Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2009

Er rauðka á vetur setjandi ?

Fram kom í umræðum á framboðsfundi í Norðvesturkjördæmi að það er himinn og hafa á milli VG og Samfylkingarinnar í Evrópumálum.   Guðbjartur Hannesson taldi óhjákvæmilegt að sækja um aðild að ESB á næsta kjörtímabili en Jón Bjarnason taldi það hið mesta óráð.  Reyndar afhjúpaði Jón vanþekkingu sína á aðild að ESB og talaði um inntökuskilyrði í sambandið og ruglaði þar saman Evrópusambandinu og myntsamstarfi Evrópusambandsríkja.

Þessir flokkar leika tveimur skjöldum í málinu.  Ef þeir ætla saman í stjórn verður annar flokkurinn að gefa fullkomlega eftir í málinu.  Það er ekki hægt að vera bæði með og á móti í og ekki í ESB.   Það er heldur ekki traust að ríkisstjórn sem sækir um aðild sé klofin í málinu og annar stjórnarflokkurinn í raunverulegri andstöðu við það.  Sagan hræðir.  Samfylkingin hefur í tvígang fórnað Evrópustefnunni á altari ráðherrastólanna í stjórnarmyndun.   Hver segir að það gerist ekki aftur?  Það er ekkert sem bendir til að núverandi stjórnarflokkar komi sér saman um raunhæfa stefnu út úr vandanum hvorki í atvinnumálum, efnahagsmálum eða Evrópumálum og því líklegt að stjórnin verði ekki langlíf.

Framsóknarflokkurinn hefur aðildarviðræður á stefnuskrá sinni.  Flokkurinn hefur sett fram skilyrði sem væntanleg samninganefnd þarf að taka tillit til við samningsgerðina.  Aðrir flokkar telja þessi skilyrði þannig að þau í raun útiloki aðild.  Ég er sammála þeim, ef skilyrðin nást ekki er sjálfsagt að fella væntanlegan samning.   Skilyrðin eru ekki sett fram í þeim tilgangi heldur eru þau raunhæf og um sambærileg skilyrði hefur verið samið í aðildarsamningum annarra ríkja. 

Ég tek reyndar fram að eitt skilyrða framsóknar er ekki að finna í aðildarsamningum annarra ríkja.  En samningar eru samningar og rétt að samninganefndin haldi vel á hagsmunum þjóðarinnar og vinni að því að ná því fram.  Það er jú einu sinni þannig að í öllum aðildarsamningum hefur ESB orðið að gefa eftir og taka tillit til hagsmuna þeirrar þjóðar sem um sækir.  Annars þyrfti jú enga samninga.

Ástandið á Íslandi kallar á aðgerðir sem ekki þola bið.  Það verður að komast á hreint hver peningastefnan á Íslandi verður á næstu árum.  Hún þarf að vera trúverðug og styðjast við öflugan bakhjarl.  Aðild að ESB með upptöku Evru sem langtímamarkmið er eina peningastefnan sem nefnd hefur verið nú í aðdraganda kosninga.  Þessi leið gerir ráð fyrir stöðuleikasamningi við Seðlabanka Evrópu sem þá styður Seðlabanka Íslands við að ná fram nauðsynlegum stöðuleika og gengi til að geta skipt um mynt. Þessa leið vilja Framsóknarmenn láta reyna á.   Samfylkingin telur þetta einu færu leiðina út úr vandanum og aðrir flokkar vilja bara eitthvað annað, en benda ekki á neinar lausnir. 

Framsóknarmönnum hefur verið borið á brýn að vilja slá aðildarumsókn á frest.  Það er ekki rétt. Framsóknarmenn gera sér aftur á móti grein fyrir því að grípa þarf til aðkallandi aðgerða sem verða að hafa forgang í sumar.  Ef ekki er gripið til raunhæfra aðgerða til að styrkja atvinnulíf og efnahag fjölskyldnanna í landinu verður samningsstaða Íslands engin.  Þar skilur á milli Framsóknarflokks og Samfylkingar, en hún hefur ekki komið fram með neinar lausnir á bráðavanda atvinnulífs og heimila sem er nauðsynlegur undanfari aðildarviðræðna við ESB.  Þeir vilja sækja um með allt niður um sig og sjá hvað þeir fá.

Framsóknarflokkurinn erindi við þjóðina og það erindi hefur aldrei verið brýnna en nú.


Arðrán í nýjum búningi.....

Gamli verkalýðsforinginn ætlar að bjóða almenningi lán með 18,5% vöxtum.  Þetta kalla menn að gera vel við almenning á Íslandi.  Þetta þýðir á mannamáli 185.000 krónur í vexti af hverri milljón, eða 3,7 milljónir í vexti eina saman á ári af 20 milljón króna láni og þá á eftir að borga af láninu.

Þessu er svo pakkað inn þannig að ekki séu greiddar nema 70.000 af milljóninni og 115.000 krónur leggist við höfuðstólinn.  Það þýðir að af 20 milljónum bætast 2,3 milljónir við höfuðstólinn og 1,4 milljón krónur eru greiddar í vexti fyrir utan afborganir.  Þá verður höfuðstóll lánsins orðinn 24, 6 milljónir árið 2011.  Í núverandi árferði eru svo miklar líkur á að íbúðin sem keypt verður fyrir andvirði lánsins hafi fallið í verði.

Geta ríkisbankarnir ekki boðið betur en þetta?  Er þetta sú framtíð sem andstæðingar ESB vilja búa unga fólkinu á Íslandi?

Kunna menn ekki að skammast sín ?


mbl.is Landsbankinn býður óverðtryggð íbúðalán
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er frambjóðandinn týndur ?

Hvar er Illugi Gunnarsson frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík núna?   Það virðist skipulegt af Valhöll að fela frambjóðandann enda á hann erfitt með að skýra gjörðir sýnar í bankahruninu og í aðdraganda þess.

Fram hefur komið og ekki um það deild að Illugi Gunnarsson var í stjórn peningamarkaðssjóðs sem kallaðist Sjóður 9 hjá Glitni banka. Það er heldur ekki um það deilt að þessi sjóður stóð mjög illa þegar bankinn hrundi að mestu leiti vegna vafasamra viðskipta í vafasömum bréfum tengdra aðila.

Í prófkjörinu íhaldsins í Reykjavík gat Illugi ekki verið felum og reyndi að skýra aðkomu stjórnarmanna að starfssemi sjóðsins í bloggfærslu sem finna má hér.

Frambjóðandinn gerir enga tilraun til að skýra út hvers vegna hann sat þarna í stjórn.  Var það vegna þess að hann hafði fjárfest svona mikið í sjóðnum?   Var það vegna þess að bankanum þótti betra að hafa aðgang að þingmanninum og þess vegna var hann settur í stjórn?   Það vakna ýmsar spurningar bara um stjórnarsetuna eina og sér.

Það er ekki um það deilt að settir voru umtalsverðir fjármunir í sjóðinn til að bjarga því sem bjargað varð við hrunið.   Illugi fullyrðir að sjóðsfélagar hafi þar allir setið við sama borð, en það er nú öðru nær.   Margir fengu greitt út hlutfall af því sem þeir áttu og annað er tapað.   Fyrir öðrum er sjóðurinn ennþá lokaður og verið að semja um greiðslur þar sem gera má ráð fyrir að allt að 80% af fjármunum sé glatað.  Fjármunir sem stjórnin og starfsmenn sjóðsins áttu að gæta og ávaxta.

Illugi fullyrðir að engar greiðslur hafi komið úr ríkissjóði til að fela tap sjóðanna.  Varla duttu þessir fjármunir af himnum ofan?  

 Um þessa hlið málsins þegir Illugi þunnu hljóði.  

Ég spyr: 

Hvernig er stjórnarsetan tilkomin?

Bera stjórnarmenn í raun enga ábyrgð eins og Illugi fullyrðir?

Hvaðan komu fjármunirnir sem runnu inn í Sjóð 9 ?

Hverjir áttu þá fjármuni í raun?

Hverjir greiddu fyrir mannorð Illuga og voru þeir inntir álits áður ?


Hangið á völdum eins og hundur á roði

Sjálfstæðismenn mega ekki til þess hugsa að þjóðin hafi eitthvað um grundvallarlöggjöf landsins að segja.  Þeir eru dauðhræddir við að almenningur fái að hafa hönd í bagga við að semja nýja stjórnarskrá.  Þeim þykir það ekkert tiltökumál að ráðast á forsetaembættið hvenær sem þeim hentar og grafa undan því.  En ef ræða á grundvallarbreytingar á stjórnarskrá sem er orðin 130 ára gömul að stofni til verða þeir æfir.

Stjórnarskráin var samin í Danmörku á sínum tíma þegar völd konungs voru mun meiri en þau eru í dag.  Uppbygging stjórnkerfisins á Íslandi endurspeglar 130 ára gömul viðmið.  Íhaldsmennirnir vilja halda því fyrirkomulagi.   Það tryggir óeðlilegt ráðherraræði og völd embættismanna langt umfram það sem eðlilegt getur talist. 

Þetta kerfi á nú að verja með málþófi og Morfísæfingum í dag.  Er það ekki endanleg sönnun þess að það er komin tími á að gefa þessum valdagíruga flokki langt frí frá landsstjórninni.  Í Reykjavík voru íhaldsmennirnir settir í frí í 12 ár.   Kannski er komin tími á samskonar frí frá landsstjórninni. 

Sjálfstæðisflokkurinn virðir vilja þjóðarinnar um aðkomu að eigin málum að vettugi.   Þeir hafa nú sett upp á heimasíðu sína dæmalausa upptalningu um andstöðu margra aðila við breytingarnar.

Það vekur athygli mína að þeir finna eina og eina setningu sem þeir taka síðan úr öllu samhengi og  túlka sem andstöðu við allt málið í heild.   Ef þetta er það eina sem þeir finna þá blasir við að það er engin raunveruleg andstaða við málið nema í innsta kjarna Sjálfsstæðisflokksins og hjá embættismönnum skipuðum í skjóli flokksins.


mbl.is Vilja vísa stjórnarskrármáli frá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hversvegna þarf að leiðrétta lánin?

Undanfarið hafa byrst fréttir af því hvernig eigendur bankana tóku sér stöðu gegn krónunni.  Þeir veðjuðu á það að krónan myndi falla jafnvel til grunna eins og tilfellið er núna.   En til þess að geta veðjað þarf einhvern sem veðjar á móti þér.   Eigendur bankana ráðlögðu lífeyrissjóðum og sjávarútvegsfyrirtækjum að taka sér stöðu með krónunni.  Þeir veðjuðu við lífeyrissjóðina og sjávarútveginn.   Þeir voru helstu ráðgjafar sjávarútvegsfyrirtækjanna og lífeyrissjóðanna á sama tíma og þeir voru að plata þá.

Það getur verið að ekki sé hægt að koma lögum yfir þessa menn, en siðleysi þeirra hrópar.   Það er blasir við að með athæfið sýnu voru lánasamningar fyrirtækja og fjölskyldnanna í landinu settir í uppnám og sú staða sem nú blasir við er afleiðing þessa.   Þeir sem hafa til þess afl og getu í samfélaginu munu eflaust leita réttar síns í málaferlum en ekki má búast við miklum árangri þar sem einkafélög þessara manna eru öll eignalaus og gjaldþrota eða við gjaldþrot.  Eignirnar hafa farið eftir flóknum leiðum milli skyldra aðila og finnast ekki í dag, ef þær  voru þá til staðar.

Þegar menn tala um jafnræði og réttlæti verður að hafa þessa mynd í huga.   Er það jafnræði að sumir fái leiðréttingu vegna þess að svindlað var á þeim en aðrir ekki.   Er réttlætanlegt að svindla á fólki sem fór varlega í fjármálum eða fjárfesti í húsnæði fyrir 10 - 15 árum meðan verðlag var lægra en það er í dag?  Á þetta fólk að bera skaðann?  Þeir sem fór óvarlega, skuldbreyttu lánunum sínum í bönkunum og notuðu til að greiða upp lausaskuldir og yfirdrætti lækkuðu greiðslubrigðina tímabundið en breyttu ekki neyslunni eiga þeir einir að fá hjálp?

Samfylking og VG vilja gjaldþrotaleiðina til þess að gera dæmið upp.  Það á að setja fjölskyldur á vergang  Vega að stolti sérhvers manns.  Það er jafn sársaukafullt að verða gjaldþrota þó svo að árin sem þú ert hundeltur séu bara tvö í stað tíu.   Tvö ár í lífi fjölskyldu er langur tími, það er ennþá lengri tími í lífi barnanna sem ekki geta tekið þátt í leikjum og starfi vegna erfiðleika og slæmrar fjárhagsstöðu heima fyrir. 

En börnin, þau hafa ekki kosningarétt og þess vegna telja vinstri flokkarnir alveg réttlætanlegt að fara bara gjaldþrotaleiðina.  Það er hvort sem er bara helv.... pakk sem skuldar mikið og það á ekkert gott skilið.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband