Bloggfærslur mánaðarins, október 2008

Eru fleiri óveðurský við sjóndeildarhringinn ?

Fyrir 50 árum sendi Bank of America plast kort til næstum allra íbúa í Fresno í Kaliforníu, plast sem kallað var BankAmericaKort.  Í um það bil 60.000 umslögum lá lausnin á því hvernig heimilin gætu orðið sér úti um fleiri þúsund dollara til að versla fyrir.

Diners Club hafði reyndar komið tveimur árum áður með samskonar póstsendingu þar sem hægt var að borga vexti í skipta og dreifa greiðslunni og þetta var upphafið að mikilli kortanotkun í Ameríku.

 

Þegar á öðru ári höfðu íbúar Frexno verslað fyrir næstum 60 milljónir dollara og núna 50 árum seinna er BankAmericacard orðið að heimsrisanum Vísa.

Árið 1968 skulduðu bandaríkjamenn um 1,5 milljarð dollara í kreditkortaskuldir.  Nú í júlí 2008 var kreditkortaskuld bandaríkjamanna komin í hvorki meira né minna en 969,9 milljarða dollara. Til samanburðar áætlaði Fortune Magazine í október í fyrra að vandamálin vegna undirmálslánanna sem er rótin að núverandi kreppu væru uppá 900 milljarða dollara.

 

Kreditkort hafa verið hluti af neytendakultúr í Bandaríkjunum í mörg ár, og reyndar líka hér á Íslandi.  Í dag er kreditkortaskuld heimilanna í Bandaríkjunum um 20% af tekjum þeirra en þessari skuld er velt á undan sér þar sem það hún er greidd upp að stórum hluta um hver mánaðarmót og síðan safna menn skuldum næsta mánuð.  Undanfarin ár hefur verið jafnvægi milli kortaskulda og tekna.

 Síðastliðið ár hafa kortaskuldirnar aukist mikið milli ára  eða um 8% á þriðja og fjórða ársfjórðungi síðasta árs og um 7% í Maí en það eru síðustu þekktar tölur.  Þetta bendir til þess að bandaríkjamenn líti á kortin sín sem hluta af tekjunum.   

Nú reikna kortafyrirtækin með að vanskil við þau aukist og reiknað er með að  á þriðja ársfjórðungi 2008 verði þau  5,2% samanborið við 3,66% á sama tíma í fyrra. Skýringarinnar er að leita í að fólk á erfiðara með að standa í skilum þegar olíuverð og matvara hækkar og atvinnuleysi eykst.. Aukið atvinnuleysi mun síðan draga úr einkaneyslu en hún er um tveir þriðju hlutar af Bandarískum efnahag.

 

Ken Lewis bankastjóri i Bank of America, Ken Lewis, sem margir telja valdamesta manninn í viðskiptaheiminum telur að næstu ár verði erfið.  Hann telur að stærstu vandamálin sem bankarnir standi frammi fyrir séu að neytendur geti ekki staðið í skilum og þaðan af síður að þeir geti tekið ný lán.  Hann telur að blómaskeið bankaþjónustu sé liðið og það muni ekki ná sér í fyrirsjáanlegri framtíð.

 

Íslendingar hafa tekið Bandaríkjamenn sér til fyrirmyndar í kortanotkun og á mörgum sviðum gengið lengra í kortanotkun en þekkist í öðrum löndum.  Það væri fróðlegt að vita nú hver staðan er hjá Íslensku kortafyrirtækjunum.   Í Bandaríkjunum er rætt í fullri alvöru um að afskrifa allt að 40% af kortaskuldum einstaklinga og gefa þeim kost á að skuldbreyta restinni til nokkurra ára til að koma í veg fyrir hrun í einkaneyslunni.  

 Ætla Íslendingar að sigla sofandi að feigðarósi eða má gera ráð fyrir að menn hafi lært af reynslu undanfarinna vikna og að Fjármálaeftirlitið með  Talsmanni neytenda og öðrum sem láta sig hagsmuni neytenda og almennings varða setjist nú niður og skoði stöðuna hér á landi og horfi til þess hvaða ráð aðrir eru að skoða til að koma í veg fyrir enn frekara hrun efnahagslífsins ?  

Viljum við aðstoð ?

Ég átti í gær, ásamt Valgerði Sverrisdóttur,  fund með þingmanni frá norska Miðflokknum sem kom hingað gagngert til að fræðast um ástandið á Íslandi og hvernig Norðmenn gætu komið að því að aðstoða okkur í þeirri stöðu sem uppi er.  Í samtölum okkar kom fram að það sé ósköp lítið sem Norðmenn geti gert ef ekki kemur til eitthvert frumkvæði frá okkur íslendingum.

Norska ríkið á 34% eignarhlut í stærsta banka Noregs og spurði ég hann beint hvort hann teldi mögulegt að sá banki væri til í að kaupa einn af íslensku bönkunum bæði til að auka hér samkeppni, til að fá fjármagn í ríkiskassann á erfiðum tímum og til að tryggja að hér verði opnaðar leiðir fyrir gjaldeyri inn í landið hratt og örugglega.

Hann sagði þetta dæmi um þá aðstoð sem Norðmenn væru tilbúnir að skoða með opnum huga, en að til þess að svo megi verða þarf frumkvæðið að koma frá Íslandi.  Ríkisstjórnin situr við sinn keip og virðist upptekin við að rífast um aðild að ESB eða ekki aðild að ESB.    Það fer ósköp lítið fyrir öllum tilraunum til þess að horfa fram á veginn og byggja hér upp. 

Það er skiljanlegt að almenningur sé sár og reiður og leiti sökudólga, en stjórnvöld og stjórnmálamenn verða að leita lausna, raunhæfra lausna sem hægt er að grípa til í dag.  Það er ekki hægt að dvelja við pólitíska drauma um ESB sem lausn á vanda dagsins í dag.   Ef menn telja ESB leiðina lausn eiga stjórnarþingmenn að beita sér fyrir flýtimeðferð á frumvarpi Birkis J. Jónssónar um þjóðaratkvæði í stað þess að liggja í skotgröfunum og karpa.  

Þannig kemst vilji þjóðarinnar fram. Verkefni dagsins er að koma fyrirtækjunum og heimilunum í gegnum vandann eins og hann blasir við og þar vantar hugmyndir og tillögur frá stjórnvöldum.

 


Allt ber að sama brunni

18% stýrivextir eru gjaldið sem fyrirtækin og almenningur þarf að greiða fyrir þau forréttindi að eiga viðskipti í íslenskum krónum.   Ég segi fyrir mig að ég hef bara ekkert með þessi forréttindi að gera og óska hér með eftir því að vera leystur undan gjaldinu og fá að eiga mín viðskipti í mynt sem ekki þarf að borga þennan háa aðgangseyri fyrir.  Forréttindin hafa aldrei gagnast mér, bara kostað mig útgjöld og engar tekjur, enda ekki í aðstöðu til að spila á vaxta og gengismun eins og fjármagnseigendur þessa lands.

Elsku Davíð leyfðu mér bara að fara í Evru og þú mátt leika þér í krónuhagkerfinu án mín.


mbl.is Harkalega skipt um gír
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þeir tala og tala og tala

En að láta verkin tala.... það fer minna fyrir því
mbl.is Ísland endurskoði ESB-afstöðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðild að ESB er komin á dagskrá

Núna þegar ASÍ virðist ætla að taka af skarið í Evrópuumræðunni og samþykkja stefnubreytingu sem felur í sér að stærstu samtök á vinnumarkaði vinna að aðild Íslands að ESB er ekki lengur hægt að tala um að málin séu ekki á dagsskrá.  

Það er heldur ekki stórmannlegt af stjórnmálamönnum að skilja ekki kall tímans og taka þátt í umræðunni.   ASÍ setur aðildina á dagsskrá vegna þess að þar á bæ telja menn það vera hagsmuni launamanna að við séum í ESB.   Þeir sem berjast á móti aðild verða að sýna fram á hvernig við náum upp sama kaupmætti eða meiri án aðildar og reikna má með að við fengjum með aðild.

Myntbreyting á Íslandi mun leiða til þess að erlendir bankar hefja starfssemi hér og bjóða lán á kjörum sem við höfum aðeins geta látið okkur dreyma um síðustu árin.   Það er einfalt reikningsdæmi fyrir hvern og einn að reikna út mismun afborgun af verðtryggðum lánum og síðan af lánum á kjörum eins og tíðkast í Evrópu. 

Eina óþekkta stærðin í dæminu er í raun á hvaða gengi verður skipt um mynt, verður gengisvísitalan 170 eða verður hún 120 það skiptir máli.   Um það ættu menn að takast á en ekki hvort við eigum að fara inn. Það eru engir betri kostir í stöðunni fyrir hinn almenna launamann á Íslandi.  Að þessu hefur ASÍ komist og setur því aðild á dagsskrá. 

Þeir sem sífellt vilja fresta umræðunum verða að benda á önnur raunhæf úrræði sem gagnast launafólki jafnvel eða betur.   Nú er aðild orðin að kjaramáli og stjórnmálaflokkar og stjórnmálamenn geta ekki lengur slegið málum á frest eða skotið sér undan ábyrgð.  Umræðan snýst um að verja lífskjör almennings í fyrirsjáanlegum samdrætti og það verður að gera það núna, ekki seinna. 


Tala minna og gera meira

Þá fengi þjóðin kannski örlitla trú á þér Össur.


mbl.is Ekki framhjá lögum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugsið ykkur bara

Ef við værum með evru væru engin vandamál á gjaldeyrismarkaði með krónu og menn gætu einbeitt sér að öðrum aðkallandi málum.
mbl.is Enn vandamál á gjaldeyrismarkaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver treystir Birni Bjarnasyni ?

Á nú að skipa einhvern flokksgæðing til að hvítþvo Björgúlf, Kartan, Davíð og alla hina?
mbl.is Allt verður rannsakað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Draumalandið er orðið að martröð

Þessa dagana upplifum við skipbrot draumalandsins.   Hugmyndafræði draumalandsins gekk út á að við hefðum ekki þörf fyrir að nýta auðlindir landsins.   Allir þeir sem vildu byggja traustar undirstöður undir þjóðarbúið með skynsamlegri nýtingu auðlinda í þágu lands og þjóðar voru illa séðir í draumalandinu.  

Við framsóknarmenn upplifðum þetta í síðustu kosningum.  Við vildum skynsamlega nýtingu auðlindana, við vildum að stofnaður yrði auðlindasjóður sem færi með ráðstöfun sameiginlegra auðlinda þjóðarinnar og skilaði þjóðinni arðinum.   Auðlindasjóðurinn átti að ráða yfir öllum sameiginlegum  auðlindum svo sem vatnsréttindi, hitaréttindi, olíu, í sjávarútvegi og nýtingu þjóðlenda í þágu þjóðarinnar.

Þessu höfnuðu aðrir flokkar á þingi í aðdraganda síðustu kosninga, og þessu hafnaði krúttkynslóðin í síðustu kosningum.  Nú standa allir á torgum og vildu Lilju kveðið hafa.   Nú er komið fram að ríkisstjórnin kaus að leyna þjóðina sannleikanum um stöðu bankana og stakk skýrslu þar um undir stól og lét sem ekkert væri að.  

Ég á mér draum, draum um að þjóðin komist frá því ástandi sem nú ríkir í þjóðfélaginu sterkari og samhentari en hún hefur verið lengi.   Ég á mér þann draum að við eignumst leiðtoga sem horfa fordómalaust á viðfangsefnin með hagsmuni almennings og fjöldans í huga, ekki hagsmuni fárra.

Framsóknarmenn hafa flutt tillögur um auðlindasjóðinn á Alþingi og nú er lag fyrir þjóðina að tryggja stöðu auðlinda sem þjóðareignar.    Mikilvægt að í stjórnarskrána komi ákvæði um auðlindirnar og væntanlegan auðlindasjóð og þannig verði staðið vörður um fjöreggið.   Þegar harðnar á dalnum eru það landsins gagn og gæði sem telja en ekki huglæg verðmæti á markaði.

Mikilvægt er að nýting á auðlindum þjóðarinnar sé stýrt í þann farveg að hugað sé að atvinnuuppbyggingu um allt land.  Stórkostleg verðmæti hafa farið forgörðum í fólksflutningum undanfarinna ára.  Fólk hefur flúið heimabyggð í leit að atvinnu og betra lífi og skilið eftir byggingar og sköðuð samfélög.  Á þessu hefur þjóðin ekki efni til lengdar, ný skipan atvinnumála verður að taka mið af þessari staðreynd.

Þessi vetur verður mörgum erfiður og mikilvægt er að leiðtogar þjóðarinnar stappi stálinu í þjóðina og láti einskis ófreistað við að leita lausna.   Þar verða hagsmunir fólksins að vera í fyrirrúmi.  Ekki er lengur hægt að slá erfiðum ákvörðunum á frest.   Nú verðum við að kanna í fullri alvöru með aðildarviðræðum við ESB hvað íslendingum stendur til boða.   Það er ljóst að efnahagsumhverfið í Evrópu er með allt öðrum hætti en hér og því líklegt að vinna megi upp að miklu leiti fyrirsjáanlegt kaupmáttartap almennings með lægri skattabirgði í ESB.  

Þetta gerist ekki á einni nóttu en það er mikilvægt í vetur þegar fjöldi fólks lendir í atvinnuleysi að fólk viti að allt sé gert til að búa því betri framtíð.  Framtíð þar sem íslendingar búa við sambærileg kjör og þjóðirnar í kringum okkur.    Okkur hefur ekki tekist að viðhalda nauðsynlegum stöðuleika með íslensku krónuna, það er öllum ljóst.   Stöðuleiki frá stríðslokum 1945 til dagsins í dag hefur lengst varað í um 30 mánuði seint á 10 áratug síðustu aldar.   Allar þekktar aðferðir í hagstjórn hafa verið reyndar á þessu tímabili og niðurstaðan er öllum ljós.   Almenningur þarf ekki á fleiri tilraunum að halda heldur raunhæfum lausnum sem þjóðin trúir á.  Annars er hætta á stórfelldum landflótta og við því megum við ekki. 

Íslendingar hafa ekki byggt upp öflugt menntakerfi og menntað heila kynslóð fyrir aðrar þjóðir.  við þurfum þetta fólk hér heima til að byggja upp öflugt og sanngjarnt samfélag.   Nú þarf nýja framtíðarsýn sem byggir á skynsamlegri nýtingu auðlindana og ég vona heitt og innilega að flokkurinn minn, framsóknarflokkurinn beri gæfu til að varða leiðina inn í nýja öld.

Til þess að svo megi vera verða allir að leggjast á eitt og kasta fyrir róða gömlum kreddum og leita fordómalaust að lausnum sem lýsa þjóðinni fram á veginn.


Hver eru svo skilaboðin frá Davíð?

Aðspurður sagði Davíð Oddsson fyrir viku síðan að ekki væri dregið á lán frá Seðlabönkum norðurlandanna vegna þess að það gæfi skilaboð um að Ísland stæði enn verr en efni stæðu til.

Nú hefur þessi sami Davíð tekið 200 milljón evrur frá Danmörku og annað eins frá Noregi.  Ekkert frá Svíþjóð enda altalað að hann þolir ekki Svía.  (Frumkvæði að gjaldeyrisskiptasamningi við Seðlabanka Bandaríkjanna kom frá Svíum og þess vegna vorum við ekki með.)  Hvaða skilaboð eru þetta ef vikugömul yfirlýsing hans er skoðuð?   Ísland stendur enn verr en hann hélt fyrir viku!  Er þetta líklegt til að bæta samningsstöðu þeirra sem róa nú lífróður til að bjarga því sem bjargað verður?

Hvað á þessi brennuvargur að fá að vaða uppi lengi og skaða hagsmuni þjóðarinnar ?


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband