jónssónar um þjóðaratkvæði í stað þess að liggja í skotgröfunum og karpa.
Þannig kemst vilji þjóðarinnar fram. Verkefni dagsins er að koma fyrirtækjunum og heimilunum í gegnum vandann eins og hann blasir við og þar vantar hugmyndir og tillögur frá stjórnvöldum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:48 | Facebook
Athugasemdir
Assgoddi er ég sammála þér Valdi minn… stjórnvöld og stjórnmálamenn verða að leita lausna… mér finnst viðbrögð stjórnvalda einkennast af fumi og fáti. Mér líst vel á að fara í
þjóðaraatkvæðagreiðslu, en þá þarf að fræða almenning um kostina og gallana. Ég held að
almenningur sé ansi illa upplýstur um hvað ESB aðild myndi í raun þýða. Auðvitað er það
svo að sumir tapa á aðild og aðrir græða, en það verður að skoða hið stóra samhengi hlutanna og nú erum við að horfa upp á gerbreytta stöðu okkar í samfélagi þjóðanna.
Það á líka að skoða vel samvinnu við Norðmenn og kannski verðum við að tengja okkur
við norsku krónuna. Hvað finnst þér um þá hugmynd?
Birgir Þorsteinn Jóakimsson, 30.10.2008 kl. 23:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.