Bloggfærslur mánaðarins, október 2008

Takið Geir úr umferð

Enn er Geir Hilmar Haarde meira upptekin af hagsmunum Sjálfstæðisflokksins en af hagsmunum þjóðarinnar.   Það á ekki að skoða allar leiðir til bjargar þjóðarbúinu vegna þess að sumar leiðirnar gæru verið erfiðar Flokknum.   Flokkurinn er jú heilagur og hann gengur fyrir.  

Þetta er þekkt úr mannkynssögunni þegar trúarbrögðin eru tekin fram yfir þjóðríkin.  Þetta er sú staða sem við horfum á í dag.  Virðingin fyrir Flokknum nær meira að segja í systurflokkinn Samfylkinguna, en flokkarnir byggja jú á sömu hugmyndafræði, eru regnhlífasamtök fólks með eitt markmið, að halda völdum hvað sem það kostar.

Það er reyndar ekki að undra að þessir flokkar fari sýnu fram án þess að leiða hugann eitt augnablik að hagsmunum þjóðarinnar.  Áróður fjölmiðlana hefur tryggt þeim enn um 30% fylgi hvorum og þess vegna engin ástæða til þess að hlusta frekar á þjóðina.

Nánast allir, nema þeir sem eru innvígðir og hafa tekið blessun í Valhöll, hafa bent á gjaldþrot peningamálastefnunnar og nauðsyn þess að koma með nýja forystu í Seðlabankann.   Systurflokkurinn Samfylking hefur ymprað á þessu en það virðist samt skipta minna máli en að halda áfram málþófinu og tilraunum til að hanga í stólunum.

Geir náði botninum á tveggja mánaða fresti frá áramótum. síðast í gærkvöldi, en núna er allt að fara til andskotans.   Aðilar sem sátu með forsætisráðherra á fundum um helgina eru orðlausir, reiðir og sárir, en Geir hann verður ekki var við neinn ágreining.  

Á hverju er maðurinn ?


Tölvupóstur að norðan

Góðan daginn suður þar.

 

Þega ég vaknði í morgun var mér mikið létt. Ég sá einhver brot úr féttatímum um helgina og var satt að segja farinn að fá á tilfinninguna að eitthvað væri að. Allir helstu fyrirmenn þjóðarinnar sátu á löngum fundum daga og nætur í myrkvuðum bakherbergjum í ráðherrabústaðnum. Og af fasi fréttamanna mátti skilja að einhverjar aðgerðir væru í vændum, sem ætlað væri að kippa einhverjum hlutum í lag á nýjanleik. Að vísu bý ég svo langt í burtu að ég hafði ekki áttað mig á að ekki væri allt í lagi, né heldur hvað þyrfti að gera til að allt yrði í lagi aftur. En í gær virtist þó eins og eitthvað væri ekki upp á sitt besta lengur. Þess vegna var það mikill léttir í morgun að heyra að Geir okkar blessaður hefði gefið það út í nótt að það væri ekkert að og ekkert sem þyrfti því að gera til að laga. Þeir voru náttúrulega bara að æfa fyrir árshátíðina blessaðir mennirnir, og enn og aftur látum við fjölmiðlamenn hafa okkur að fíflum.


Geir gefst upp

Enn og aftur kemur Geir Haarde og kennir alþjóða fjármálakreppu um, en talar í sama orðinu um að ríkisstjórnir og seðlabankar um allan heim séu að grípa til aðgerða.  En á Íslandi nei, Davíð kóngur og Geir ráðalausi þeir gera ekki neitt.   Ég lýsi fullri ábyrgð á Geir Hilmar Haarde ef gengið fellur áfram á morgun.   Þá er ljóst að þetta "skot" í gengið fer beint út í verðlagið og leggst á lánin mín og allra annarra sem búa við íslenska krónu og verðtryggingu.

Geir lýsir því yfir að innistæður almennings séu tryggar, hann áttar sig ekki á því að fólk hefur enga trú á honum og því sem hann segir.   Hann sagði þjóðinni ósatt alla síðustu helgi og getur ekki reiknað með að þjóðin trúi honum núna. 

Ábyrgðin er Flokksins, Geirs og Davíðs og það er tímabært að fólkið á landinu standi upp og láti ekki bjóða sér þessi vinnubrögð lengur.    Hvaða hagsmuni eru þeir að vernda?  Ekki okkar fólksins í landinu.


mbl.is Ekki þörf á aðgerðapakka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Geir lifir í draumi

Ef verkalýðshreyfing á að samþykkja framlengingu kjarasamninga verður Geir og íhaldið að láta af draumnum um íslenska krónu.    Íhaldið notar krónuna til þess að skerða hér lífskjör þegar því hentar og færa fjármuni milli stétta og kynslóða.   Sá tími er liðinn og nú þarf hagstjórn sem byggir á velferð allra í samfélaginu.   Fyrsta skrefið í þá átt er ný mynt sem veitir ný tækifæri til að skapa stöðugleika til lengri tíma.   Evra er ekki töfralausn eins og sumir Samfylkingarmenn halda, en hún er tækifæri til að stýra efnahagsmálum í það horf að hægt sé að byggja hér upp og horfa fram á vegin til lengri tíma en vikna og mánaða.

 


mbl.is Æskilegt að framlengja kjarasamninga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bankaútibú bjóða ávísanir vegna skorts á lausafé.

Vandamál dagsins er að almenningur trúir frekar á dósent úr Háskólanum en á forsætisráðherra og Seðlabankastjóra.  Það er kannski ekki að undra, mennirnir lugu að þjóðinni alla síðustu helgi milli þess að þeir keyrðu glottandi þessa 300 metra á milli stjórnarráðs og Seðlabanka.  Það tekur ár og daga að ávinna sér traust, en bara eina helgi að missa það.  

Þjóðin treystir þessum mönnum ekki lengur.   Þeir eru orðnir hluti af efnahagsvandum og verða að fara frá.


mbl.is Boðar aðgerðir til að auka lausafé
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver er óábyrgur ?????????

Vandamál dagsins er að almenningur trúir frekar á dósent úr Háskólanum en á forsætisráðherra og Seðlabankastjóra.  Það er kannski ekki að undra, mennirnir lugu að þjóðinni alla síðustu helgi milli þess að þeir keyrðu glottandi þessa 300 metra á milli stjórnarráðs og Seðlabanka.


mbl.is Ummæli Gylfa Magnússonar óábyrg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forstjóri N1 er í Noregi.

Hvað halda menn að hann sé að gera þar?   Það gæti nú kannski verið að hann sé að semja um greiðslufresti á olíu vegna skorts á dollurum.  Hermann forstjóri N1 hefur sagt að hér sé raunveruleg hætt á olíuskorti.  Bjarni Benediktsson stjórnarformaður N1's og auðmjúkur stuðningsmaður viðskiptaráðherra ætti nú að geta gert grein fyrir stöðunni.   Það stendur orð á móti orði þegar forstjórinn talar um hættu á olíuskorti og ráðherrann ber það til baka.  Stjórnarformaður N1's þarf að svara því hvor segir satt
mbl.is Engin hætta á olíukreppu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Söguritarar samtímans

Eftir að hafa verið óbloggfær í gær vegna laseraðgerðar á báðum augum ætla ég að reyna að setja nokkrar línur á skjáinn í dag.

Eldhúsdagsumræðurnar á Alþingi í gær voru áfall fyrir þjóðina.   Tilgangur eldhúsdagsumræðna er að flytja þjóðinni boðskap ríkisstjórnar um stefnuna og málin sem tekin verða fyrir í vetur.  Í stað þess að tala um stefnu og mál og boða aðgerðir voru stjórnarliðar fastir í baksýnisspeglinum.  Það var farið yfir afrekalistann, sumt satt og rétt, annað stolið og stílfært en engin þeirra hafði dug og kjark til að horfa fram á við og segja þjóðinni hvernig þeir hyggjast bregðast við aðsteðjandi vanda, hvorki í bráð eða lengt.  Undantekningin var reyndar viðskiptaráðherrann sem boðaði aðild að Evrópusambandinu, en Samfylkingin notar aðildina stundum í ræðum þegar hentar en hefur ekki kjark til að ganga langra en það.

Ég er sannfærður um að ríkisstjórnin þarf að byrja á því að byggja upp traust á íslensku efnahagslífi og þar verður að byrja á byrjuninni.   Þjóðin treystir ekki Seðlabankanum og þá fyrst og fremst Davíð Oddssyni.  Á meðan þjóðin treystir manninum ekki, er ekki hægt að reikna með að aðrar þjóðir eða erlendir bankar treysti honum.   Og á meðan ekkert traust er fyrir hendi fáum við engin lán á ásættanlegum kjörum til að leysa vandan.

Sjálfstæðismenn verða að horfast í augu við ástandið og bregðast við, eða fara frá að öðrum kosti. Sjálfstæðisflokkurinn hefur í marga mánuði komið sér hjá því að ræða efnahagsmál, peningamálastjórn og framtíðar skipulag gjaldmiðilsmála á Íslandi.   Umræðan hefur verið afvegaleidd og Flokkurinn hefur lagt sig fram um ómálefnalega framkomu, útúrsnúninga og hálfkák til að komast hjá því að taka afstöðu.

Flokkurinn hefur ástundað það að umskrifa söguna og sannleikan og nota yfirburðarstöðu sína í fjölmiðlum til þess að mata þjóðina á heimatilbúnum sannleika úr Valhöll.

Nýjasta dæmið eru skrif Agnesar Bragadóttur í Morgunblaðið um yfirtökuna á Glitni.  Agnes er ráðin sérstaklega til Morgunblaðsins framhjá ritstjórn af eigendum Björgúlfsfeðgum.  En það eru þeir sem sitja á kvöld og næturfundum með forsætisráðherra talandi um ekki neitt.   Agnes kemur fram og fullyrðir að hún viti meira um fundi og fundarefni í kringum yfirtökuna á Glitni en þeir sem sátu fundina.  Þetta getur aðeins verið satt og rétt ef hún veit hvað ekki var sagt á fundum heldur bara hugsað.  

Það þýðir að hún hefur aðgang að Seðlabankastjóra og eða forsætisráðherra umfram aðra fréttamenn.  Seðlabankastjóri verður að gera grein fyrir því hversvegna hann gefur ekki viðtöl við almenna blaðamenn en veitir þessum eina aðgang að hugsunum þínum.  Það lyktar óneitanlega af tilburðum til að breyta umfjöllun og sögunni sér í hag og er alls ekki til þess fallið að auka traust á Seðlabankanum þvert á móti.

Boðuð lántaka til að styrkja gjaldeyrisvarasjóðinn er engin lausn til framtíðar.  Lántaka á kjörum sem væru í samræmi við skuldatryggingarálag ríkissjóðs núna er tilræði við komandi kynslóðir.  Sjálfstæðisflokkurinn getur keypt ýmislegt, en hann kaupir sig ekki frá því að ræða framtíðina.  Samfylkingin hefur nú tækifæri til þess að verða afl sem hefur áhrif í íslandssögunni en þá verða menn að taka frumkvæðið af íhaldinu og koma Evrópuumræðunni á dagskrá.  Annars kemst íhaldið upp með það að kaupa sér frið og aðgang að stólunum enn um stund og senda unga fólkinu og börnum þessa lands reikninginn.    Eru menn eða mýs í Samfylkginunni? 

 Smá viðbót:  Stoðir leiðrétta í tilkynningu rangfærslur Agnesar Bragadóttur, rangfærslur þar sem skeikar 126.000 milljónum.   Það er ekki einhver smá ónákvæmni í blaðamanni heldur annað hvort svo óvönduð vinnubrögð að leitun er að öðru eins, eða vísvitandi rangfærsla til að fegra slæman málstað.  Hvort sem er hittir grein hennar í Morgunblaðinu í morgun hana sjálfa ílla fyrir.  


Hvað er til ráða?

Nú hefur krónan enn fundið leið niður á við og virðist fall hennar engan enda ætla að taka.   Stjórnvöld hafa ekki uppi nokkra tilburði til þess að verja gengið.  Enda eru þau orðin ráðalaus eftir að umtalsverður hluti gjaldeyrisvarasjóðsins var tekin til hliðar til þess að kaupa Glitni banka á spottprís. 

Stjórnvöld hafa allt þetta ár flotið sofandi að feigðarósi og það er grátlegt að rifja upp yfirlýsingar ráðamanna.   Snemma árs talaði forsætisráðherra um að botninum væri náð, þá kom að uppgjöri fyrsta ársfjórðungs hjá fjármálastofnunum og krónan féll eins og steinn. 

Á ársfundi Seðlabanka flutti forsætisráðherra ræðu og taldi þar fulla ástæðu til að endurskoða peningamálastefnuna og taka lán til að styrkja gjaldeyrisvarasjóðinn, en það var bara í orði ekki á borði frekar en annað sem frá Geir Haarde hefur komið allt þetta ár.

Í maí tveimur dögum fyrir þinglok vaknaði Geir og mundi eftir því að það væri eitthvað að og sóttist eftir heimild frá Alþingi til lántöku til að styrkja gjaldeyrisvarasjóðinn.  Svo seint vaknaði Geir að leita þurfti afbrigða til að koma málinu í gegn. 

Á þessum tíma hafði markaðurinn róast og skuldatryggingarálag ríkisins lækkað umtalsvert, þarna gafst nokkurra daga tóm til að bregðast við og taka lán á viðunandi kjörum, en þá hafði Geir bara sofnað aftur.  Sagði þjóðinni að hann hefði sparað henni milljarða með því að sofa og taldi vissast að sofa bara áfram á verðinum.

Þá kom að uppgjöri annars ársfjórðungs og krónan datt fram af brúninni og féll lengi eða fram að mánaðarmótum júní, júlí þá var tilganginum með fallinu náð og krónan lenti á syllu og hóf að klifra aðeins upp á við aftur.

Þá kom Geir enn fram og sagði þjóðinni að botninum væri náð og nú væri að koma fram kostir þess að hafa nú ekki gert neitt allt árið.  Gagnrýnin varð nú svo hávær að gerðar voru málamyndabreytingar á húsnæðismarkaði og samningar við seðlabanka á norðurlöndunum reyndar bara til áramóta til að kaupa sér frið og til að setja inn í áróðursbleðlana frá Valhöll þannig að hægt væri að benda á að eitthvað hefði verið gert.

Þjóðin var nú ekki ginkeypt fyrir yfirlýsingum duglaus forsætisráðherra og Sjálfstæðisflokkurinn mældist í skoðanakönnum ekki lengur stærsti flokkur landsins.   Hófst þá mikil ímyndarherferð til að bæta ímynd flokksins.  Línur voru lagðar, sannleikurinn saminn upp nýtt eins og hentaði flokknum.

Þá leið að lokum þriðja ársfjórðungs og krónan missti takið og datt aftur.  Hún bara dettur og dettur allan september og Geir  og Solla drífa sig til útlanda meðan þau hafa enn efni á að kaupa dollara.  Seðlabankinn hann gerir akkúrat ekki neitt enda er það línan frá forsætisráðherra að best sé að gera ekki neitt.

Nú síðan fær Seðlabankinn upp í hendurnar verkefni, sem hann ætti að öllu eðlilegu að ráða við og geta sinnt fljótt og vel.  Hann er beðinn um lán til þrautavara, sem er meðal annars eitt af hlutverkum bankans.   Á þeim bæ voru menn orðnir svo leiðir á að gera ekki neitt og horfa bara á sömu tölurnar á skjánum viku eftir viku að þeir brettu upp ermar og gengu í verkefnið af þvílíku offorsi að steypubrjálaðir menn í 400 fermetra plötu líta út eins og sunnudagaskólabörn undir predikun við hliðina.

Þeir skutu svo rækilega yfir markið að blessuð krónan er núna eins og hún hafi verið bundin við sökku og ekkert annað að gera en að krossa sig og vona að hún haldi enn í sér andanum þegar botninum er náð og hún nær að losa sig við sökkuna.  

Sakkan sem dregur krónuna niður er traustið á íslensku efnahagslífi, Seðlabankanum og forsætisráðherranum sem sefur.   Allir þessir aðilar hafa það sammerkt í dag að til þeirra bera fáir traust. 

Forsætisráðherrann hefur fyrirgert öllu trausti með fáránlegum yfirlýsingum allt árið um að botninum sé náð og framundan betri tíð með blóm í haga.

Seðlabankinn er rúinn trausti vegna þess að þar situr seðlabankastjóri sem menn efast um að komi fram með hag þjóðarinnar í fyrsta sæti.  Þar situr stjórn vildarvina seðlabankastjóra sem hefur enn sem komið er allt þetta ár bara þegið laun en ekkert lagt á móti.

Efnahagslífið er rúið trausti vegna þess að hér er minnst mynt í heiminum sem á sér ekkert skjól hvorki í Seðlabanka eða hjá ríkisstjórn.   Ábyrgir aðilar í samfélaginu sem reyna að benda á leiðir út úr vandanum verða fyrir árásum og skítkasti ráðamanna og eru uppnefndir landráðamenn.

Svona er Ísland í dag, og það verður fróðlegt að heyra stefnuræðu forsætisráðherra og sjá fjárlög Flokksins í þessu árferði.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband