Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Ísland í dag

Það er nánast sama hvar þú berð niður í heimspólitíkinni í dag allt er á sama veg. Aukin aþjóðavæðing.  Íslendingar eru sennilega með það hagkerfi í heiminum sem er mest háð alþjóðavæðingunni.  Fáar þjóðir eiga eins mikið undir milliríkjaviðskiptum og Íslendingar.  Við höfum komið málum svo í alþjóða stofnunum sem fjalla um regluverk milliríkjaviðskipta að bandamenn
okkar heita Noregur, Suður-Kórea og Sviss.  Ekki vegna þess að við eigum einhverja  sameiginlega hagsmuni aðra en vera sérvitir og óska eftir sér lausnum vegna þess að við séum öðruvísi en allir aðrir.

Reynsla undanfarinna ára er að á okkur er ekki hlustað, vægi okkar við samningaborðið er ekkert þrátt fyrir þessa merkilegu bandamenn okkar.  Heimsviðskiptin munu þróast áfram án þess að sérviska okkar og sérhagsmunir verði virtir viðlits.  Fulltrúar bænda á Íslandi hafa meira að segja komist að því að hagsmunum bænda verður mikið betur borgið innan ESB en utan þegar nýjar reglur um heimsviðskipti með landbúnaðarvörur taka gildi.

Forystumenn bænda kjósa samt að berjast á móti vegna þess að hagsmunir Þeirra og hagsmunir bænda fara ekki saman.  Í heimsviðskiptum verður ekki notast við Íslenska krónu, og varla í milliríkjaviðskitpum milli Íslands og annarra þjóða nema í takmörkuðum mæli og þá með höftum, belti og axlaböndum til að verja hina ónýtu krónu.  Við getum alveg eins notast við matador peninga eða hvíta steina eins og að notast við krónuna eins og hún er í dag.

Krónan nýtur ekki trausts hjá neinum, þjóðin treystir henni ekki og er stórum stíl flúin í svart hagkerfi sem lýtur öðrum lögmálum en til er ætlast af stjórnvöldum.  Fyrirtækin eru á harða hlaupum út úr krónunni og fara eitt til tvö fyrirtæki á viku.  Erlent fjármagn kemur ekki inn í landið og skuldatryggingarálag Íslands er þrefalt á við þær þjóðir sem við viljum bera okkur saman við.

Kaupmáttur og lífskjör hafa fallið 10 - 15 ár til baka á örskömmum tíma og fyrirsjáanlegt að leiðrétting tekur áratugi ef notast á við þær hugmyndir sem stjórnvöld bera á borð.  Fyrir dyrum eru fjöldauppboð á íbúðarhúsnæði landsmanna.  Kynslóðin sem bera á uppi einkaneyslu og hagvöxt næstu ára er eignalaus og verður upptekin við að greiða af skuldum næstu 30 árin.

Vöxtur í fjárfestingu liggur í máttvana tilburðum einstaklinga til að notfæra sér skattaafslætti til að viðhalda yfirveðsettu eigin húsnæði og ekkert er verið að fjárfesta eða byggja upp til framtíðar.  Sveitarfélög og stórfyrirtæki fá ekki endurfjármögnun lána og stórhætta er á gjaldþrotum sem skekja munu þjóðfélagið á næstu mánuðum.  Vaxtastig er sexfalt á við það sem gerist hjá þeim þjóðum sem við keppum við á alþjóða mörkuðum.

Ráðuneyti eru umsetin af fulltrúum erlendra fjármagnseigenda sem opnað hafa skrifstofu í Reykjavík og rýna öll lagafrumvörp og endursenda stjórnvöldum með skilaboðum um hverju þarf að breyta áður en Alþingi fær að líta tillögurnar augum.   Lögfræðiálitum Seðlabanka og opinberra aðila
er stungið undir stól og logið að þjóðinni og sett upp leikrit í réttarsölum þar sem ný útskrifaðir lögfræðingar eru teknir framfyrir í röðinni til að leitast við að fá "rétta" niðurstöðu hjá dómsstólum.

Stjórnmálaflokkar hafa ekki lagt fram neinar raunhæfar tillögur um það hvernig takast á við vandan.  Þrátt fyrir þetta berjast öfl í þjóðfélaginu á hæl og hnakka til að koma í veg fyrir að þjóðin fái að vita hvað raunverulega fellst í aðild að ESB.  Hvað hagsmuni er verið að verja ?


Er ástæða til að reka RÚV fyrir almannafé ?

Starfsmenn RÚV eru með stofnunina í gíslingu.  Hver man ekki eftir fréttastjóramálinu?  Þegar setja átti mann með viðskiptavit yfir fréttastofuna þá var allt vitlaust og fram koma að starf fréttastjóra væri bara að raða mönnum á vaktir og skrifa upp á leigubílanótur og að hann þyrfti ekkert að kunna að fara með peninga.  Árangurinn er 1, 1 milljarður í kostnað og fréttastofa sem alveg má missa sig.

Nú þegar handboltinn er farinn af RÚV er full ástæða til að lækka nefskattinn um amk helming það er hvort sem er ekkert eftir sem spennandi er að horfa á.

Varðandi Spaugstofuna þá man ég ekki betur en að sá þáttur hafi verið kostaður lengi vel af KB-banka og Arion banka síðar.  Það hefur ekkert komið fram hverjar tekjurnar voru í formi kostunar.  Ég tel miklu líklegra að vanhæfa ríkisstjórnin hafi notað tækifærið og beitt sér fyrir því að spaugstofan verði tekin af dagskrá þar sem hún þolir ekki að gert sé að henni grín.


Forstjóri Neytendastofu á að segja af sér.

Það er skrýtið að lesa haft eftir forstjóra Neytendastofu að stofan hefði lítið geta gert vegna ólöglegra lána vegna þess að neytendur voru svo ánægðir með lánin.  Yfirlýsingin er hreint ótrúleg og vekur upp spurningar hvort maðurinn sé á réttri hillu í sýnu starfi.

Forstjórinn lítur á það sem hlutverk sitt að bíða eftir kvörtunum og fylgja málinu síðan eftir, en ekki að tryggja að farið sé að lögum og reglum á neytendamarkaði.  Það er semsagt allt löglegt samkvæmt neytendastofu ef enginn kvartar.

Í samfélaginu eru margar stofnanir sem taka eftirlitshlutverk sitt alvarlega og grípa inn í ef ekki er farið að settum leikreglum og stundum verða þessar stofnanir óvinsælar fyrir vikið.  En það er þeirra hlutverk að fyrirbyggja slys og það er tekið hátíðlega.

Neytendastofa lítur greinilega öðrum augum á málið þrátt fyrir ákvæði t.d. í 25 gr. laga um neytendalán þar sem segir

 "25. gr. Neytendastofa annast eftirlit með ákvæðum laga þessara. Ákvæði laga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins gilda um úrræði Neytendastofu og málsmeðferð."

Hér er skýrt tekið fram að Neytendastofa annist eftirlit með ákvæðum þessara laga.  Það hlýtur að fela í sér meiri skyldur en bara að sitja og bora í nefið þar til einhver leggur fram kvörtun.
Fjarvera neytendastofu úr umræðunni um skuldastöðu heimillanna, forsendubrest vegna stöðutöku bankanna gegn krónunni og ólöglegra erlendra lána er hrópandi.   Neytendur á Íslandi eiga skilið betri embættismenn sem tala þeirra máli og sinna sínum störfum. Embættismenn sem velja ekki bara auðveldu leiðina til að komast hjá vinnu eða umræðu.


Auðvitað er Ögmundur á móti - nema hvað ?

Hér ríkir minnihlutastjórn minnihluta Vinstri Grænna með hlutleysi Samfylkingar og meirihluta VG. Ögmundur hljópst snemma undan merkjum og fer sýnu fram án þess að þurfa að sýna nokkra ábyrgð.
mbl.is Ekki til í þjóðstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

svik á svik ofan

Var ekki gert samkomulag um dagskrá þingsins í gær ?  Stóðu formenn og þingflokksformenn ekki að því samkomulagi?

Er aldrei hægt að vinna nokkurn skapaðan hlut af viti þarna niðri á Alþingi ?


mbl.is Vilja ESB-málið á dagskrá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnmálin eru fyrir fólkið

Að afloknum kosningum er ljóst að gömlu stjórnmálaflokkarnir eru ekki að svara kalli fólksins.  Allir geta flokkarnir fundið ljós í kosningaúrslitunum en samt er dómur kjósenda skýr.   Kosningaþátttaka er að dragast saman og æ fleiri lýsa óánægju sinni með stjórnmálaflokkanna með því að mæta á kjörstað til að skila auðum seðli.  Skýrari skilaboð er ekki hægt að gefa.

Stjórnmál snúast um traust og þau snúast um skýra valkosti.  Kjósendur vilja vita hvers er að vænta af flokkunum ef þeir treysta þeim til valda.  Ég tel að vandi gömlu flokkanna sé að hluta til fólgin í því að það veit enginn fyrirfram hvað þeir gera eftir kosningar. 

Stjórnmálaflokkar eru fólkið sem starfar í flokkunum.  Undanfarin ár fjölgar stöðugt fólki sem vill ekki koma nærri stjórnmálum vegna þeirra vinnubragða sem þar hafa verið ástunduð.  Hugsjónir og málefnastarf, lausnir og markmiðsetning víkur fyrir deilum um einstaklinga.   Stjórnmál á Íslandi undanfarna tvo áratugi hafa verið vörðuð af valdabaráttu og hagsmunapoti á kostnað hugsjóna og framtíðarsýnar.

Ef það er eitthvað sem við getum lært af þessum kosningum er það að kjósendur trúa ekki lengur loforðum flokkanna fyrir kosningar.  Það er alveg sama hvað er borið á borð vegna þess að það er ekki hægt að treysta því að það verði efnt.   Krafan um persónukjör sýnir að kjósendur vilja velja fólk sem hefur ákveðna lífsskoðun og lifir og starfar eftir gildum sem höfðar til þess.  Þeir finna ekki neinn einn flokk sem uppfyllir þessa þörf.

Stjórnmál eiga að snúast um hugmyndafræði, stefnumótun og lausnir.  Flokkarnir hafa fallið í það far að gleyma bæði hugmyndafærðinni og stefnumótunni. Kosningaloforðin snúast bara um ódýrar lausnir á þeim vandamálum sem hæst ber á kosningaári en ekki af framtíðarsýn.  Þetta gæti kannski gengið ef kosið væri til árs í senn en kjörtímabilið er fjögur ár. Kjósendur verða að geta treyst því að flokkarnir hafi grunngildi og framtíðarsýn sem segir hvernig tekið verði á málum sem upp koma.  

Þjóðin þarf skýrar línur en ekki að það sé sami grautur í öllum skálunum.  Fólkið kýs um innihaldið en ekki umbúðirnar.  Kjósendur vilja stefnu en ekki vörumerki.  Það lifir enginn á fornri frægð til lengdar í stjórnmálum.  Þegar talað er um að hollustan við gömlu flokkanna sé að hverfa þá er það vegna þess að fólk finnur ekki samsvörun í flokkunum við lífsskoðun sína.  Flokkarnir hafa misst sjónar á grunngildum sínum og þar ægir saman mismunandi skoðunum og hagsmunum og oft er þar himinn og haf á milli. 

Það verður bara að viðurkenna það að spilling er landlæg í íslenskum stjórnmálum.  Birtingarmynd spillingarinnar er að hugsjónum og stefnu er varpað fyrir borð bara til að halda völdum.  Og jafnvel til þess að fjármagna framboð og flokksstarf. Það er ekki tekin málefnaleg afstaða til þeirra mála sem uppi eru heldur snýst afstaðan meira um taktík.  Stjórnmálamenn leggja hugmyndafræði og stefnumál til hliðar til að klekkja á andstæðingnum og þjóðin er fórnarlambið. 

Í íslenskum stjórnmálum eru bara tveir pólar, við og hinir en fólkið gleymist. 


Skítavinnubrögð

Þessi frétt er í megin atriðum ósönn en kannski ekki við öðru að búast af Mogganum tveimur dögum fyrir kosningar. Það er íhaldið sem tapar manni en ekki Framsókn. Þetta er dæmi um fréttamann sem segir ekki fréttir heldur ber drauma sína á torg í fréttasnepli.  Þetta er lýsandi dæmi fyrir fjölmiðla á Íslandi í dag.  Þeir hafa ekkert lært af hruninu og sannleikurinn er ennþá aukaatriði.

Núna hefur fréttin verið leiðrétt seint og um síðir. Kannski fannst einhver í Hádegismóum sem skammaðist sín fyrir vinnubrögðin.


mbl.is Meirihlutinn fallinn í Kópavogi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Má Dagur fá 100 milljónir ?

Það er fróðlegt að fylgjast með kosningabaráttunni í Reykjavík og þeim tvískinnungi sem Samfylkingin viðhefur í henni.   Á þessu kjörtímabili hefur Dagur B. Eggertsson eytt miklum tíma í að ræða tengsl Óskars Bergssonar við Eykt og þá styrki sem Óskar fékk frá því fyrirtæki í prófkjöri 2006.  Nú hefur verið upplýst að styrkur Óskars var 700 þúsund krónur og kostnaður við prófkjörið í heild um 1,5 milljónir. 

Dagur fékk 5,6 milljónir og þar af um 3 milljónir króna frá lögaðilum í sitt prófkjör á saman tíma. Hann sér aftur á móti enga ástæðu til að draga sig í hlé.  Hann gerir greinilega meiri siðferðiskröfur til annarra en hann gerir til sín.  Þannig menn eru yfirleitt taldir stórhættulegir, menn sem telja að lög og reglur eigi bara við um aðra en ekki þá sjálfa. 

Nú hefur frambjóðandi Samfylkingarinnar sagt að Steinunn Valdís eigi að segja af sér þingmennsku vegna styrkja og í því ljósi og í ljósi mýmargra ummæla Dags B um Óskar Bergsson væri ekki úr vegi að Samfylkingin gæfi út lista yfir siðferðisviðmið flokksins og hvaða einstaklingar eru undanþegnir þeim viðmiðum og þá hvort og hvaða viðmið gilda um menn eins og Dag B Eggertsson. 


Jafnræði við upplýsingagjöf

Í áliti meirihluta utanríkismálanefndar við þingsályktun um aðildarumsókn að ESB er lögð áhersla á upplýsingagjöf til almennings.  Þar lagt upp úr því að upplýsingagjöfin sé hlutlaus og sanngjörn.  Sjónarmið þeirra sem vilja aðild og þeirra sem sem eru á móti aðild eiga að njóta jafnræðis og fá sambærilegan stuðning hins opinbera til að kynna sjónarmið sýn.

Orðrétt segir á áliti meirihlutans: "Meiri hlutinn bendir á að mikilvægur þáttur í upplýsingamiðlun af þessu tagi er einnig að gera félagasamtökum sem málið varðar kleift að kynna málstað sinn, en slíkt var einnig talinn mikilvægur þáttur í lýðræðislegri umræðu um ESB-aðild í Finnlandi á sínum tíma. Meiri hlutinn leggur því til að stjórnvöld sjái til þess að fjármunir verði til ráðstöfunar þannig að félagasamtök sem málið varðar geti með beinum hætti tekið þátt í opinberri umræðu og miðlað upplýsingum um málið."

Bændablaðið hefur haldið uppi víðtækum áróðri gegn aðild að ESB og virðist gera menn út af örkinni til landa ESB til að afla upplýsinga til að styðja málstaðinn.  Bændablaðið er samkvæmt heimasíðu Bændasamtaka Íslands hluti af útgáfustarfssemi samtakanna.  Samtökin eru að stórum hluta fjármögnuð af opinberu fé og því sjálfsagt að framlög til útgáfu á áróðursriti gegn aðild að ESB eins og Bændablaðinu séu reiknuð sem hluti af opinberum stuðningi við félagasamtök sem taka þátt í umræðu um aðild að ESB.

Það blasir við að þeir sem telja hagsmunum Íslands betur borgið innan ESB en utan eiga kröfu á samfærilegu fjármagni til að halda úti áróðursriti sem prentað er í yfir 20.000 eintökum, kemur út 22 sinnum á ári og dreift er frítt um allt land.

Ég velti því einnig fyrir mér hverjir fjármagna ferðir einstaklinga (ríkisstarfsmanna) sem skrifa reglulega í blaðið gegn aðild að ESB.  Eins og málin horfa við mér virðist ráðuneyti Landbúnaðar og sjávarútvegsmála hafa tekið að sér að fjármagna þá sem tala gegn aðild en hvert eiga þeir sem tala fyrir aðild og vilja t.d. fara utan til að kynna sér ESB að leita ?

Það er kannski næsta skref að leita til umboðsmanns Alþingis og fá álit hans, eða er nóg að leita til Jóns Bjarnasonar ráðherra og getur maður þá vænst þess að fá svipaða fyrirgreiðslu og andstæðingar aðildar njóta í ráðuneyi hans?


Fullyrðingar Black um bankarán

Ég velti því fyrir mér hvort það sé nokkur innistæða fyrir þeim fullyrðingum Williams K. Black að hér hafi verið framið bankarán.   Hefur maðurinn haft fyrir því að kynna sér íslenska löggjöf áður en hann leggur fullyrðingarnar á borð?

Er það tryggt að íslensk lög hafi verið sambærileg við þau lög sem hann leggur til grundvallar þegar hann talar um bankarán?   Ég er ekki viss.  Ég vona, satt að segja, að hægt verið að koma lögum yfir þá sem settu bankanna á hausinn.  En ég hef heyrt á mönnum, erlendum, sem kynnt hafa sér lög um reikningsskil og uppgjör fyrirtækja á Íslandi að þau séu ófullkomin, gömul og úrelt.

Lög verða ekki sett eftirá til að stoppa í götin og menn verða dæmdir samkvæmt þeim lögum sem voru í gildi þegar brotin voru framin.   Sennilega skýrir það a.m.k. að hluta til hvers vegna það tekur langan tíma að rannsaka mál og leggja fram ákærur. 

Svona fullyrðingar byggja upp væntingar til þeirra sem rannsaka mál og til dómskerfisins, en að lokum verður dæmt samkvæmt laganna hljóðan og það er ekki tryggt að niðurstaðan verði þeim að skapi sem hrópa hæst í dag.

Vonandi tekst að koma lögum yfir lögbrjóta og glæpamenn og vonandi ber okkur Íslendingum gæfa til að taka upp í Íslenska löggjöf lög sem halda aftur af glæpamönnum í framtíðinni.  En það er bæði kostnaðarsamt og tímafrekt að fylgja tíðarandanum og stoppa upp í þau göt sem góðir endurskoðendur finna í lagaverkinu.  

Íslendingar tíma varla að halda úti stjórnsýslu, löggjafarþingi og stjórnmálalífi þannig að sómi sé að og því vandfundin sú leið að hér verði sett almennileg löggjöf nema þá að tökum upp t.d. Evrópskar reikningsskilareglur og lög um uppgjör fyrirtækja.

Íslensk stjórnsýsla verður alltaf lítil og vanmáttug til að takast á við aukna alþjóðavæðingu og ekki bætir úr skák fáránlegar reglur um að laun í stjórnsýslunni miðist við allt of lág laun forsætisráðherra. 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband