Stjórnarskrárbreytingar

Eins og staðan í stjórnarmyndunarviðræðum er núna lítur út fyrir að eitt af verkefnum nýrrar ríkisstjórnar verði að beita sér fyrir breytingum á stjórnarskrá.   Þar tel ég að þurfi að huga að þremur atriðum í fyrstu atrennu en að aðrar breytingar bíði stjórnlagaþings sem endurskoði stjórnarskrá, kosningalög og jafnvel lög um stjórnarráð, ráðningar opinberra starfsmanna og fleiri atriði.

Í stjórnarskrá þarf að setja inn ákvæði um framsal valdheimilda sem gæti verið á eftirfarandi hátt:

Við 21. gr. stjórnarskrárinnar bætist:

2.        „ Heimilt er í því skyni að ná markmiðum um aukna samvinnu milli þjóða og
sameiginlega réttarskipan með öðrum ríkjum eða til þess að tryggja alþjóðlegan frið
og öryggi að framselja skilgreinda hluta valdheimilda, sem handhafar ríkisvalds fara
með samkvæmt stjórnarskránni, í hendur yfirþjóðlegra stofnana sem Ísland á eða fær
aðild að með samningi. Slíkt framsal getur þó ekki tekið til heimilda til þess að
breyta stjórnarskrá þessari.
3.        Framsal samkvæmt 1. mgr. skal ákveðið með lögum þannig að a.m.k. 3/4
þingmanna greiði slíku lagafrumvarpi atkvæði sitt. Náist slíkur aukinn meirihluti
ekki en einfaldur meirihluti þingmanna greiðir slíkri tillögu þó atkvæði sitt má í
kjölfarið bera tillöguna óbreytta undir bindandi þjóðaratkvæði til samþykktar eða
synjunar þar sem einfaldur meirihluti kjósenda ræður úrslitum.
4.        Framsal slíkra valdheimilda er ávallt afturkræft eftir sömu reglum og
greinir í 2. mgr.
5.        Ákvæði þessarar greinar eiga ekki við um þátttöku Íslands í
alþjóðastofnunum sem taka ákvarðanir sem einungis hafa þjóðréttarlega þýðingu
gagnvart Íslandi. “

Jafnframt þarf að bæta inn ákvæðum um stjórnlagaþing og að stjórnlagaþing hafi heimild til að breyta stjórnarskrá eða setja þjóðinni nýja stjórnarskrá.    Allt tal um stjórnlagaþing án þess að setja um það ákvæði í stjórnarskrá leiðir til þess að væntanlegar breytingar bíða eftir kosningum til Alþingis sem gætu orðið 2013.    Tryggja þarf stöðu stjórnlagaþings og að það sé löggildur vettvangur til að ræða og ger  stjórnarskrárbreytingar en ekki ráðgefandi vettvangur sem sendir erindi til Alþingis.   Það er marklaust ef Alþingismenn ætla svo að sitja og velja og hafna úr tillögum stjórnlagaþings.

Að lokum er mikilvægt að tryggja stöðu auðlinda í þjóðareigu í stjórnarskrá áður en gengið er til viðræðna við ESB um aðild Íslands.   Það styrkir samningsstöðu okkar og er leið til að skapa sátt um aðildarviðræður.   

Framsóknarmenn hafa flutt tillögur að nauðsynlegri breytingu til að tryggja stöðu auðlindanna og í stjórnarskránni og við eigum fullmótaðar tillögur um breytingar vegna framsals valdheimilda eins og sjá má hér að ofan og jafnframt um stjórnlagaþing.   Mikilvægt er að ganga hreint til verks og eyða öllum vafa.   Nú dugar ekkert hálfkák.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband