Bloggfærslur mánaðarins, september 2008
Árangur áfram
30.9.2008 | 16:23
Ísafjarðarbær hyggst fresta framkvæmdum fyrir 87,8 milljónir króna, ef farið verður að tillögum sem lagðar voru fram í bæjarráði í gær. Þetta kemur fram í frétt á Skutull.is.
Þetta er tilkomið vegna erfiðleika við að útvega lánsfé til framkvæmda. Margir hafa orðið til þess að ræða aðkomu ríkis og sveitarfélaga þegar kreppir að. Talað hefur verið um að ríki og sveitarfélög eigi að framkvæma þegar aðrir geti það ekki. Nú er kreppan orðin það alvarleg að sveitarfélögin eru dæmd úr leik. Þau hafa ekki aðgang að lánsfé á skikkanlegum kjörum
Ríkissjóður stendur heldur ekkert of vel, hátt skuldatryggingarálag og lækkandi lánshæfismat hefur þau áhrif að annars arðbærar og nauðsynlegar framkvæmdir eru ekki eins fýsilegar í dag. Þessi þróun getur leitt af sér fjöldagjaldþrot í mörgum atvinnugreinum og síðar hjá mörgum fjölskyldum. Stjórnvöld hafa flotið steinsofandi að þessum ósi.
Peningamálastefnan er í algjöru öngstræti, háum vöxtum er ætlað að draga úr þenslu og koma í veg fyrir verðbólgu. Verðbólgu sem er fyrst og fremst til komin vegna gengisfalls og hárra vaxta. Vaxtabyrgði fyrirtækja fer beint út í verðlagið og há verðbólga og úrræðaleysi stjórnvalda veldur óstöðvandi gengisfalli.
Forsætisráðherrann hefur komið fram nokkrum sinnum á þessu ári og sagt að botninum sé náð og jafnoft haft rangt fyrir sér. Hann sagði um helgina að allt væri stakasta lagi og hann væri bara að setja sig inn í málin. (lesist: hann var að leita að botninum) Á mánudegi vaknar þjóðin og allt er að fara til fjandans. Seðlabankinn hefur framið hryðjuverk á íslensku efnahagslífi og erlendar lánastofnanir og matsfyrirtæki keppast við að fella lánstraust þjóðarinnar.
Einmitt á þeim tíma þegar ríki og sveitarfélög þurfa á því að halda til að fá hjól atvinnulífsins til að snúast vinnur Seðlabankinn gegn því. (Heldur víst að enn sé þensla á Íslandi) Ríkisstjórnin hefur lagt steina í götu atvinnuuppbyggingar frá þeim degi sem hún tók við völdum. Ráðherra keppast við að þvælast fyrir þeim sem vilja tryggja fólkinu í landinu atvinnu.
Gengi krónunnar fellur vegna þess að það er ekki jafnvægi milli þjóðarframleiðslu, kaupmáttar fyrirtækja og almennings og gengis. Þá er gengið leiðrétt sem hækkar tekjur af útflutningi og dregur úr kaupmætti þar til jafnvægi fæst. Það hefur margoft verið bent á að nær væri að auka útflutningstekjur og þjóðarframleiðslu í stað þess að fella gengið og senda almenningi reikninginn.
Ríkisstjórnin og Geir ætla sér að láta almenning borga þennan reikning að fullu og línan er að þjóðin eigi þessa timburmenn skilið eftir góðærisfylleríið undanfarin ár. Timburmannasamlíkingin hentar vel þeim sem vilja að almenningur borgi brúsann. Vandamálið er bara að almenningur allur var ekki á fylleríi og þessir heimatilbúnu timburmenn ríkisstjórnarinnar spyrja ekki hvort þú hafir sopið á góðærinu eða ekki, þeir leggjast á alla fulla og ófulla.
Þjóðin á skilið þá stjórn sem hún kýs yfir sig, en það er ekki tilviljun að dýpstu efnahagslægðir þjóðarinnar hafa komið þegar kratar og íhald sitja í stjórn. Þessir flokkar eiga það sameiginlegt að vilja nota atvinnuleysi sem stjórntæki í efnahagsmálum. Nú þegar saman fer heimatilbúin niðursveifla eftir miklar framkvæmdir og djúp alþjóðlega kreppa ráða þessir flokkar ekki við vandan.
Ástæða ráðleysis er margþætt, sjálfstæðismenn búa við forystukreppu þar sem nýr formaður hefur ekki náð tökum á flokknum og hefur gefið á sér færi sem bæði væntanlegir vonbiðlar eftir formannssætinu og fyrrverandi formaður ganga á lagið. Samfylkingin er ekki stjórnmálaflokkur heldur kosningabandalag fjögurra flokka með mismunandi rætur og því enga eina stefnu þangað að sækja til lausnar á vandanum.
Það veit enginn hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Framsóknarmenn boðuðu árangur áfram, að sókn væri besta vörnin við aðsteðjandi niðursveiflu. Nú hefur alþjóðleg kreppa bæst við þá sveiflu sem við vissum að lá í kortunum. Eina svarið við stöðunni eins og hún blasir við er Árangur áfram, áframhaldandi atvinnuuppbygging, ef ríkisstjórnin er þá ekki búin að fæla allt fjármagn frá landinu og sökkva þjóðinni í 10 ára kreppu.
Nú er það svart maður
30.9.2008 | 15:38
Seðlabankinn er ekki lengur vinur bankana og lánveitandi til þrautavara. Hann er þeirra óvinur og ef þeir svo mikið sem láta sjá sig á Hólnum eiga þeir ekki von á góðu. Bankinn kaupir upp hlutfé og sendir reikninginn á ríkissjóð án þess að ráðfæra sig einu sinni við nema annan ríkisstjórnarflokkinn.
Ríkissjóður er í höndum viljalausra verkfæra sem láta bankastjórann segja sér fyrir verkum og hafa ekki sjálfsstæða skoðun. Nú er komið í ljós að bankamenn stefna forsætisráðherra til fundar við sig í stjórnarráðinu um alls ekki neitt. Sennilega hefur þeim bara langað í gott kaffi og koníak.
Annar ráðherra lætur reka sig upp úr rúminu um miðja nótt til að hitta stórlax í viðskiptalífinu og taka við skömmum hans. Ég skil að Glitnir og tengdir geti stefnt mönnum á ofurlaunum til sín á öllum tímum sólarhrings til að ræða þá alvarlegu stöðu sem upp er komin.
En hvaðan kemur bankastjórnum Landsbankans það vald að stefna forsætisráðherra í stjórnarráðið á mánudagskvöldið til að ræða um ekki neitt? Og hvaðan kemur Jóni Ásgeiri það vald að rífa bankamálaráðherra upp úr rúminu til að skamma hann eins og smákrakka?
Auðvitað er Geir frjáls að því að hitta mennina og ræða við þá um ekki neitt. Maður er bara hættur að taka blessaðan kallinn hann Geir alvarlega þegar hann ræðir um ekki neitt, dæmin um helgina tala sínu máli. Um bankamálaráðherrann þarf ekki að ræða, hann gengisfelldi sjálfan sig út úr allri alvarlegri pólitískri umræðu með því að láta stefna sér á fund Jóns Ásgeirs og taka þar við skömmunum.
Fitch lækkar lánshæfismat ríkissjóðs | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Falleinkunn
30.9.2008 | 14:42
Viðbrögð Seðlabanka við beiðni Glitnis um lán eru með þvílíkum endemum að greiningarfyrirtækin hljóta að lækka lánshæfismatið. Árangurinn af margra ára uppgreiðslu skulda ríkissjóðs er farinn út um gluggann á einni helgi. Dettur nokkrum í hug eftir þessi viðbrögð bankans að aðrir bankar komi til með að leita til Seðlabanka um fyrirgreiðslu?
Fyrirgreiðsla hefur fengið alveg nýja merkingu eftir helgina. Seðlabankinn kaupir 75% af 200 milljörðum og ákveður sjálfur að verðið sé 84 milljarðar. Síðan verður hluturinn seldur og nánast öruggt að það fæst hærra verð fyrir. Þetta er hrein og klár eignaupptaka hvernig sem á málið er litið. Menn geta haft skoðun á því hvernig eignirnar urðu til en ég fullyrði að margir eru að tapa umtalsverðum hluta ævisparnaðarins á þessum aðgerðum. Litlir hluthafar sem hafa ekkert um málið að segja og gleymast í hita leiksins.
Aðilar á markaði hafa gefið aðgerðum Seðlabanka einkunn í dag, og það fer ekki á milli mála að það er falleinkunn. Hvað þarf Seðlabankinn að falla á mörgum prófum áður en yfir líkur? Peningastefnan er gjaldþrota og stjórnendur Seðlabanka njóta ekki trausts í samfélaginu. Það sér hver maður að þegar Seðlabankinn tekur til hendi er þjóðinni efst í huga hvaða búi að baki, hverjum sé verið að refsa og hverjum eigi að hygla. Það er lýsandi dæmi um fullkomið vantraust og þekkist ekki á byggðu bóli að málsmetandi menn um allt þjóðfélagið telji bankann ganga erinda annarra en þjóðarinnar.
Fleiri lækka lánshæfismat ríkissjóðs | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
hvað svo?
29.9.2008 | 11:03
Hvernig verða svo fjárlögin ?
http://gvald.blog.is/blog/gvald/entry/655382
Ríkið eignast 75% í Glitni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Hvað svo ?
29.9.2008 | 11:01
Nú er komið í ljós að fjármögnun Glitnis banka versnaði til muna vegna aðstæðna á markaði undanfarna daga. Aðstæðna sem einkennast af björgunaraðgerðum ríkisstjórna og seðlabanka um allan heim til að koma í veg fyrir hrun. Á sama tíma og þjóðir heims hafa verið að bregðast við er ekkert gert á Íslandi. Það er því fullkomlega eðlilegt að draga þá ályktun að þeir sem fjármagnað hafa Glitni undanfarið hafi dregið sig í hlé vegna aðgerðarleysis ríkisstjórnarinnar og seðlabankans.
Þá er reikningur þjóðarinnar vegna getuleysis Geirs orðinn áþreifanlegur, kr 270.000 á hvert einasta mannsbarn. Og þó aðeins búið að bjarga einum banka. Hvað verður nú um Byr sem var í samningum við Glitni um yfirtöku?
Önnur stór spurning sem brennur á þjóðinni er hvernig fjárlagafrumvarpið lítur út. Í fyrra var farið á bullandi eyðslufyllerí og útgjöld aukin um 20% á milli ára. 20% er engin smá hækkun á útgjöldum ríkissjóðs, það var eytt og spreðað í gæluverkefni hægri vinstri, nú verður fróðlegt að sjá hvort ríkisstjórnin sýnir ábyrgð og leggur fram fjárlög í jafnvægi. Það er jú búið að eyða 84.000 milljónum í dag í eina aðgerð og varla borð fyrir báru í frekari útgjöld. Ef gefa á út fjárlög með ávísun á komandi kynslóðir uppá 50-60 milljarða er komin tími til að ríkisstjórnin fari frá.
bla bla bla bla
25.9.2008 | 11:23
Gengi krónu er afar háð þeim skilyrðum sem ríkja á alþjóðlegum fjármálamörkuðum hverju sinni svo og mati erlendra matsfyrirtækja á efnahagslegum aðstæðum hér á landi og áhættulyst fjárfesta svo dæmi séu tekin.
Þetta er svar greiningardeildar Glitnis við þeim spurningum sem brenna á þjóðinni þessa dagana, hverjir eru að fella gengið.
Hér löngu söguleg upptalning á þróun gengis undanfarna mánuði og ár. En það er engin tilraun gerð til þess að finna ástæður fyrir gengisþróuninni. Það er talað um fylgni milli skuldatryggingaálags og gengisþróunar. Má ekki leiða að því líkum að þegar skuldatryggingaálagið er hátt leiti íslensku bankarnir annarra leiða til að fegra uppgjörin t.d. með því að fella gengið?
Þessi greining leggur ekkert til málanna og gerir enga tilraun til að svara þeirri spurningu hverjir það eru sem hafa af því hag að fella gengið á þriggja mánaða fresti. Það er reyndar horft algerlega framhjá þeirri staðreynd að gengið fellur mest við lok ársfjórðunga.
Það er því líklegt að bankarnir hafi leitað í smiðju Valhallar og séu að kasta reyksprengjum inn í umræðuna til að forðast kjarna málsins. Greiningardeildirnar hafa sannað sig að vera verkfæri bankanna í áróðursstríði við stjórnvöld og almenning en ekki hlutlausir aðilar sem ráða fólki heilt þegar kemur að fjárfestingum.
Ýmsir þættir orsaka sveiflur á gengi krónunnar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Engar nýjar fréttir
24.9.2008 | 11:41
Nú bíður þjóðin spennt eftir því hvaða biðleik Sjálfstæðismenn finna næst uppá til þess að komast hjá því að ræða peningamálastefnuna. Boðaðri endurskoðun peningamálastefnunnar er slegið á frest þar til ró kemst á fjármálamarkaði sem getur tekið mánuði og jafnvel ár og á meðan á þjóðin að búa við ástand sem allir eru sammála um að er fullkomlega óásættanlegt.
Ef sótt er um aðild að Evrópusambandinu verður strax til umræðugrundvöllur um stöðuleikasamning við Seðlabanka Evrópu. Samning sem getur hjálpað okkur út úr þeim ógöngum sem hagstjórnin og krónan eru í. Umsókn og stöðuleikasamningur í framhaldinu er bestu kostirnir sem þjóðinni býðst í dag til að vinna sig út úr vandanum.
Það verður ekki auðvelt, en þar getur samningur við Seðlabanka Evrópu riðið baggamuninn og hjálpað til við koma krónunni á rétt ról mun fyrr en ella hefði verið. Trúverðugleiki krónunnar og efnahagslífsins myndi styrkjast og sá skaði sem seðlabankastjórar með skítkasti og flótta frá vitrænni umræðu hafa valdið samfélaginu verður lágmarkaður.
Útilokað að taka upp evru | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Björn veistu ekki númerið hjá Geir ?
23.9.2008 | 15:54
Eftirfarandi er af bloggi Björns Bjarnasonar í dag.
"Evrópunefnd undir formennsku minni ræddi við Olli Rehn, stækkunarstjóra ESB, í byrjun júní 2005. Þá sagði hann hið sama og við Evrópuvaktnefndina, sem er í Brussel núna: Það tekur engan tíma fyrir Ísland að gerast aðili að ESB. Þetta kemur fram í skýrslu Evrópunefndarinnar. Hvernig dettur nokkrum manni í hug, að stækkunarstjórinn segi annað, en evra án aðildar komi ekki til greina? Það þarf ekki að hitta hann til að vita svarið. Aðrar leiðir eru þó fyrir hendi. Um það þarf ekki að deila."
tilvitnun líkur
Hvernig væri nú að Dómsmálaráðherrann tæki upp símann og hringdi í forsætisráðherra og léti hann vita að það hafi verið mistök að senda þessa nefnd til Brussel til að komast að því sem dómsmálaráðherrann vissi nú þegar. Þannig mætti spara bæði dýrmætan tíma og fjármuni ríkisins.
Maður skyldi ætla að þeir sem sitja í ríkisstjórninni ræddu saman af og til og ef að Björn veit þetta allt saman (Margir aðrir virðast vita það líka miðað við umræður undanfarna daga) Hversvegna upplýsir Björn ekki Geir um að það sé tilgangslaust að fara þessa leið og að hann viti um aðra betri?
Í hvaða sandkassaleik eru Sjálfstæðismenn með fjöregg þjóðarinnar þessa dagana?
Seðlabankastjórinn - hvað er verið að fela?
19.9.2008 | 11:39
Nú hefur Seðlabankastjóri hellt úr skálum reyði sinnar yfir þjóðinni svo eftir var tekið. Björn Bjarnason talsmaður þriðju leiðarinnar við upptöku evru heldur ekki vatni yfir snilldinni en gleymir um leið að átrúnaðargoðið kallaði hann og fleiri sem misst hafa trúna á krónunni landráðamenn.
Offorsið og heiftin ásamt sífelldum flótta duglaus forsætisráðherra frá málefnalegri umræðu um hagstjórn og peningamálastefnu hlýtur að vekja menn til umhugsunar um hvað liggur að baki.
Getur verið að á Íslandi séu íslenskar krónur í bakherbergjum og undir koddum sem ekki þola dagsljósið? Getur verið að vegna laga um peningaþvætti verði mönnum gert ómögulegt að breyta svörtum krónum í evrur ef til þess kæmi og að Sjálfstæðisflokkurinn með Seðlabankastjórann í broddi fylkingar sé að verja það?
Spyr sá sem ekki veit, en það er ljóst að heiftin og málatilbúningurinn er með þeim hætti að hér virðist ekki allt með felldu. Í alvöru stjórnmálaflokkum eru málin rædd á málefnalegan og skynsaman hátt. Kostir og gallar metnir, einstakar leiðir að markmiði skoðaðar og annað hvort slegnar af eða skoðaðar nánar.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur á hinn bóginn verið upptekinn af því að kasta reyksprengjum inn í umræðuna, afvegaleiða hana og komast hjá því að svara. Ég neita að trúa því að svona illa sé komið fyrir flokknum að ekki sé hægt að ræða hlutina á málefnalegan hátt. Skyldi eitthvað annað að búa að baki?
Hver er þá vandinn Davíð
18.9.2008 | 22:08
Gæti verið að vandinn væri Geir Haarde. Vill Davíð að við tölum um getulausa úrræðalausa duglausa hrædda forsætisráðherrann sem stærir sig annan daginn af aðgerðarleysinu og ræður auglýsingastofu hinn daginn til að finna dæmi um að hann hafi verið í vinnunni og gert eitthvað undanfarnar vikur.
Er það Geir sem er vandamálið, eða er það mislukkuð ímyndarherferð Sjálfstæðisflokksins við að benda á að vandi þjóðarinnar sé erlendur sem fer svona í skapið á Seðlabankastjóra?
Hversvegna er verðbólga á Íslandi í dag? Hefur það ekkert með gengið að gera? Er gengið ekki verðið sem menn eru tilbúnir til að greiða fyrir KRÓNUNA á hverjum tíma. Davíð segir að krónan sé ekki vandamálið heldur verðbólgan, en hvort kemur nú á undan eggið eða hænan.
Menn fegra ekki vonlausan málsstað með því að vera orðljótir og svipljótir í drottningarviðtölum í fjölmiðlum. Seðlabankastjóra væri nær að ræða vandan á málefnalegum nótum, en það er augljóst að hann er rökþrota og kastar bara skít í allt og alla sem ekki eru honum sammála.
Held að hann ætti að nota sér eftirlaunalögin á meðan þau eru enn í gildi og koma sér í helga stein.
Davíð segir að krónan muni ná sér | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |